4.4 C
Selfoss

FSu keppir um hljóðnemann í fyrsta sinn í 37 ár

Vinsælast

„Liðsheild sem hefur sjaldan sést í sögu Gettu betur“

Lið Fjölbrautarskóla Suðurlands er komið í úrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur eftir glæsilegan sigur á Verkmenntaskóla austurlands síðasta föstudagskvöld. Munu þau Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Heimir Árni Erlendsson og Elín Karlsdóttir því mæta liði Menntaskólans í Reykjavík í úrslitaviðureign Gettu betur í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, sem sýnd verður í beinni útsendingu á RÚV næsta föstudagskvöld.

Dýrðarljómi FSu reis hátt þegar lið skólans, skipað þeim Sveini Helgasyni, Sigurði Eyþórssyni og Lýð Pálssyni, bar sigur úr býtum í allra fyrstu úrslitakeppni Gettu betur, gegn Flensborgarskólanum með því að ná sex stigum í lokaspurningunni og sigra 43-41. Í dag eru 37 ár síðan Gettu betur hóf göngu sína árið 1986, en síðan þá hefur skólanum ekki tekist að komast alla leið í úrslit, fyrr en nú!

Sigurður Eyþórsson, Sveinn Helgason og Lýður Pálsson, eftir að ljóst varð að FSu hafði sigrað keppnina. Mynd: Skjáskot/RÚV.

Við kynntumst þessum flottu krökkum í viðtali sem birtist fyrr í vetur. Í aðdraganda stóru keppninnar hafði blaðamaður samband við þau, spurði hvernig þeim liði núna og hversu „peppuð“ þau væru fyrir keppninni á föstudag.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir er æðrulaus og spennt fyrir slagnum á móti MR. Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

„Af minni hálfu er þetta auðvitað algjörlega geggjað þar sem ég ætlaði ekki einu sinni að taka þátt í ár! (en er auðvitað mjög fegin að hafa gert það núna). Ég held líka að ég hafi engan veginn verið að búast við því að komast svona langt, en það er bara svo geggjað að vera með þessum krökkum í liði, við vinnum svo vel saman og erum eiginlega bara orðin eins og systkini. Ég er mjög spennt fyrir föstudeginum og hugarfarið er algjörlega bara það að þetta fer eins og það fer, það er hvort sem er alltaf sigur að komast svona langt,“ segir Ásrún.

Heimir Árni Erlendsson er svakalega peppaður og spenntur fyrir föstudeginum. Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

Heimir segir: „Guð, þetta er erfið spurning. Ég er svakalega peppaður og spenntur fyrir þessu og á erfitt með að koma gleðinni minni í orð. Það eina sem mun gera þetta betra er sigur gegn Reykvíkingunum. Mér líður eins og þetta lið sé með liðsheild sem hefur sjaldan sést í sögu Gettu Betur. Hrós þarf að bendast til þjálfarans okkar, honum Stefáni Hannessyni, að hafa náð að byggja svona gott lið. Ég er þakklátur fyrir þessa upplifun og lofa að gera mitt besta til að koma með hljóðnemann heim.“

Elín Karlsdóttir vonast eftir föstudegi til frægðar fyrir FSu, eins og við öll! Ljósmynd: Dfs.is/HGL.

„Það er alveg frábært að vera komin svona langt og að allar æfingarnar og metnaðurinn hafi borgað sig. Við höfum lagt okkur öll fram í þetta og liðið vinnur mjög vel saman og held ég að það sjáist hvað við höfum gaman að þessu. Ég hef góða tilfinningu varðandi keppnina og hlakka til föstudagskvöldsins. Þessi reynsla hefur verið ógleymanleg og er það alltaf jafn skemmtilegt að keppa. Einnig er það mjög styrkjandi að heyra hversu margir Sunnlendingar eru áhugasamir og glaðir fyrir okkar hönd. Sama hvernig föstudagurinn fer er ég stolt af liðsfélögum mínum og sjálfri mér. Það verður vonandi föstudagur til frægðar fyrir FSu!,“ segir Elín.

Við hjá Dagskránni óskum Ásrúnu, Elínu og Heimi innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og hlökkum til að fylgjast með þeim takast á við MR á föstudagskvöld.

ÁFRAM FSU!

Nýjar fréttir