7.3 C
Selfoss

Lífið er lærdómur 

Vinsælast

Árið hefur verið íþróttahreyfingunni krefjandi og lærdómsríkt. Þetta er árið þegar allt fór í gang á ný eftir heimsfaraldur. Við í ungmennafélagshreyfingunni vorum yfir okkur ánægð með að halda í þriðju tilraun Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina. Fjölskyldur skemmtu sér þar saman frá morgni til kvölds í fjölmörgum íþróttagreinum og á tónleikum auk ýmissar annarrar afþreyingar á meðan á mótinu stóð. Mótið tókst vel og þátttakendur glaðir.

Það er gefandi að vinna með öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning Unglingamótsins sem að þessu sinni var haldið undir merkjum Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg. Hjá HSK er reynslumikið fólk sem kann til verka enda hefur það komið að fjölmörgum verkefnum UMFÍ í gegnum árin. Mikilvægt er að þekkingin á mótahaldi haldi áfram að flytjast á milli svæða og kynslóða svo við getum haldið áfram að gera betur en áður.

Við í ungmennafélagshreyfingunni vinnum sleitulaust að því að gera betur, læra meira og styrkja okkur. Í nærumhverfi UMFÍ hafa verið tekin stór skref sem bæta íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna á landsvísu. Fyrir þremur árum bættust þrjú íþróttabandalög við UMFÍ og nú undir árslok varð Íþróttabandalag Hafnarfjarðar að sambandsaðila UMFÍ. Nánast öll íþróttafélög landsins eru nú innan vébanda UMFÍ.

Samstarf ÍSÍ og UMFÍ hefur aukist verulega síðustu misserin. Með flutningi þjónustumiðstöðvar UMFÍ í Íþróttamiðstöðina í Laugardal bindum við vonir við enn frekari samvinnu og samlegðaráhrifa innan íþróttahreyfingarinnar sem mun skila sér í auknum krafti samfélaginu til góða.

Ungmennabúðir á Laugarvatni

UMFÍ hefur ávallt staðið sterkum fótum á Suðurlandi enda stofnað á Þingvöllum í byrjun ágúst árið 1907. Ræturnar eru því sterkar. Fyrir nokkrum árum fluttum við Ungmennabúðir UMFÍ frá Vesturlandi í gömlu íþróttamiðstöðina á Laugarvatni. Húsnæðið þar og umhverfi þess hefur verið endurnýjað jafnt og þétt í samstarfi við sveitarstjórn og starfsfólk Bláskógarbyggðar.

Í Ungmennabúðirnar koma nemendur 9. bekkjar grunnskóla af öllu landinu og er húsnæðið fullt allt skólaárið og komast færri að en vilja. Þar er lögð áhersla á óformlegt nám og útivist, þátttöku í samfélaginu, betri samskipti og leiðtogaþjálfun. Þar læra börnin margt nýtt sem þau flytja með sér heim og byggja á til framtíðar.

Íþróttafélög og allir aðrir sem áhuga hafa geta fengið inni í Ungmennabúðum UMFÍ utan háannatíma; s.s. um helgar, á sumrin og öðrum tímum þegar skólastarf er ekki í gangi. Þannig nýtist húsið starfsmönnum, sjálfboðaliðum og forystufólki í íþróttahreyfingunni, deildum íþróttafélaga og öllum þeim sem vilja miðla af reynslu sinni, fræða og flytja þannig þekkingu áfram. Með því að gera húsnæði Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni að miðstöð þekkingar og fræðslu þá sköpum við tækifæri til þess að bæta einstaklinga og samfélagið til framtíðar. Þau sem leita eftir þaki undir fræðslustarf sitt, vilja bæta íþróttastarfið fyrir deildina eða félag sitt geta haft samband við okkur í þjónustumiðstöð UMFÍ og saman getum við gert gott starf enn betra.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Með ungmennafélagskveðju og kærri þökk fyrir árið sem er að líða.

Jóhann Steinar Ingimundarson,
formaður UMFÍ.

Nýjar fréttir