2.3 C
Selfoss

Ofþyngd barna – afleiðingar og ráð

Vinsælast

Tíðni ofþyngdar hjá börnum eykst stöðugt um allan heim og það sama á við um íslensk börn. 

Undanfarin áratug hefur þróunin á ofþyngd barna verið hægt og rólega upp á við. Börn á landsbyggðinni eru þyngri en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er óþekkt en líklega margþætt.

Á árunum 2018-2022 hefur skólabörnum á Suðurlandi sem eru yfir kjörþyngd fjölgað úr 23% í 30%. Þannig að þriðjungur barna á Suðurlandi eru yfir kjörþyngd. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið um 22% árið 2022. Nærri tvöfalt fleiri stúlkur hafa offitu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, eða 8,7% á móti 4,4%. Þá hafa 9,6% drengja á landsbyggðinni offitu en 5,2% í Reykjavíkursvæðinu.  Einnig hefur verið töluverð aukning á ofþyngd undanfarin ár hjá 4 ára börnum og einnig hjá 2,5 ára stúlkum og er það áhyggjuefni. 

Ekki má þó líta á það þannig að öll börn sem eru yfir kjörþyngd séu í áhættuhóp því það er hægt að vera yfir kjörþyngd en fullfrískur og hraustur. En það þarf að meta. 

En af hverju erum við þá að hafa áhyggjur af þessu? Hvaða afleiðingar hefur þetta? Vex þetta ekki bara af þeim?  

Málið er að of mikill fituvefur í líkamanum getur orsakað álag á líffæri barna alveg eins og hjá fullorðnum.  Offita getur síðar leitt til sjúkdóms og aukinnar hættu á ótímabærum dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma, efnaskiptaheilkennis og sykursýki af tegund 2. Offita hefur einnig verið tengd við aukna áhættu á mörgum krabbameinum.

Orsök ofþyngdar hjá börnum eru margar og til að takast á við það þarf að finna út hvað orsakar það hjá hverju og einu barni að það safnar á sig of miklum fituvef. Mikilvægt er að grípa snemma inn í því snemmtæk íhlutun eykur líkur á langtíma árangri (Haldford, J.C.G, ofl., 2021).

Hvað get ég gert ef barnið mitt er að þyngjast óæskilega mikið?

Markmiðið ætti oftast að vera að hægja á eða stoppa þyngdaraukningu, sérstaklega ef barnið á eftir að taka út lengdarvöxt. 

Skoðaðu hvað þú telur að sé aðalástæðan fyrir því að barnið þitt sé að þyngjast. Spurðu þig þessa spurninga:

Svefn: Fær barnið mitt nægan svefn? Vaknar það úthvílt og tilbúið í daginn? Ef Nei, hjálpaðu barninu að breyta því svo það fái nægan svefn. Góð svefnrútína skiptir gríðarlega miklu máli. Settu skjátímareglur í samstarfi við barnið. Börn frá 6-13 ára þurfa 9-11 tíma svefn. 14-17 ára börn þurfa 8-10 tíma svefn.

Næring: Borðar barnið morgunmat? (ef ekki gæti það þurfti meiri svefn). Morgunmatur telst vera morgunmatur ef hann er borðaður innan 2 klst frá því að maður vaknar. Borðar barnið reglulega yfir daginn? Borðar barnið grænmeti og ávexti á hverjum degi? Drekkur barnið vatn við þorsta og með mat? Tekur barnið Lýsi eða D vítamín? Kemur fjölskyldan og borðar kvöldmat saman? (án skjátækja). Barnið borðar sætindi, kex og kökur og drekkur gos í hófi. Ef svarið er nei við eitthvað af þessum spurningum, hjálpaðu barninu að breyta því og hjá fjölskyldunni allri ef þarf. Breyttu einu í einu áður en þú breytir næsta. 

Hreyfing: Hreyfir barnið sig 1 klst á dag svo það mæðist eða svitni? Eyðir barnið minna en 2 klst við skjá á dag? Hreyfir fjölskyldan sig reglulega saman (amk 1x í viku)? Ef svarið er nei við eitthvað af þessum svörum hjálpaðu þá barninu þínu að breyta. Hvettu barnið til að ganga í skólann og æfa íþróttir. Reyndu að draga úr kyrrsetu t.d. með því að setja mörk varðandi skjátíma (já, það má líka hjá unglingum). Hvettu barnið til að taka þátt í heimilisstörfum. Hvernig væri að fara í göngutúr saman eða fara gangandi samferða í vinnu og skóla ef þess er kostur. 

Líðan: Líður barninu þínu vel? Á barnið þitt vin eða vini? Gengur því vel félagslega? Ef svarið er nei er gott að ræða við barnið um ástæður þess af hverju því líður ekki nógu vel. Reyndu að finna styrkleika barnsins þíns og styrktu þá. Hrósaðu barninu fyrir það sem vel er gert. Gefðu barninu þínu tíma. Verðu tíma með því. Farið saman í göngutúr eða bíltúr eða hvað sem ykkur finnst skemmtilegt að gera saman. Ef þú sem foreldri telur þig ekki geta hjálpað barninu þínu að líða betur skaltu fá aðstoð annarra. Ræddu við vin, skólann, kennarann, skólahjúkrunarfræðingin, heimilislækninn, unglingaráðgjafann eða sálfræðing. 

Stundum getur ein breyting leitt af sér aðra breytingu. T.d ef barn sefur nægilega mikið þá líður því betur, það sækir minna í orkuþéttan, næringarsnauðan mat eins og kökur og kex og sæta drykki og því gengur jafnvel betur í samskiptum við aðra. 

Annað dæmi, ef hreyfing er aukin, aukast vellíðunarhormón í líkamanum, barninu líður betur, hreyfiþörf er fullnægt, það er kátara og glaðara, á auðveldara með að sofna og sefur betur.  

Þetta eru grundvallarþættir sem þarf að skoða vel þegar barn þyngist óæskilega mikið. Stundum getur ástæða fyrir að barn þyngist verið flókin og af margvíslegum ástæðum. Ef þú sem foreldri telur þig þurfa aðstoð og stuðning fyrir barnið þitt er hægt að leita aðstoðar og ráðgjafar hjá t.d skólahjúkrunarfræðingi, heimilislækni eða barnalækni. Mikilvægt er að hafa í huga að öll fjölskyldan þarf að vera samstíga í að velja heilsusamlegri lífshætti. Það er erfitt að breyta um hegðun og það tekur tíma og þolinmæði og það er eðlilegt að það komi bakslög. En þá er bara að byrja aftur þar sem frá var horfið. Ekki gefast upp! 

Bjarnheiður Böðvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Nýjar fréttir