8.4 C
Selfoss

„Við stöndum vaktina á milli lægða, nú treystum við á ykkar stuðning“

Vinsælast

Sölustaðir flugeldasölu Landsbjargar opunuðu í dag. Flugeldasalan í björgunarmiðstöðinni á Selfossi verður opin frá 10-22 fram að gamlársdegi og frá 10-16 á gamlársdag.

„Meira en helmingurinn af sölunni fer fram á gamlársdag og við viljum hvetja fólk til þess að koma fyrr til okkar, það er um 80% af allri sölunni sem fer fram 30. Og 31. Það hefur verið nóg að gera hjá okkur undanfarna daga en einhvernveginn tókst okkur að setja upp og opna flugeldasöluna á réttum tíma. Við stöndum allavega vaktina hérna á milli lægðanna,“segir Sveinn Ægir Birgisson, varaformaður Björgunarfélags Árborgar.

Flugeldasalan er lífæð björgunarsveitarinnar

„Flugeldasalan er okkar lífæð og hver króna sem kemur hingað inn fer beint í starfið hjá okkur. Við þurfum á góðum stuðningi heimafólks að halda til að geta endurnýjað tæki og búnað svo við getum haldið áfram okkar starfi. Samfélagið er búið að byggjast svo gríðarlega hratt upp hérna í Árborg og við finnum vel fyrir því. Sem dæmi sáum við um að sækja heilbrigðisstarfsfólk, fangaverði og lögreglumenn og skutla þeim í og úr vinnu í óveðrinu um daginn, en það voru tveir bílar í því verkefni og einn sem fylgdi sjúkrabílnum hvert sem hann fór. Við þurfum að fara að bæta við bíl til að anna aukinni umferð um sveitarfélagið og auknum fjölda verkefna sem fylgir stækkandi samfélagi og við sjáum fyrir okkur að þurfa að stækka húsnæðið á næstu árum,“ segir Sveinn Ægir.

Vonast eftir góðu veðri svo þau geti eytt áramótunum heima

Það eru allt að 60 manns sem koma að flugeldasölunni með einum eða öðrum hætti. „Á gamlársdag þegar mest lætur eru um 15 frammi að selja og fullt af fólki sem eru á bakvið og að fylla á. Við teygjum út alla anga, unglingadeildin og nýliðarnir hjálpa okkur líka, þetta eru ekki bara félagsmenn. Svo erum við líka með sölu á Stokkseyri og það fer fólk í það, fyrir utan þau sem sjá um að setja upp flugeldasýningarnar. Það eru um 6-10 manns sem sjá um flugeldasýninguna og brennuna á Selfossi á gamlárskvöld klukkan 20 og svo eru tvær sýningar til viðbótar á nýju ári, það er sýning 2. janúar á Stokkseyri og svo þrettándagleðin hér á Selfossi þann 6. Þetta er mikil keyrsla, fyrsta sýningin er útbúin, eftir hana er þrifið og gengið frá hólkum og svo strax daginn eftir er hafist handa við að setja upp næstu sýningu. Svo ef eitthvað kemur uppá, útkall eða eitthvað þá missum við mannskap héðan. Við vonumst bara eftir góðu veðri á gamlárskvöld svo að fólk kaupi sem mest og að við getum fengið að vera heima,“ segir Sveinn Ægir.

Í björgunarmiðstöðinni er að finna fjölbreytt vöruúrval í öllum verðflokkum. „Stærstu terturnar seljast oftast upp og hafa sumar tegundir verið uppseldar á gamlárskvöld. Hjá okkur er hægt að fá öryggisgleraugu og öryggisbúnað, heyrnarhlífar fyrir börn, allskonar upplýsingar varðandi umgengni á flugeldum og allt þeim tengt ef fólk er eitthvað óöruggt.  Salan hefur aðeins aukist á milli ára, hugsanlega er það vegna þess að í covid þurftu allir að halda sín eigin partý,“ segir Sveinn Ægir að lokum.

Nýjar fréttir