7.8 C
Selfoss

Fjölbreytt dagskrá á bókmenntahátíðinni Máttugar meyjar

Vinsælast

Bókmenntahátíðin Máttugar meyjar verður haldin á Eyrarbakka 15.-23. apríl í tilefni af 10 ára afmæli Konubókastofu. Hátíðin er fjölbreytt og haldin á ýmsum menningarstöðum í bænum.

Rappnámskeið og handavinnustund

Hún hefst kl. 14, laugardaginn 15. apríl með rappnámskeiði í Gömlu kartöflugeymslunni. Þær Steinunn og Ragga úr Reykjavíkurdætrum munu kenna börnum í 4-7 bekk textasmíð og flutning. „Við byrjum á því að fræða þátttakendur um rapptónlist og textasmíð og leggjum áherslu á hugtökin inntak, flæði og flutningur,“ segja þær aðspurðar um efni námskeiðsins. „Seinni hluti smiðjunnar fer í það að semja erindi undir okkar handleiðslu og að flytja það.“

Fimmtudaginn 20.apríl kl. 16 verður handavinnustund á Konubókastofu. Þar verða gestir hvattir til að sinna sinni handavinnu á meðan hlustað er á höfundana Elísabetu Steinunni Jóhannsdóttur Sörensen og Ragnheiði Lárusdóttur sem lesa úr verkum sínum. Þá mun Anna Kristín Hannesdóttir lesa úr þýðingu sinni á verkunum Hinstu blíðuhót og Augnablik í eilífðinni eftir Kjersti Anfinnsen.

Spennusögur barna og fjölskyldu jóga

Laugardaginn 22. apríl kl. 14 verður ritsmiðja fyrir börn á aldrinum 8-14 ára í Skrúfunni.

Eftir það, klukkan 16, verður fjölskyldujóga í umsjón Evu Daggar Atladóttur í Gömlu kartöflugeymslunni. Eva Dögg Atladóttir hefur lært hatha yoga úti á Indlandi í Sivananda Yoga Centre en Swami Sivananda var læknir sem kenndi helstu yoga stöðurnar til að hafa fullkomna heilsu. Eva Dögg ætlar að kenna þessar stöður og fræða okkur um þær, jafnframt því að kynna nokkrar yoga bækur og fá nemendur efni úr þeim. Djúp slökun og  möntrusöngur í lokin.

Listaverk í Rauða Húsinu

Listaverk eftir Heru Fjord mun vera til sýnis  í Rauða Húsinu laugardag og sunnudag.

Leyndardómar yndisþokkans

Deginum líkur svo með konukvöldi í Rauða Húsinu klukkan 19:30.  Þar verður höfðað til yngri kvenna með ýmsum hætti. Sæbjörg Eva Hlynsdóttir sér um tónlistaratriði. Uppistandshópurinn Eldklárar og eftirsóttar treður upp og kynnir meðal annars væntanlega ljóðabók sína. Heiða Vigdís Sigfúsdóttir les úr bók sinni Getnaði.

Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir mun lesa upp úr bók sem var skrifuð til að kenna ungum konum að koma fram og fleira.

Eva Katrín kynnir Eva´s Breath og ýmislegt fleira. Miðasala er á tix.is og fordrykkur, gjafapoki og léttar veitingar eru innifalin í miðaverðinu.

Hannah Kent og afmælishátíðin

Á sunnudeginum 22. apríl klukkan 14 verður gestum boðið til samtals við rithöfundana Hönnuh Kent og Þórunni Valdimarsdóttur í Rauða Húsinu. Fjallað verður um verk þeirra í opnu samtali, sameiginlega snertifleti og opnað fyrir spurningar úr sal. Viðburðurinn er hluti af Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Þá mun sagnfræðingurinn Dalrún Kaldakvísl fjalla um doktorsrannsókn sína á ráðskonum í sveit á síðari hluta 20. aldar. Meginheimildir rannsóknarinnar eru viðtöl sem Dalrún tók við 41 fyrrum ráðskonu. Í erindi sínu  beinir hún sjónum að félagslegri stöðu ráðskvenna í sveit, með því að reifa ýmsa þætti sem einkenndu stöðu ráðskvenna, bæði áður en þær réðu sig til starfa sem ráðskonur sem og á meðan ráðskonuvist þeirra stóð. Það hefur hallað mikið á konur í Íslandssögunni og því hefur Dalrún sérstaklega beitt sér fyrir því að taka sagnfræðiviðtöl sem hverfast um líf kvenna.

Að lokum verður gestum boðið til afmælisveislu með veglegum veitingum.

Nýjar fréttir