7.3 C
Selfoss

Heimsókn frá LeiðtogaAuði

Vinsælast

Við hjá Dagskránni/Prentmet Odda á Selfossi fengum góða heimsókn frá LeiðtogaAuði í síðustu viku. LeiðtogaAuður er deild innan FKA fyrir konur sem hafa yfirgripsmikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu, bæði einkageira og hinum opinbera. Félagskonur eru hluti af forystusveit íslensks viðskiptalífs sem gegna eða hafa gegnt ábyrgðarstöðu í atvinnulífinu, konur sem vilja taka þátt í eflingu íslensks atvinnulífs og vera þeim konum sem á eftir koma hvatning, fyrirmynd og stuðningur.

Kynning í Hellisheiðarvirkjun.

Þéttbókaður dagur

Heimsóknin var hluti af ferð LeiðtogaAuðar um Suðurland þar sem þær komu við á hinum ýmsu stöðum og kynntu sér starfsemi fyrirtækja. „Við hófum daginn í Hellisheiðarvirkjun þar sem við fengum kynningu á starfsemi Hellisheiðarvirkjunar, fórum á jarðhitasýninguna, fengum kynningu á Climeworks og sáum loftfangarana, ásamt kynningu á byggingaverkefninu sem Ístak er að vinna fyrir Climeworks sem á að tífalda afkastagetu, ótrúlega stórt og flott verkefni. Við fengum líka kynningu á Carbfix sem er leiðandi lausn í að sporna við loftslagsbreytingum með því að breyta koltvíoxíði í stein, en Climeworks og Carbfix eru samofin verkefni. Síðan komum við hingað í Prentmet Odda og fengum góðar móttökur, þar sem Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, eigandi, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsmála Prentmets Odda, kynnti fyrir okkur útibúið á Selfossi, starfsemi Dagskrárinnar og Prentmets Odda, hér á Selfossi, sem og í Reykjavík og á Akureyri. Hún sagði okkur frá hringrásarferlinu í kringum pappírsframleiðslu, auk þess að kynna okkur fyrir nytjaskógum og því mikilvæga starfi sem á sér stað í þessu flotta, Svansvottaða fyrirtæki,“ segir Hildur Árnadóttir, formaður LeiðtogaAuðar.

Fjóla bæjarstjóri ræddi við hópinn í Bankanum vinnustofu.
Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, ræddi við hópinn í Bankanum vinnustofu.

Styrkja kaupmáttinn

Ásamt því að heimsækja okkur og Hellisheiðarvirkjun sóttu þær Bankann vinnustofu heim og fengu okkar eigin Valdimar Bragason, fyrir hönd Sigtúns Þróunarfélags, til að kynna fyrir þeim nýja, glæsilega miðbæinn sem blasir við gestum við komuna á Selfoss. „Við munum svo enda daginn í Motivo og gera okkar besta til að efla kaupmátt svæðisins,“ segir Hildur og hlær. „Við gistum svo á Hótel Selfossi og borðum kvöldverð þar. Í fyrramálið fáum við svo Auði Daníelsdóttur, forstjóra Orkunnar til að spjalla við okkur um orkuskiptin yfir morgunverðinum, svo ferðin er sannarlega vel nýtt,“ segir Hildur að lokum.

LeiðtogaAuður styrkti kaupmáttinn á svæðinu með viðkomu í Motivo.

Tilgangur LeiðtogaAuðar er að efla tengslanet kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum í atvinnulífinu og að auka þátttöku og áhrif kvenna í atvinnulífinu. Markmið félagsins er að konur í forystusveit íslensks viðskiptalífs kynnist hver annarri og geti nýtt sér tengsl, stuðning, aðstoð og önnur tækifæri sem félagsskapurinn býður upp á.

LeiðtogaAuður varð til í tengslum við verkefnið ,,AUÐUR í krafti kvenna” sem stóð yfir á árunum 2000-2003. Félagskonur eru nú um 100, langflestar eru þær í stjórnendastöðum, oft framkvæmdastjórar, hjá stórum og meðalstórum fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi. LeiðtogaAuður einbeitir sér að málefnum viðskiptalífsins og því umhverfi sem það starfar í á hverjum tíma.

Við þökkum LeiðtogaAuði kærlega fyrir komuna og bjóðum þær hjartanlega velkomnar aftur í heimsókn til okkar.

Nýjar fréttir