1.1 C
Selfoss

Af hverju er barnið mitt kvíðið og hvað get ég gert?

Vinsælast

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir.

Á undanförnum árum hefur kvíði barna fengið verðskuldað rými í samfélagsumræðunni. Það skal engan undra enda kvíði algengt vandamál meðal barna og ein helsta ástæða þess að foreldrar leita til sálfræðinga með börn sín. En kvíði, í sjálfu sér, er ekki vandamál heldur eðlileg og gagnleg tilfinning sem allir upplifa og hjálpar okkur að komast af. Kvíði verður að vandamáli þegar hann fer að ræsast við aðstæður þar sem ekkert er að óttast upp að því marki að hann veldur hömlun í daglegu lífi. Það er mikilvægt að foreldrar geri greinarmun á kvíða sem er eðlilegur og óeðlilegur. Barn sem finnur fyrir kvíða þrisvar sinnum á ári þegar það keppir í íþróttinni sinni, en mætir samt, er ekki með hamlandi kvíða. Slíkur kvíði þýðir bara að mótið skiptir barnið miklu máli. Dæmi um kvíða sem teldist hamlandi gæti hinsvegar verið barn sem er hætt að stunda áhugamálin sín vegna kvíða og velur að forðast aðstæðurnar frekar en að takast á við þær. Annað dæmi væri unglingur sem misst hefur öll tengsl við vini eða getur ekki mætt í skólann vegna kvíða.

Orsakir kvíða hjá börnum eru margar en rannsóknir gefa til kynna að um 1/3 megi rekja til erfða. Það sem ef til vill er athygliverðast við þá staðreynd er að þá má ætla að 2/3 megi rekja til umhverfis. Það getur verið hjálplegt í einhverjum tilvikum að vita hvað orsakar kvíða barns en það er ekki nauðsynlegt. Það sem mestu máli skiptir er að átta sig á því hvað viðheldur kvíða barnsins í daglegu lífi. Í flestum tilvikum spilar forðun stórt hlutverk í því að viðhalda kvíðanum, þ.e. að barnið finnur leiðir til að forðast sinn kvíðavald.

Eins og við vitum orðið flest eru biðlistar hjá sálfræðingum langir á flestum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Af þeim sökum er mikilvægt fyrir foreldra að vita að það er margt sem hægt er að byrja að gera strax á meðan beðið er eftir tíma hjá sálfræðingi.

Eftirfarandi leiðir eru góð byrjun ef áhyggjur vakna af kvíða barns:

  • Sjálfshjálparefni, svo sem bókin “Hjálp fyrir kvíðin börn”, “Ráð handa kvíðnum krökkum” og bókaflokkurinn “Hvað get ég gert”.
  • Aðrar fagstéttir eru oft vel til þess fallnir að veita stuðning við vægum kvíðavanda í nærumhverfi barnsins, svo sem námsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar og félagsþjónusta.
  • Finna má mjög gagnlega fræðslu á heimasíðum Landsspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á heilsuveru og Liltu kvíðameðferðarstöðinni.

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir,
sálfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Nýjar fréttir