8.9 C
Selfoss

Streita og lífstíll

Vinsælast

Í hraða okkar samfélags virðist streita verða of mikil hjá sumum. Streita í hæfilega miklu magni getur verið hjálpleg til að koma hlutum í verk en ef hún verður of mikil eða langvarandi getur hún orðið heilsuspillandi.

Við streitu kviknar á frumstæðu viðvörunarkerfi í líkamanum, kerfi sem oft er kallað flótta og forðunarviðbragð og er til þess fallið að gera okkur hæfari til að takast á við hættur umhverfisins. Í dag er þó yfirleitt ekki aðstæður sem ógna lífi okkar eða limum heldur aðstæður sem eru krefjandi eða óþægilegar en virkja samt þetta frumstæða viðbragð. Í slíkum aðstæðum eru þessi viðbrögð ekki hjálpleg og ef þau virkjast oft og lengi geta þau orðið skaðleg líkama okkar og valdið sjúkdómum. Þess vegna er mikilvægt að kunna aðferðir sem draga úr streitu í daglegu lífi.

Slökun – Lærðu árangursríkar aðferðir til að slaka á og notaðu þær reglulega. Hægt er að hlusta á slökunaræfingar auk þess sem ýmis smáforrit eru til með aðferðum til að koma ró á huga og líkama. Passaðu upp á að fá nægan svefn,það er grundvallaratriði.

Hreyfing: Fáðu þér göngutúr í hádeginu, skrepptu í sund eftir vinnu eða taktu á því í ræktinni. Skráðu þig á dansnámskeið. Hreyfing er frábær leið til að fá útrás, losa um spennu og auka vellíðan.

Samvera:Hittu vin yfir kaffibolla, leiktu við barnið þitt eða horfðu á mynd með fjölskyldunni. Góðar samverustundir meðþeim sem þér líður vel með eru afslappandi og auka vellíðan.

Daglegar ánægjustundir:Passaðu að dagleg rútína innihaldi ekki aðeins skyldur og kröfur heldur einnig ánægjustundir. Það þarf ekki að vera tímafrekt, dýrt eða flókið að finna stundir til að njóta lífsins, t.d. að fara aðeins útog anda að sér fersku lofti, setjast á bekk og virða fyrir sér mannlífið, eiga náðuga stund með góðri bók eða sjónvarpsþætti eða njóta þess að borða góðan mat í hádeginu.

Endurmat á viðhorfum:Stundum höfum við tamið okkur viðhorf, venjur og viðbrögð sem gera ekkert annað en aðauka á streitu okkar. Taktu eftir því hvaða viðhorf, venjur og viðbrögð þú hefur sem eru þess virði að endurskoða.Mundu, að það er sífellt verið að selja okkur að okkur vanti eitthvað í okkar líf, við séum ekki nóg með það sem við höfum.

Draga úr áreiti:Íhugaðu hvaða aðstæður eða áreiti valda þér streitu og veltu fyrir þér hvort ekki megi fækka þeim. Hefurðu tök á að fara heim úr vinnu á öðrum tíma en háannatíma í umferðinni? Geturðu keypt í matinn þegar færri eru í búðinni? Ertu í miklum samskiptum við fólk sem tekur frá þér orku en gefur lítið í staðinn? Eru snjalltæki streituvaldur fyrir þig?

Núvitund: Núvitund er leið til að efla vellíðan með því að beina athygli að líðandi stund og finna betur fyrir sjálfum sér, hugsunum sínum og líðan. Þetta er þjálfað með einföldum æfingum sem snúa að markvissri þjálfun athyglinnar. Æfingin felst í því að skynja það sem er að eiga sér stað milliliðalaust og án þess að dæma eða þvinga eitthvað fram.Þetta er æfing í því að vera til staðar hér og nú, sleppa takinu og sættast við það sem er. Hægt er að finna núvitundaræfingar af ýmsum toga á netinu, í smáforritum, bókum og námskeiðum. Á heilsuvera.is er hægt að finna einfaldar núvitundaræfingar.

Tíma og verkefnastjórnun: Lærðu gagnlegar aðferðir við að skipuleggja vinnu og tíma. Það er góð venja að gera verkefnalista yfir það sem þarf að gera að morgni dags eða daginn áður og forgangsraða verkefnum. Þá hefurðu yfirsýn og getur tekist á við verkefnin á skipulagðan hátt.

Fækka verkefnum:Stundum er ekki nóg að forgangsraða eða skipuleggja verkefni því það eru einfaldlega of margir boltar í loftinu í einu. Undir slíkum kringumstæðum er mikilvægt að átta sig á því að það þarf að fækka verkefnum eðafá aðstoð ef ástandið á að skána.

Leita eftir faglegri aðstoð:Ef streita er mikil eða langvarandi, ef þú býrð við aðstæður sem þér finnst erfitt að ráða við eða finnur fyrir kvíða, depurð eða vonleysi er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Pantaðu tíma á heilsugæslustöðinni þinniog ræddu þessi mál við fagaðila.

Pistillinn er birtur í tengslum við Forvarnarviku HSU þar sem í ár er lögð áhersla á streitu og lífstíl.

Bjarnheiður Böðvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur 

Nýjar fréttir