1.1 C
Selfoss

Hildur Jónsdóttir kjörin forseti Soroptimistasambandsins

Vinsælast

Á fjölmennum landsfundi Soroptimistasambands Íslands, sem haldinn var á Selfossi 21. og 22. apríl sl., var Hildur Jónsdóttir úr Soroptimistaklúbbi Suðurlands kjörin forseti Soroptimistasambandsins fyrir árin 2025 og 2026. Skuldbindingin er þó til fjögurra ára, en verðandi forseti mun starfa með stjórn sambandsins árið 2024 til að læra allt um hið mikla starf sem fram fer á meðal Soroptimista um allt land – og allan heim – og síðan einnig árið 2027 til að miðla til nýrra stjórnarkvenna. 

Í Soroptimistasambandi Íslands eru hátt í 700 félagskonur, systur, og starfa þær í 19 klúbbum um allt land að fjölbreyttum verkefnum í þágu kvenna, barna, jafnréttis og mannréttinda. Þá er Soroptimistasamband Íslands aðili að Heimssambandi Soroptimista sem starfar í 122 löndum og er mikil virkni í heimsverkefnum af ýmsu tagi. Meðal annars er stutt dyggilega við bakið á systrum í Úkraínu og í Tyrklandi. 

Á landsfundinum var gerð sú lagabreyting að frumkvæði að inngöngu nýrra félagskvenna þarf ekki að koma frá starfandi systrum, heldur getur hver og ein óskað inngöngu sjálf. Á Suðurlandi er það hægt með því að senda póst á netfangið jonaingvars@gmail.com.

Hildur er verkefnisstjóri Sigurhæða, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis, sem Sor-optimistaklúbbur Suðurlands kom á fót fyrir rúmum tveimur árum og er það staðsett á Selfossi.

Nýjar fréttir