11.7 C
Selfoss

Allt kapp lagt á að halda vegum opnum

Vinsælast

Slæmt veður og mikil ofankoma urðu til þess að loka þurfti vegum á Suðurlandi um jólin. Vegagerðin hefur lagt allt kapp á að veita eins góða þjónustu og mögulegt er með tilliti til veðurs. Öll tiltæk tæki hafa verið notuð undanfarna daga til snjómoksturs og starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar á hennar vegum unnið frá morgni til kvölds alla hátíðardagana.

Markmið Vegagerðarinnar er að halda vegum opnum eins og kostur er en loka ef öryggi fólks er ekki tryggt og til að koma í veg fyrir slys. Ef lokað er of seint eykur það hættu á að bílar festist og lengri tíma tekur að opna að nýju. Vegagerðin hefur skilning á þörfum ferðaþjónustunnar og mun strax á nýju ári funda með Samtökum ferðaþjónustunnar til að fara yfir hvaða leiðir eru færar til að auka þjónustu við þessa mikilvægu atvinnugrein.

Krefjandi aðstæður á Suðurlandi

Aðstæður á Suðurlandi voru krefjandi um jólin vegna slæms veðurs og mikillar ofankomu. Sjaldan hefur verið jafn mikið fannfergi í Vík. Færð á vegum var fljót að spillast þótt unnið væri að snjómokstri öll jólin. Á tímabili varð að loka Hringveginum (1) milli Hvolsvallar og Kirkjubæjarklausturs þar sem aðstæður voru afar erfiðar.

Á aðfangadag lokuðust vegir út frá Vík klukkan 18 vegna hríðarveðurs og mikillar ofankomu. Á jóladag var ófært en snjómokstur hófst þá strax um morguninn svo hægt yrði að opna veginn yfir Reynisfjall. Tæki á vegum verktaka og Vegagerðar voru nýtt til verksins. Þegar sá fyrir enda á verkinu skall á næsta lægð svo allt varð ófært á ný.

Frá jóladegi voru um tólf tæki nýtt til að ryðja snjó á þessu svæði. Tæki voru lánuð á milli svæða til að flýta fyrir mokstri, auk þess sem aukatæki voru fengin til verks; snjóblásarar, vegheflar og gröfur. Vegna mikillar snjókomu var fljótt að safnast í skafla sem urðu á köflum yfir 4 metrar og tekur tíma að moka þeim í burtu.

Björgunarsveitir voru að störfum aðfaranótt annars í jólum við að bjarga vegfarendum sem höfðu ekki virt lokanir Vegagerðarinnar.

Annan dag jóla náðist að opna veginn frá Vík að Hvolsvelli en frá Vík að Kirkjubæjarklaustri náðist aðeins að ryðja eina akrein vegna mikilla snjóa, svo settur var á fylgdarakstur. Með því móti tókst að koma 600 bílum á milli Víkur og Klausturs. Veginum var lokað um klukkan tíu um kvöldið vegna snjóbyls.

Í gærmorgun, þann 27. desember, náðist að opna veginn milli Víkur og Hvolsvallar. Verr gekk að opna veginn um Mýrdalssand en seinnipartinn í gær hófst fylgdarakstur milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs svo umferð kæmist í gegnum þetta svæði.

Í dag, 28. desember er Hringvegurinn (1) opinn. Unnið er að því að ryðja snjó fjær vegum til að auka likur á því að halda vegum opnum ef veður skyldi versna.

Mikilvægt er að vegfarendur fylgist vel með færð á vegum á umferdin.is . Einnig er áríðandi að vegfarendur virði lokanir vega. Það tefur fyrir opnun ef losa þarf fasta bíla og draga í burtu.

Fréttatilkynning frá Vegagerðinni.

Nýjar fréttir