7.3 C
Selfoss

Sigursagan í jólasögukeppni Dagskrárinnar 2022

Vinsælast

Hrefna Daníelsdóttir var sigurvegari í jólasögukeppni Dagskrárinnar og Bókakaffisins og kemur til með að hljóta veglega bókagjöf frá Bókakaffinu í verðlaun. Við hjá Dagskránni óskum Hrefnu innilega til hamingju og vonum að lesendur okkar hafi jafn gaman og við að því að lesa þessa fallegu, sönnu jólasögu sem ætti að geta gefið öllum hlýtt í hjartað.

Sagan af Baltasar Baxter og Bessu Mjöll

Það var dag einn í lok nóvember 2011 að bóndi minn var sem oft áður á rölti á bæjarhlaðinu. Að þessu sinni í félagsskap Baxters, sex ára gamals hunds af Boxerkyni. Baxter var nýkominn í fóstur til okkar þarna rétt undir jólin. Hann var mikill vexti og stæðilegur, stórlyndur og hafði ríkt varðeðli. Farið var að rökkva þegar gangan hófst. Veður var rysjótt, hvassviðri og gekk á með dimmum éljum. Við vorum búsett á kirkjustað, nokkuð frá annarri byggð en þó mátti grilla í ljós þaðan á milli élja.

Baxter var hlýðinn og tryggur nýjum húsbændum og fylgdi þeim jafnan fast eftir en þarna í miðri gönguferðinni tók hann skyndilega á rás og stefndi einbeittur að kirkjudyrunum. Stökk léttilega upp kirkjutröppurnar og staðnæmdist á þeirri efstu þar sem hann stóð svo grafkyrr og starði niður á eitthvað, að því er virtist. Bóndinn kallaði til hundsins í fyrstu, sem virtist ekkert heyra, svo að sá fyrrnefndi fór að gá hverju sætti. Í fyrstu kom hann auga á litla, gráa þúst í horninu við dyrnar. Það reyndist við nánari athugun vera hálfstálpaður kettlingur sem lá þarna í hnipri og hafði greinilega leitað skjóls frá veðrinu, þar sem ylinn lagði undan óþéttum kirkjudyrunum.

Það var algerlega óvíst hver yrðu örlög kattarins þarna undir ströngu tilliti Baxters, sem við vissum að var alveg óvanur köttum. Örlög kisu réðust á þessum tímapunkti. Bóndinn skipaði Baxter að fylgja sér og bjóst til þess að ganga burt frá kettinum, og freista þess að fá athygli hundsins af honum. Hann kom lötrandi á eftir hinum nýja húsbónda sínum, en hikandi. Á þessu augnabliki virtist eins og það hefði myndast einhver óskiljanleg tenging milli dýranna, sem er best lýst þannig að Baxter bauð kisu að elta sig heim á leið – og hún þáði boðið. Nokkur spotti var heim í hús en kisa litla fylgdi í humátt á eftir hundi og manni. Baxter gætti þess að hafa auga með henni á heimleiðinni. Þegar húsbóndinn opnaði útidyrnar, fylgdi kötturinn hundinum óhikað inn úr storminum og hríðinni.

Mynd: Hrefna Daníelsdóttir.

Fyrsta verk kisu litlu var nú að leita sér ætis og vatns. Hún fór beint í matardalla Baxters, sem stóð yfir henni og mændi á hana athafna sig en aðhafðist ekkert. Kötturinn naut einhverrar óskiljanlegrar friðhelgi. Augljóst var að hann var langsoltinn, blautur og máttfarinn. Holdafarið var afar rýrt og hár hans strítt. Þetta var greinilega samt ekki villiköttur og líklegast virtist, miðað við aðstæður og ástand hans, að hann hefði verið borinn út af eigendum sínum. Hafist var handa um að hlúa að kisu litlu, næra þurrka og verma. Baxter fylgdist með þessu öllu af athygli. Við fórum með kisu á dýraspítala, þar sem ekkert örmerki fannst en hún talin vera um það bil fjögurra mánaða smávaxin læða eftir skoðun og aðhlynningu. Í samráði við dýralækna, varð það úr að við fyndum henni nýtt heimili ef réttur eigandi fyndist ekki. Þrotlaus leit að eigendum í nágrenninu skilaði engum árangri svo að við létum boð út ganga um að leit að góðu heimili stæði yfir fyrir kisu. Helst hefðum við viljað fóstra hana sjálf en aðstæður okkar leyfðu það ekki. Kisa litla var nú hjá okkur um sinn og braggaðist með degi hverjum. Eftir því sem styrkur hennar jókst, fékk hún ekki lengur aðgang að matnum hans Baxters, enda eignaðist hún fljótlega sinn eiginn matardall. Í fyrstu hafði kisa fengið að kúra hjá Baxter en hann skynjaði það strax þegar hún þurfti ekki lengur á því að halda. Á meðan kisa litla var sem máttförnust, hlúði Baxter beinlínis að henni en eftir því sem styrkur hennar jókst, minnkaði friðhelgin. Aldrei kom þó til átaka né nokkurra láta á milli þeirra. Þau höfðu bæði verið í þeirri aðstöðu að þurfa á nýju fósturheimili að halda, þó svo að það væri af mismunandi ástæðum.

Rétt fyrir jólin hringdi síminn. Kurteis ung kona spurði hvort hún mætti koma með börnin sín tvö að hitta kisu, sem hún hafði frétt af hjá vinkonu sinni. Litla fjölskyldan kom í heimsókn, og milli kisu og þeirra mynduðust óðara kærleiksbönd. Þau höfðu áður farið í Kattholt en ekki náð að mynda tengsl við nokkurn þeirra katta sem þar voru. Það var gefandi að sjá hversu hlý samskipti fóru þarna á milli. Kisa varð þar með þeirra. Baxter virtist samþykkja þessa ráðagerð (þetta var nú einu sinni kisan hans). Baxter fylgdi litlu vinkonu sinni á nýja, notalega heimilið hennar. Börnin skýrðu kisu Bessu Mjöll. Bessa Mjöll lifir í góðu yfirlæti enn í dag, þökk sé Baltasar Baxter og fósturfjölskyldunni. Jólin gengu í garð og hin farsælu afdrif beggja dýranna gáfu hátíðinni nokkuð sérstakan blæ að þessu sinni.

Hrefna Daníelsdóttir.

Nýjar fréttir