8.9 C
Selfoss

Við erum öll jafn mikilvæg

Vinsælast

Um þessar mundir er Árborg lituð regnbogalitum vegna hinseginviku sveitarfélagsins sem fer fram í þessari viku. Við tókum Dagbjörtu Harðardóttur, forsvarskonu hinseginvikunnar á tal og fengum að vita hvernig vikan fer af stað.

„Viðtökurnar eru algjörlega frábærar og fara fram úr öllum væntingum. Stofnanir og fyrirtæki í samfélaginu okkar eru öll að taka höndum saman og sveitarfélagið skartar regnbogalitunum hvert sem litið er. Við í forvarnarteymi Árborgar erum í skýjunum með þessi viðbrögð og þökkum kærlega fyrir þau“ segir Dagbjört.

Hinseginvikan hér í Árborg var haldin í fyrsta sinn í janúar í fyrra og gekk svo vel að ákveðið var að gera viðburðinn að föstum lið á hverju ári.

„Það er ýmislegt á döfinni, bókasafnið er með stórskemmtilegan viðburð þar sem málfarsráðunautur RÚV kemur og fjallar um hinsegin málfar og nýyrði í íslensku númtímasamfélagi. Pakkhúsið ungmennahús verður með hinsegin hittinga bæði mánudag og miðvikudag þar sem hinsegin manneskjur 16 ára og eldri geta komið saman. Svipaðir hittingar verða svo í félagsmiðstöðinni Zelsíuz á fimmtudaginn þar sem hinsegin unglingar koma saman. Risið, Miðbar og Sviðið verða einnig með frábæra dagskrá og GK bakarí er með flottustu regnbogaköku sem sögur fara af til sölu. Það er svo gaman að sjá hve mörg hafa tekið sig saman og það virðast vera allskyns viðburðir fyrir alla aldurshópa. Við erum einnig með fræðslu inn í grunnskólunum og opna fræðslu sem verður á TEAMS, en sálfræðingurinn Hugrún Vignisdóttir fræðir okkur og fer yfir hugtök hinseginleikans, hvernig við sjáum fyrir okkur kyn og hvers vegna, hún fer líka yfir kynjatvíhyggjuna og margt fleira,“ segir Dagbjört.

Aðspurð hvaðan hugtakið hinsegin komi segir Dagbjört: „Hér á landi hefur orðið hinsegin verið notað sem ákveðið regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt eða fellur ekki inn í það sem er talið þetta „hefðbundna“ kyn eða kynhlutverk. Hugtakið sameinar þau sem undir það falla, undir einni regnhlíf. Samnefnarinn er í raun að það sé eitthvað í fari einstaklingsins sem er í andstöðu við það sem samfélagið ætlast til. Orðið á sér myrka sögu og var lengi vel notað sem niðrandi orð og kom fram í tengslum við jaðarsetningu og fordóma. Hinsegin samfélagið velur það sjálft að nota orðið og nær með því að koma orðinuá kortið og endurskilgreina það sem er í raun stórt skref og mikilvægt skref í réttindindabaráttunni. Að halda svona viku er leið til að styðja hinseginsamfélagið og sýna það í verki að hér séu öll jafn mikilvæg og á sama tíma sýnum við það í verki að baráttan sé barátta samfélagsins í heild.

Í fyrra lentum við í því að flest allir hinsegin fánarnir okkar voru teknir niður og sumir jafnvel eyðilagðir, þetta voru augljós skemmdarverk. Þetta er litið alvarlegum augum og tilkynnt til lögreglu en sýnir okkur það líka að svona vikur og það að vekja athygli á málaflokknum er mjög mikilvægt og algjörlega nauðsynlegt. Við höldum ótrauð áfram og erum umfram allt þakklát fyrir undirtektirnar frá samfélaginu,“ segir Dagbjört að endingu.

Nýjar fréttir