6.1 C
Selfoss

Að gefa af sér sem sjálfboðaliði Styrkleikanna

Vinsælast

Guðmunda Egilsdóttir er ein af þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem ákvað að bjóða sig fram við undirbúning Styrkleikanna vegna tengsla sinna við Krabbameinsfélag Árnessýslu. „Mér fannst þetta spennandi verkefni og langaði að upplifa samheldnina og samhuginn sem myndast á viðburðinum“ segir hún og rifjar upp Styrkleikana sem haldnir voru í Selfosshöllinni í apríl í fyrra.

„Á Styrkleikunum takast á gleði og sorg, gleði sem felst í að fagna þeim lífum sem bjargast hafa og sorgin yfir þeim sem við höfum misst úr krabbameinum“.

Guðmunda og Svanhildur á styrkleikunum. Mynd: Aðsend.

Guðmunda er mikilvægur hluti af sterku teymi sjálfboðaliða sem unnu hörðum höndum að undirbúningi og framkvæmd viðburðarins.

„Það kom ekkert annað til greina en að taka þátt í þessum viðburði og vera hluti af því að koma fyrstu Styrkleikunum á Íslandi af stað. Ég upplifði mig gera mikið gagn og gríðarlegan kraft í öllu undirbúningsferlinu. Viðburðurinn sjálfur var svo magnaður, að upplifa stemmninguna sem var þennan sólahring var þess eðlis að maður vildi helst ekkert fara heim að sofa. Gleðin skein úr hverju andliti, það gaf manni mikið og það hvetur mann í að halda áfram“ segir Guðmunda með glampa í augunum.

Það er erfitt að lýsa þessari upplifun með orðum þetta er eitthvað sem fólk þarf að prófa sjálft að upplifa til að skilja hvað maður er að tala um.

„Ég hvet fólk til að leggja krafta sína í viðburðinn vegna félagsskaparins, styðja við og heiðra minningu ástvina. Þátttakan gefur manni svo mikið og maður upplifir allan tilfinningaskalann. Auk þess sem maður kynnist mörgu frábæru fólki sem eignast stað í hjarta manns,“ segir hún að lokum.

Það sem stendur upp úr frá síðustu Styrkleikum var þegar fjöldinn gekk fyrsta hringinn við upphaf viðburðarins og einnig Ljósaathöfnin sem fangaði bæði sorgina og gleðina á einu augnabliki. Sú stund var ólýsanleg og kallar fram sælu tilfinningu í hvert sinn sem ég hugsa um hana.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í undirbúningi Styrkleikanna í apríl 2023 geta komið á kynningarfund í húsnæði Krabbameinsfélags Árnessýslu að Eyraveigi 31, þriðjudaginn 31. janúar kl. 19:30. 

Nýjar fréttir