13.4 C
Selfoss

Skóflustungur teknar að byggð á Bríkum

Vinsælast

Fyrstu skóflustungurnar að nýju hverfi ,,Byggð á Bríkum“ á Flúðum, Hrunamannahreppi,  voru teknar fimmtudaginn 2. febrúar 2023. Lóðum fyrir alls 25 íbúðir við Fannborgartanga, fyrsta áfanga Byggðar á Bríkum, var úthlutað á fundi sveitarstjórnar þann 2. febrúar 2023.

Alls bárust 150 umsóknir um þær lóðir sem auglýstar voru. Umsækjendur sem uppfylltu ákvæði reglna um lóðaúthlutun voru 146. Dregið var úr umsóknum.  Til vara voru dregin nöfn sem verða boðnar lóðirnar í réttri röð komi til þess að einhverjum þeirra verði skilað á síðari stigum.

Um er að ræða 8 íbúðir í fjórum parhúsum, 8 íbúðir í tveimur fjögurra íbúða raðhúsum, 6 íbúðir í tveimur þriggja íbúða raðhúsum og þrjár lóðir fyrir einbýlishús.

Öllum lóðum var úthlutað en aldrei áður hafa jafn margir sótt um lóðir í Hrunamannahreppi. Er ljóst að mikil eftirspurn er eftir húsnæði í sveitarfélaginu og því mikilvægt að áfram verði haldið við næsta áfanga uppbyggingar í hverfinu.

Það voru allir sveitarstjórnarfulltrúarnir sem munduðu skóflurnar en vegna aðstæðna hafði örlítið verið flett ofan af jarðveginum svo sveitarstjórnarmenn næðu nú að stinga niður skóflu þrátt fyrir harðfrosinn jarðveginn.

Framkvæmdir teljast nú formlega hafnar við gatnagerðina.  Annar verkfundur verksins var haldinn 2. febrúar og þar kom fram að tvær búkollur og ein beltagrafa munu verða á svæðinu strax í næstu viku og þar með munu íbúar sem og aðrir sjá þetta áður óbyggða svæði breytast smám saman í lifandi hverfi þar sem vonandi fjöldi íbúa mun búa.

Sveitarstjórnarmenn voru afskaplega ánægðir þegar þeir tóku skóflustungurnar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Nýjar fréttir