7.3 C
Selfoss

Jólahátíðin í Sveitarfélaginu Árborg

Vinsælast

Í þessum mánaðarlegu pistlum hef ég farið stuttlega yfir helstu verkefni Sveitarfélagsins Árborgar og bæjarstjórnar hverju sinni og vona að íbúar og aðrir áhugasamir hafi af því einhverjar upplýsingar og fróðleik. Nú þegar komið er fram í desember og jólahátíðin stendur sem hæst með öllum þeim skemmtilegu viðburðum sem því tengjast er um leið verið að klára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins sem rammar inn helstu verkefni og stefnu bæjarstjórnar fyrir næsta árið.

Dregið úr hækkun fasteignagjalda

Í fjárhagsáætlun ársins 2023 ætlar Bæjarstjórn Árborgar meðal annars að leggja sitt að mörkum til að draga úr hækkun fasteignagjalda eftir ótrúlega hækkun fasteignamats fyrir næsta ár. Fasteignagjöldin samanstanda af fasteignaskatti, lóðarleigu, fráveitu- og vatnsgjaldi og sorphirðugjaldi. Bæjarstjórn ákvað að lækka ekki fasteignaskattsprósentuna vegna tengingar hennar við framlög jöfnunarsjóðs heldur frekar lækka fráveitu- og vatnsgjaldið. Það skilar því að hækkun fasteignagjalda á íbúa og fyrirtæki verður á bilinu 7-17% í stað 18-38%. Gerum okkur grein fyrir að þetta er töluverð hækkun en því miður var ekki hægt að ganga lengra enda fjárhagsstaða sveitarfélagsins krefjandi. Markmið næstu ára er áframhaldandi hagræðing í rekstrinum til að skapa jákvæða rekstrarafkomu og grundvöll til frekari innviðaframkvæmda sem bætir aðstöðu og þjónustu við okkur íbúanna. 

Nýjar skólabyggingar komast í notkun

Það er gleðiefni að aðstaða til kennslu er að batna verulega á Eyrarbakka á þessum vikum. Eftir að upp kom mygla í húsnæði barnaskólans í vor hefur kennsluaðstaðan verið á mörgum stöðum og aðdáunarvert hvernig kennarar, starfsfólk og nemendur hafa leyst úr aðstæðum sem enginn bað um. Þótt um sé að ræða bráðabirgðahúsnæði mun það án efa bæta núverandi aðstæður umtalsvert fyrir eldri deildir skólans.

Nemendur og starfsfólk Stekkjaskóla bíða einnig spennt eftir að geta fært sig yfir í nýtt húsnæði á skólalóðinni. Framkvæmdir við 1.áfanga skólans hafa staðið yfir frá því í mars 2021 en eru nú á lokametrunum og ætti kennsla að geta hafist í nýja húsnæðinu í seinni hluta janúar.  

Gleði og gaman á jólahátíðinni

Viðburðadagskráin í desember er fjölbreytt um allt sveitarfélagið. Reglulegir viðburðir eru í miðbæ Selfoss alla jólahátíðina og fyrstu þrjár helgarnar á aðventunni var sérstakt jólatorg á planinu við Húsið á Eyrarbakka sem hefur tekist vel og verður vonandi hægt að halda áfram með til framtíðar. Tónleika- og skemmtikvöld hafa sennilega aldrei verið fleiri í sveitarfélaginu en einmitt núna. Tónlistarskólar, kórar, uppistandarar og aðrir listamenn keppast við að halda hvern framúrskarandi viðburðinn á fætur öðrum og ættu allir að geta fundið viðburði við hæfi og leyft sér að gleyma jólaamstrinu í eins og eina kvöldstund.

Jólagluggarnir eru í gangi frá 1.- 24. desember en þá opna ýmis fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu sérstakan jólaglugga sem inniheldur skreytingar og falinn bókstaf sem er hluti af stafagátu sem er skemmtilegur leikur fyrir fjölskylduna. Nánari upplýsingar um leikinn og aðra viðburði í sveitarfélaginu er hægt að finna inn á heimasíðu Árborgar www.arborg.is.

Mörg önnur verkefni liggja á borði bæjarstjórnar Árborgar en ég held að við ættum að staldra við hér og leyfa okkur að njóta jólahátíðarinnar. Vil óska íbúum og nærsveitungum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hlakka til að eiga í áframhaldandi samstarfi við ykkur á nýju ári.

Bragi Bjarnason
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir