5.6 C
Selfoss

Orðaleikur 2

Vinsælast

Býsna oft ber fyrir augu skrítin og skemmtileg íslensk orð, sum eru gömul jafnvel forn, en önnur teljast jafnvel til nýyrða. Flest eiga þau það þó sameiginlegt að þau verða stöðugt fáséðari og einna helst að þau dúkki upp í rituðu máli, en afar sjaldan í daglegu töluðu máli. Mörg þessara orða hafa jafnvel breytt þeirri meiningu sem þeim var upphaflega ætluð. Sjálfum finnst mér skemmtilegt að leika mér með þessi orð og reyna að setja þau í samhengi þannig að þau falli að myndun setninga. Ég læt hér fylgja sýnishorn að því sem leitt getur af þessu gamni mínu.

Í dag 1. desember að morgni fullveldisdagins þegar ég hef nuddað stýrurnar úr augunum og litið út um gluggann er jörð svört og auð, ekki endilega eins og eiga má von á um miðjan vetur, en þannig er hið ófyriséða tíðafar á Fróni um þessar mundir. Ég þekki mann sem kvartar þó hástöfum yfir skorti á hráefni himinsins í formi snævar, hann hefur það sem drjúgar aukatekjur að hreinsa snjó af heiðum landsins til þess að greiða fyrir umferð.  Í sjálfu sér er ekki yfir neinu að kvarta hvað veðurfarið varðar, hitastig miðað við árstíma er hátt, en það læðist þó að mér sú hugsun að eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá þeim himnafeðgum í frárennslislögnum á himnum fram að þessu því vatnsofankoman frá sumri og hausti virðist engan endi ætla að taka. Væturennslið hefur þó ekki komið í veg fyrir að fólk bregði sér af bæ ýmist vel búið gangandi eða minna klætt akandi í ýmisskonar erindagjörðum eða bara í erindisleysu. Þeir eljusömu sem eiga erindi hafa vonandi borð fyrir báru til að líta við í þeim urmul sölubúða og geðgleðistaða sem bjóða uppá munngát af ýmsu tagi þar sem allir ættu að fá eitthvað sem kitlar þeirra bragðlauka, en sýna ber þó aðgát í höndli og innbyrðingu á þeim fjölbreyttu guðaveigum sem uppá er boðið.  Ugglaust falla þó einhverjir drabbarar í freistni, en aðrir malda í móinn þegar sumir vilja kneyfa fagnarfull, en aðrir vilja það síður. Þeir aðgætnu ráða þeim einarðlega um heilt og  brýna þá til að taka þann kostinn sem vænlegri er og gæta fyllsta hófs því á langri leið leynast ýmsar hættur fyrir bæði gangandi og akandi útkýlda nautnaseggi og vei sé þeim sem vánni veldur.  Það er engin bábilja að ætla að þegar að húmar að kveldi kunni að leynast einhverjir bévítans ódámar fúsir til ryskinga,  snoppungaskipta og með því valda usla meðal friðsamra vegfarenda. Áhugamál fólks eru þó misjöfn og því liggja leiðir ekki allar í sömu átt, sumir fara hingað, en aðrir þangað og á leiðinni verða ýmsir freistandi staðir sem krefjast viðkomu, mislangra þó eftir stöðum og e.t.v. kyni ferðalanga, en fjölbreytnin er svo auðug að það er eitthvað fyrir alla.  Þegar komið er svo nærri jólum er það afar einstaklingsbundið hversu mikið fagnaðarhátíð friðar, frelsunar og ljóss snertir við þeim. Fyrir suma er verslanaráp raun og pína, en þeir reyna þó eftir bestu getu að ganga ekki af göflunum þó þeir árangurslaust geri veikburða tilraunir til að malda í móinn. Þeir láta teymast hnýpnir og án þess að ibba gogg að  neinu ráði um götur og torg í svölu skammdeginu örlítið gramir, en ekki nema að litlu leiti hvumpnir vitandi hvað til þeirra  friðar heyrir og reyna að taka upp léttara spjall.  Það er þó erfitt annað en að upplifa skaplétti þegar komið er frá skammri heimsókn í höfuðstaðinn Reykjavík að brúnni yfir Ölfusá uppljómaðri af jólaljósum og enn bætist um betur þegar glæsilegi uppljómaði nýji miðbærinn okkar Selfossbúa blasir við í jólaljósadýrð . Í bænum sjálfum blasir síðan við nánast hvert sem litið er, fagurlega skreytt hús íbúða og atvinnustarfsemi af fjölbreyttri gerð.  Uppákomur af ýmsu tagi standa áhugasömum til boða svo sem: tónlistaratriði af nánast öllum gerðum, upplestur góðra bóka og hátíðarveislur með svignandi borðum af ómótstæðilegum krásum.  Jólasveinar fara um byggðir og ból og gleðja jafnt unga sem gamla, hali og sprund . Sveinarnir þeir koma rauðklæddir og rauðnefjaðir hálf luralegir til bæja eftir langa dvöl til fjalla þaðan sem heimkynni þeirra munu vera , en þar hafa þeir dvalið norpandi og þar sem vatn seytlar niður veggi við fremur illan kost og orðið að sýna aðgát svo ekki hnýsnir umfarendur komi á þá auga að ófyrirsynju.  Þeir eru þó svo lánsamir að búa í eigin húsnæði, en eru ekki uppá gráðug okrandi leigufélög komnir.  Með bjartara veðri sem framundan er skín síðan um kvöld gráglettinn merlandi máni á vaska vegfarendur sem  með hýrri há halda einarðir áfram í leit að  frekari:  upplyftingu, geðkæti og eða hagstæðum  innkaupum til jóla.

Gleðileg jól.

Ómar Franklínsson
Selfossi

Nýjar fréttir