1.7 C
Selfoss

Hleypur sjötíu kílómetra á sjötíu ára afmælinu í sjöunda himni

Vinsælast

Þann 2. febrúar næstkomandi mun Sigmundur Stefánsson og hlaupahópurinn Frískir Flóamenn efna til áheitahlaups þar sem Sigmundur ætlar að hlaupa 70 km í tilefni af 70 ára afmæli sínu sem ber upp á þann sama dag og hefur verið ákveðið að hafa þetta áheitahlaup til styrktar Hjartaheill og/eða Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Með þessu hlaupi vilja Sigmundur og Frískir Flóamenn vekja athygli á mikilvægi hreyfingar og þá sérstaklega þegar áföll og veikindi hafa herjað á og að hægt sé að viðhalda þeim lífsstíl sem hvert og eitt hefur tileinkað sér, þrátt fyrir mótlæti.

Sigmundur er fæddur og uppalinn á Selfossi og er flestum Selfyssingum kunnur. Hann æfði sund á yngri árum og hefur eflaust ekki órað fyrir þeim íþróttaafrekum sem hann kæmi til að vinna seinna á ævinni þegar hann keppti á sínu fyrsta landsmóti um 12 ára aldurinn. „Við bræður þrír (Jón, Sigmundur og Gísli, tvíburabróðir Sigmundar) vorum gjarnan kallaðir til á héraðsmótin til að taka 800-1500 metra spretti til að safna stigum og vorum oft sigurvegarar í þeim keppnum, svo þetta er greinilega heilmikið í blóðinu. Í sundinu var ég svona langsundsmaður, var minna fyrir sprettina. Ég tók fyrst þátt í landsmóti á Laugarvatni um 1964 eða 65, hálfgerður smákrakki ennþá. Uppúr 15-16 ára aldri hætti ég í sundinu, kynntist konunni minni (Ingileifu Auðunsdóttur) og var svo bara í því að byggja, stofna fjölskyldu, eignast börn og allt sem því fylgir,“ segir Sigmundur.

Sigmundur og Ingileif á verðlaunapalli eftir Brúarhlaupið á Selfossi.

Það var svo uppúr fertugu sem Sigmundur fór í heilsufarsmælingu þegar hann sá um Sundhöll Selfoss. „Við fengum heilsugæsluna til að koma og mæla heilsufar hjá sundlaugargestum, einnig bauðst starfsfólki að láta mæla sig; blóðsykur, blóðþrýsting og fleira. Úr þeim mælingum kom í ljós að ég var með mjög háan blóðsykur og greinist í kjölfarið með sykursýki tvö. Þarna hafði ég ekki stundað neina líkamsrækt af viti síðan ég hætti í sundinu. Til að vinna á þessum umfram sykri sem briskirtillinn hafði úr að vinna fór ég að stunda hreyfingu og byrjaði að hlaupa, ég ætlaði bara að fara einn og sér, mér til yndisauka og ánægju nema svo þróast þetta út í það að ég fer að hlaupa meira og meira,“ segir Sigmundur.

Brunað suður til Reykjavíkur á bláum ljósum

„Svo er það þegar ég er 47 ára gamall, þann 5. maí. Þá er ég langt kominn með undirbúning fyrir mitt fyrsta maraþon sem mig minnir að ég hafi ætlað í viku seinna á Mývatni. Þennan morgun tek ég hádegisæfingu og fæ þá hjartaáfall á miðri æfingu. Eftir að hafa klárað æfinguna leitaði ég læknishjálpar og var brunað með mig á bláum ljósum suður til Reykjavíkur þar sem kemur í ljós að það hafi ein æð stíflast og myndast hjartadrep í hjartavöðvanum sem að varð svo afturkræft, hann skemmdist ekki en það var hluti vöðvans sem fékk ekki blóð um tíma. Ég er þarna í einhverja 4-5 daga á landspítalanum og fer svo heim. 

Þau sögðu við mig þegar ég útskrifaðist: „Sigmundur, það er bara eitt sem við getum ráðlagt þér. Þú ert að gera allt rétt, þú ert í góðu formi, lifir heilbrigðu lífi, reyklaus og stundar hreyfingu, þú ert vissulega að gera allt rétt. Það eina sem við getum ráðlagt þér er að spóla til baka og skipta um foreldra.“ Þetta er bara genatískt, þetta er ekki eitthvað sem við fáum umflúið þó við gerum allt rétt. Og þetta er bara það sem ég einsetti mér. Ég var búinn að horfa upp á pabba minn og bræður hans sem höfðu fengið þetta, þeir settust bara niður og sögðu „við erum bara hjartasjúklingar og megum ekkert gera“, sem var vissulega það sem þeim var ráðlagt. Læknarnir sögðu mér bara að gleyma maraþoni,“ segir Sigmundur.

Hlaupahópurinn Frískir Flóamenn í Emstrum á Laugavegi.

Sigmundur var ekki á því að gleyma maraþoninu. „Ég segi við Ingileifu konuna mína, sem byrjaði líka að hlaupa fljótlega á eftir mér, að ef ég nái heilsu aftur þá ætli ég að halda áfram að æfa hlaup og lifa þeim lífstíl sem við vorum orðin vön. Svo þróast þetta þannig að ég byrja að hlaupa aftur og hét því þegar ég lenti í þessu að ég myndi hlaupa mitt fyrsta maraþon fimmtugur, ef ég næði heilsu í það. 49 ára gamall var ég kominn í mjög gott form en vildi ekki brjóta „prinsippið“ að fara í maraþon fimmtugur þannig að ég hljóp Laugaveginn (sem eru 55 kílómetrar á fjöllum en maraþon er 42 km götuhlaup). Ég fór svo í mitt fyrsta maraþon árið eftir, þegar ég varð fimmtugur, eins og ég hafði ákveðið. Síðan er ég búinn að fara tæplega 40 maraþon og eitthvað yfir 50 hálfmaraþon og svo er ég búinn að fara í þrjá járnkarla. Járnkarl er þríþraut sem samanstendur af 3,8 km sundi, 160 km hjólreiðum og 42 km maraþoni. Fyrsti járnkarlinn var evrópumeistarakeppni í Frankfurt, þar lenti ég í 6. sæti og gekk ofsalega vel. Tveimur til þremur árum seinna fer ég til Kaupmannahafnar og lenti þar í þriðja sæti og svo fer ég í seinasta járnkarlinn í Kalmar í Svíþjóð öðrum 2-3 árum seinna og lenti þar líka á palli. 

„Sigmundur, þú ert bara ruglaður“

„Svo fór hjartalæknirinn minn að frétta að ég væri farinn að hlaupa og spurði mig gjarnan hvað ég væri að gera. Hann sagði „Sigmundur, þú ert bara ruglaður“. Svo þegar árin liðu fór viðhorf hans og annarra lækna að breytast og þeir voru farnir að horfa á mig sem skólabókadæmi. Þeir voru farnir að segja við fólk sem lenti í svipuðum áföllum að gera það sem þau vildu, en að fólk þyrfti að þekkja sín takmörk sjálft. Og þetta er akkúrat það sem ég hef haldið mig við, ég hef aldrei farið í eitthvað drep, að hlaupa úr mér lifur og lungu, en ég er þessi týpa svona sem get verið í þessum „extreme“ íþróttum í svona langhlaupum og þar frameftir götum. Svo var það rúmum 20 árum eftir hjartaáfallið að Sigmundur fór að finna fyrir eymslum aftur. „Ég fór í 3-4 þræðingar og það gekk ekki sem skyldi og endaði svo með opinni hjartaaðgerð sem ég fór í fyrir einu og hálfu ári síðan. 

Geislameðferð og opin hjartaaðgerð með 6 mánaða millibili

„Síðustu 2-3 árin hafði ég fundið fyrir þessum kransæðastíflum, ég fékk verki og hafði ekki þetta úthald sem ég þarf. Svo á sama tíma og þetta hjartavesen er í gangi greinist ég með krabbamein í blöðruhálskirtli. Í síðustu hjartaþræðingunni sem hafði ekki tilskilin áhrif var ákveðið að ég myndi ljúka geislameðferð við krabbameininu og í kjölfarið skyldi gerð opin hjartaaðgerð. Í desember voru slétt tvö ár síðan ég lauk geislameðferð við því meini og hálfu ári seinna var ég kallaður inn í opna aðgerð sem gekk mjög vel, það var skipt um tvær æðar. Það er svo magnað að við skulum bara eiga „nóg af varahlutum“, það er eins og auka æðarnar bíði bara eftir því að geta bjargað svona. Ég er svo þakklátur öllu því frábæra heilbrigðisstarfsfólki sem við eigum hérna á Íslandi,“ segir Sigmundur.

„Eftir aðgerðina í júní ákvað ég svo að gefa mér bara góðan tíma til að vera í rólegheitum, synti og fór í gönguferðir. Ég fór í skíðaferð ári eftir aðgerðina og ákvað að fara ekki að hlaupa fyrr en eftir skíðaferðina. Ég gat farið að hlaupa og hjartalæknirinn hvatti mig til þess að byrja aftur en ég sagði honum að þetta væri ákvörðun sem ég hafði tekið, ég ætlaði að byrja eftir skíðaferðina. Sem ég gerði. Ég byrjaði að hlaupa aftur um miðjan febrúar og síðan er ég búinn að hlaupa 2000 kílómetra á 11 mánuðum svo ég er búinn að safna töluvert af kílómetrum í lappirnar,“ segir Sigmundur og hlær. „Mig hefur alltaf langað að gera eitthvað í kringum afmælið mitt. Við erum gjarnan á skíðum í Ölpunum á þessum tíma en ég ákvað bara að gera þetta svolítið töff; hlaupa 70 km á 70 ára afmælisdeginum mínum, á 7 min/km hraða, 7 km hring, allir í 7unda himni og bjóða upp á 7up.“  

Sigmundur í sjöunda himni í Austurrísku ölpunum síðastliðið sumar.

„Það er langt síðan ég ákvað þetta og ég er bara orðinn spenntur fyrir þessum degi, langtímaspáin segir örlítið frost og lítill vindur. Frískir Flóamenn hafa stutt mig í þessu og eru að hlaupa með mér og þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel í allri þessari tíð í vetur að hlaupa, mér hefur ekkert orðið misdægurt, ekki fengið kvef eða neitt, engin meiðsli eða neitt 7-9-13“, segir Sigmundur og bankar þrisvar í borðið með bros á vör. 

Félagar úr Frískum Flóamönnum munu hlaupa með Sigmundi hluta leiðarinnar sem kölluð er Simmalingurinn, einstaklega viðeigandi orðaleikur sem byggir á orðinu heimalningur og þeirri staðreynd að Simmi, eins og Sigmundur er gjarnan kallaður, sé að hlaupa á Selfossi, heimabænum sínum og hefst hlaupið við fæðingar- og æskuheimili hans. Einhverjir félagar úr Frískum Flóamönnum ætla að hlaupa alla vegalengdina með honum og vilja þau hvetja sem flest úr hlaupasamfélaginu til að taka þátt í þessum viðburði og bjóða velkomin öll þau sem vilja ganga Simmalinginn á sínum forsendum.

Framkvæmd hlaupsins verður með þeim hætti að farinn verður 7 km langur hringur (sjá mynd hægra megin) 10 sinnum. Fyrsti hringurinn hefst við Tryggvagötu 20-22 (sem er fæðingar og æskuheimili Sigmundar) kl. 07:00 um morguninn og áætlað er að hver hringur taki 49 mín., miðað við meðalhraða 7 mín/km (pace). Hver hringur hefst svo á heila tímanum við Sundhöll Selfoss og er sá síðasti því áætlaður kl. 16:00. Samtals er því stefnt á að hlaupa 70 km á 10 klukkutímum, frá kl. 7:00 til 17:00.

 

Viðburðurinn er sem fyrr segir áheitahlaup fyrir tvö góðgerðarfélög, Hjartaheill og Krabbameinsfélag Árnessýslu og eru áhugasöm hvött til að heita á Sigmund með frjálsum fjárframlögum til þessara félaga en hægt verður að nálgast tengingu á viðburðarsíðu hlaupsins Simma-lingur á Facebook-síðu Frískra Flóamanna. Þau sem ekki hafa möguleika á þessum greiðslumáta og vilja styrkja félögin geta haft samband beint við viðkomandi félag, Hjartaheill í síma 552 5744 og Krabbameinsfélag Árnessýslu í síma 482 1022. 

Áfram Frískir!

Random Image

Nýjar fréttir