9.5 C
Selfoss

Spenntir

Vinsælast

Selfyssingurinn Einar Bárðar verður með tónleika á Sviðinu á Selfossi föstudagskvöldið 24. febrúar. Hann verður ekki einn því Gunnar Ólason úr Skítamóral og Magni „okkar“ Ásgeirsson verða með honum á sviðinu. „Ég hlakka mikið til, ég hef gert svona áður en þá vorum við fjórir lagahöfundar saman en núna er ég bara í frekjukasti og það verða bara spiluð lög eftir mig. Held að laga listinn sé eitthvað um átján lög“ segir Einar þegar hann er spurður út kvöldið.

„Ég lofa fólki sem á annað borð hafa gaman af lögunum mínum að það verður mjög gaman. Sögurnar á bak við lögin fá smá svigrúm en þvælast ekki fyrir lögunum“ bætir Einar við.

Samanlagt hafa Gunnar Ólason og Magni Ásgeirsson sungið flest af vinsælustu lögum Einars. Þannig eru hæg heimatökin þegar þeir þrír leiða saman hesta sína. Skemmtanagildið mun þó örugglega rísa hæst þegar þeir félagar skauta í gegnum vinsælustu lögin sem Einar samdi fyrir Nylon flokkinn. Miðasala á tónleika á Sviðinu gengur vel og fer fram á tix.is.

Um og upp úr síðustu alda­mót­um var Ein­ar Bárðar­son fyr­ir­ferðar­mik­ill laga- og textahöfund­ur. Hann samdi mörg af vin­sæl­ustu lög­um Skíta­mór­als, Á móti sól og Nylon-flokks­ins. Þá samdi hann vin­sæl lög fyr­ir flytj­end­ur á borð við Stjórn­ina, Björg­vin Halldórsson, Jó­hönnu Guðrúnu, Ingó og veðurguðina, Hvann­dals­bræður, Garðar Thór Cortes og fleiri. Lag Einars, Birta, sigraði í söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2001 og samdi hann lagið Áfram Ísland fyrir íslenska landsliðið í fótbolta sem komið hefur út í minnst þremur útgáfum.

Nýjar fréttir