7.3 C
Selfoss

Anda confit með fusion-sósu og sellerírótarmús

Arnar Guðjónsson er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Kann Björgvini litlar þakkir fyrir að tilnefna mig, en þýðir þó ekki að skorast undan. Fer því í einn af mínum allra uppáhalds réttum, anda confit með asískri fusion-sósu og sellerírótarmús. Ég ætla þó ekki að skreyta mig með stolnum fjöðrum og ber því að nefna að þessi uppskrift er nánast að öllu leyti komin frá Sjöfn Þórðar, þáttastjórnanda sjónvarpsþáttarins Matur og heimili. 

Anda confit með fusion-sósu og sellerírótarmús

  • 1 dós anda confit (Fæst í Krónunni á Selfossi)

Fusion-sósa

  • 2 ferskir chilli skornir niður
  • 5 geirar af hvítlauk saxaðir
  • 1 msk. af rifni engiferrót
  • 3 tsk. andakraftur
  • ½ bolli af vatni
  • 1 dós kókosmjólk
  • Rétt rúmlega hálf flaska af Housin-sósu
  • 2 msk. sýróp

Sellerírótarmús

  • ½ sellerírót
  • 1 stk. saxaður laukur
  • Sjávarsalt
  • Hvítur pipar 
  • 1 ½ dl rjómi

Gott að láta dósina sitja í heitu baði áður en hún er opnuð. Veiðið lærin uppúr fitunni og komið fyrir í eldföstu móti. Geymið restina af fitunni, annaðhvort í ísskáp eða frystið. Frábært er að steikja grænmeti eða kartöflur upp úr fitunni. Komið lærunum fyrir í eldföstu móti, skinn hliðin upp. Hitið ofninn í 200°C á yfirhita og eldið lærin í 15 mín. eða þar til skinnið er orðið stökkt.

Sósuna tekur um 25 mín. að gera klára, byrjið á að bræða saman smjör og smjörlíki til steikingar í potti. Steikið chilli, hvítlauk og engiferrótina saman þar til orðið mjúkt. Bætið þá við vatni og andakraftinum og leyfið að malla. Því næst bætið þið við restinni af innihaldinu, kókosmjólk, housin sósu og sýrópi og leyfið að sjóða við lágan hita í dágóða stund.

Músin tekur lengstan tíma, kannski um 50 mín. Við byrjum á að afhýða bæði lauk og sellerírótina, skerið laukinn smátt en rótina í teninga. Steikið við miðlungs hita upp úr ólífuolíu, kryddið með salti og pipar. Bætið svo við rjómanum og sjóðið við lágan hita þar til sellerírótin er orðin mjúk. Blandið saman með töfrasprota eða í matvinnslu, saltið og piprið til.

Gott er að bera þetta fram með grænum eplum steiktum upp úr kanilsykri, hunangsgljáðum gulrótum eða steiktum vorlauk.


Ég skora á líkamsræktafrumuðinn og knattspyrnuþjálfara meistaraflokk kvenna hér á Selfossi, Bjössa Sigurbjörns.

Fleiri myndbönd