8.9 C
Selfoss

Stórkostleg sýning Leikfélags Hveragerðis

Vinsælast

Leikfélag Hveragerðis varð 75 ára á síðasta ári og af því tilefni var ákveðið að setja á svið barna- og fjölskylduleikritið um Benedikt búálf eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson undir leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar og bjóða leikhúsgestum til Álfheima. 

Síðan leikritið var frumsýnt á fjölum Leikfélags Hveragerðis þann 24. september síðastliðinn hefur verið uppselt á hverja einustu sýningu. Það fer þó hver að verða síðastur að sjá Benedikt og félaga í Hveragerði en einungis 4 sýningar eru eftir af þessu farsæla verki en næstu sýningar verða 28. og 29. janúar og síðustu tvær verða 4. og 5. febrúar.

Með hlutverk Benedikts fer Hafsteinn Þór Auðunsson og Dídí mannabarn er leikin af Sirrý Fjólu Þórarinsdóttur. Aðalstein konung og Brynhildi drottningu leika þau Runólfur Óli Daðason og Elfa Björk Rúnarsdóttir. Salvöru súru leikur Hrafnhildur Faulk, Ingiberg Örn Magnússon leikur Jósafat mannahrelli, Daða dreka leikur Hanna Tara Björnsdóttir og Hrefna Ósk Jónsdóttir fer með hlutverk Tóta tannálfs. Með hlutverk blómálfa, dökk-álfa og fleiri fara þær Elín Hrönn Jónsdóttir, Erla Björt Erlingsdóttir, Emilía Ýr Jónsdóttir og Svala Norðdahl.

Blaðamaður Dagskrárinnar fór á sýningu um síðustu helgi og var algjörlega heillaður af öllu sem fyrir augu bar. Allt í kringum sýninguna var virkilega vel útfært en sviðsmyndin, ljósin og tónlistin spilaði allt svo vel saman og færði leikhúsgesti inn í Álfaheim og þaðan niður í helli Salvarar. Sminkið og hárgreiðsla leikara hafði líka mjög mikið að segja en það er augljóst að Leikfélag Hveragerðis hefur nælt sér í sannkallaðar fagkonur þegar að því kemur þar sem leikararnir voru allir óaðfinnanlega tvinnaðir inn í þennan skemmtilega söguþráð með stórkostlegum árangri.

 

Leikaravalið virðist eins og valið hafi verið úr heilum her leikara því öll hlutverkin eru eins og sniðin að þeim sem með þau fara, söngurinn frábær, dansarnir eftirminnilegir og sviðsframkoman til fyrirmyndar hjá þeim öllum. Benedikt og Dídí mynda frábært og einlægt samband, tannpína Aðalsteins er áþreifanleg, sem og áhyggjur Brynhildar af framgangi mála í Álfheimum. Jósafat mannahrellir er sannarlega hryllilegur og vesalings Tóti tannálfur fékk mikla meðaumkun frá ungum sem öldnum áhorfendum. Daði dreki fangaði hug og hjörtu áhorfenda með hjartnæmri óvissu sinni um hvort hann væri í raun hugaður eða ekki. 

Það var ekki að sjá að við værum á sýningu hjá litlu áhugaleikfélagi úti á landi, heldur bar þessi sýning þess merki að fagaðilar væru skipaðir í hvert og eitt hlutverk bæði á sviðinu sem og baksviðs. Stórkostlegt í einu orði sagt.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir

Nýjar fréttir