0.6 C
Selfoss

Það sem bindur okkur saman

Vinsælast

Kristín Scheving Safnstjóri Listasafns Árnesinga. Mynd: Aðsend.

Kæru Árnesingar og íbúar á Suðurlandi.

Við fögnum því að á árinu verður Listasafn Árnesinga 60 ára og af því tilefni munum við halda  sérstaka afmælissýningu sem ber heitið HORNSTEINN þar sem sýndar verða perlur úr safneigninni. Opnun sýningarinnar verður 11. febrúar og  mun Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson opna sýninguna formlega klukkan 15:00 þann dag.

Það má vel segja að „lífið sé stutt en listin löng eins og Ásgrímur Jónsson segir sjálfur í upptöku sem verður m.a. á sýningunni. Ásgrímur var sjálfur Árnesingur og verður einn sýningarsalur safnsins tileinkaður verkum hans.

En hvað er svona merkilegt við 60 ár, listasöfn og list yfir höfuð?

Listin tengir/umvefur okkur böndum sem eru ólýsanleg, Ásgrímur sagði einnig: „Fegurð lands míns hefur orkað svo sterkt á mig að hún hefur vart látið mig í friðiHann eyddi miklum tíma í að fanga fegurðina og voru ótal verk máluð hér á Suðurlandi og verða mörg þeirra til sýnis á sýningunni HORNSTEINN.

Safneign Listasafns Árnesinga býr yfir einstöku samansafni af um það bil 550 listaverkum, allt frá merkustu meisturum íslenskrar myndlistar til atgervisgróskunnar í sveitunum hér í kring. Safnið var stofnað árið 1963 og er þar með fyrsta listasafnið á Íslandi sem tók til starfa utan höfuðborgarinnar. Því verður með réttu haldið fram að Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar, Loftur og Bjarni Markús, hafi lagt hornsteininn að Listasafni Árnesinga með rausnarlegri gjöf listaverka árið 1963. Verkin voru úr þeirra eigu. Þessi rausnarlega gjöf þeirra samanstóð af 41 listaverki og héldu mæðginin áfram að gefa safninu verk fram til ársins 1986 en taldi safnið þá 75 listaverk. Þarna ber að finna verk merkustu meistara íslenskrar málaralistar á fyrri helmingi tuttugustu aldar: 19 málverk eftir Ásgrím Jónsson og verk eftir Kjarval, Gunnlaug Scheving, Jón Stefánsson og Þorvald Skúlason meðal annarra. Smekkur Bjarnveigar er eftirtektarverður sem og skynbragð hennar á nýja strauma eins og birtist í síðari gjöfum hennar. Hún lagði sig eftir verkum abstraktlistamanna (eftir Hörð Ágústsson og Kjartan Guðjónsson) en lagði líka mikið upp úr að gefa verk eftir íslenskar konur, má hér helst nefna Björgu Þorsteinsdóttur, Þorbjörgu Höskuldsdóttur og Ragnheiði Jónsdóttur.

Bjarnveig Bjarnadóttir (1905-1993) var ættuð af Suðurlandi, móðir hennar var frá bænum Skipum nálægt Stokkseyri og faðir hennar var Skaftfellingur. Móðir hennar og Ásgrímur Jónsson voru systrabörn og hún var þar að auki skyld Einari Jónssyni myndhöggvara í móðurætt. Heimili hennar var þakið listaverkum að því marki sem veggjarými leyfði og var það ekki algengt á þeim árum að einstæðar mæður verðu öllu sparifé sínu í listaverk. Í ræðu sem hún hélt við Lista- og byggðasafn Árnessýslu árið 1974 sagði Bjarnveig: ,,Þessi málverk eru gefin af heilum hug og með ósk um að gjöfin verði til menningarauka fyrir sýsluna og lyftistöng fyrir komandi kynslóðir.“

Listasafn Árnesinga starfaði á Selfossi fram til ársins 2001. Þá festi safnið kaup á húsnæði Listaskálans* í Hveragerði og hefur verið þar til húsa allar götur síðan.

Tvö hundruð verk úr tré og litlar styttur, ýmist úr marmara eða beini eftir Halldór Einarsson (1893-1977), eru stór hluti safnsins eða um þriðjungur þess. Hann fæddist á bænum Brandhúsum í Gaulverjabæjarhreppi. Tuttugu og níu ára gamall hélt hann vestur um haf og bjó í Bandaríkjunum í fjörutíu og þrjú ár. Hann fluttist aftur heim árið 1965 og fjórum árum síðar ánafnaði hann Listasafni Árnesinga öll verk sín ásamt tíu þúsund Bandaríkjadölum.

Halldór starfaði við tréskurð í Chicago og bjó lengst af á afviknum stað úti í skógi þar sem hann ræktaði með sér áhuga á dýra- og gróðurlífi. „Ég gat talað við þessi dýr – og fuglana líka – og þau skildu mig“, sagði hann síðar í viðtali. Við sýnum verk hans sem afhjúpa fyrir okkur djúpan skilning hans á náttúrunni og andanum.

Kastljósinu mun verða beint að þessum frumkvöðlum – en það er þeim að þakka að Listasafn Árnesinga varð að veruleika. Að auki mun safnið sýna ný verk sem hafa verið gefin safninu síðastliðin árin. Þetta eru m.a. gjafirmyndlistarmanna og Íslandsbanka: 2 verk eftir Ásgrím Jónsson en einnig verk eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur, Jóhannes Kjarval, Gunnlaug Scheving, Jón Þorleifsson og Jón Engilberts.

Stefnt er að því að nýta afmælisárið til að lagfæra ramma og verk þar sem þarf, rannsaka og taka nýjar ljósmyndir af verkunum og einnig gefa út sýningarskrá með úrval verka úr safneign.

Það er okkar von, kæru Árnesingar og íbúar á Suðurlandi og aðrir gestir, að þið mætið og fagnið með okkur og upplifiðum leið fegurðina í listaverkum okkar allra.

Kristín Scheving
Safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Sýningin HORNSTEINN mun standa yfir 11.02 – 20.08 2023

Ps. Okkur langar að bjóða sérstaklega velkoma þau sem eiga ættir sínar að rekja til þeirra sem ég hef talað um í þessum pistli og einnig öll þau sem hafa unnið við safnið: fyrrum safnstjórar, stjórnarmenn og aðrir.  Verið öll innilega velkomin.

Nýjar fréttir