9.5 C
Selfoss

Bókin Guðni-Flói bernsku minnar

Vinsælast

Í bókinni Guðni-Flói bernsku minnar segir Guðni Ágústsson frá skemmtilegu og mögnuðu fólki í Flóanum en Guðjón Ragnar Jónasson skrifar bókina og þeir ferðast um saman. Bókin geymir hnyttin tilsvör, örlagasögur og lýsingar á fólki.
Mjög margt fólk kemur við sögu og þeir félagar ferðast nánast bæ frá bæ. Ferðin hefst í Laugardælum þar sem örlagasaga Bobby Fischers er sögð og það að séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson hafi jarðsungið hann sex sinnum, og skákmeistarinn varð áhrifavaldur í málefnum Íslands á heimsvísu.
Magnaður er pólitískur draumur Bjarna Stefánssonar bónda í Túni sem hann dreymdi tvisvar um það leiti sem Guðni verður landbúnaðarráðherra. Bjarni sér sig knúinn til að vara Guðna við Halldóri Ásgrímssyni en hann birtist Bjarna í draumi í Túnsbröggunum í heimaslátrun.

Kristinn Helgason í Halakoti var þjóðsagnapersóna og margt er rifjað upp úr lífi hans, leiklist og fleiru. Guðni segir frá því að Pétur Gunnarsson rithöfundur hafi skrifað söguna Punktur Punktur Komma Strik eftir að hafa verið mörg sumur í Halakoti og þessi magnaða bók var kvikmynduð. Kristinn er Stefán á Litlu-Tá og fór á hvítatjaldið. Sagan af kálfinum Fífli og krökkunum í Halakoti er sprenghlæileg.

Kristinn í Halakoti

Þeir koma við í Langholti hjá Hreggviði Hermannssyni trésmið og listamanni og hann segir frá raunum sínum og viðureigninni við þessa ,,andskota,” sem eru framsóknamennirnir sem hann telur sína verstu andstæðinga.

Presthjónin Sigurður Pálsson og Stefanía í Hraungerði koma mikið við sögu, Bella á Kjartanstöðum eða á Bellubar, hún lagði á og mælti um að Guðni yrði landbúnaðarráðherra og bakaði ráðherratertuna. Siggi á Neistastöðum fær sinn skerf enda, þingeyingur sem var kommúnisti og fékk leyfi til að fara inn í Bandaríkin með því að upplýsa að hann væri félagi í SS eða Sláturfélagi Suðurlands.

 Eyvindur Erlendsson leikstjóri setti Nýársnóttina á svið í Þjórsárveri og kom Guðna á leiksviðið og þaðan fór hann á stóra sviðið á Alþingi. Einlægasti kafli bókarinnar er þó sagan af Ingveldi móður Guðna og uppeldinu á Brúnastöðum en þau Ágúst eignuðust sextán börn á 21 ári við aðstæður þar sem engin rafmagnstæki voru til staðar lengi vel, og stærð hússins aðeins sjötíu fermetrar. Teikning Sigmunds er frábær söguleg heimild þar sem krakkarnir kúra tvö í hverju rúmi. Guðni segir móður sína hafa verið kallaða huldukonuna á Brúnastöðum en í litlum hópi vina hafi hún átt fallegasta brosið og skærasta hláturinn. Mögnuð árflóð úr Hvítá við Brúnastaði fá sinn skerf í myndum og minningu Ágústs föður Guðna þar sem munaði mjóu að tveir synir Ágústs færust.

Gamli bærinn á Brúnastöðum sem var sjötíu fermetrar. Hann lét Ágúst Þorvaldsson byggja árið 1932 en þar var búið til 1956. Mynd úr safni Ásdísar Ágústsdóttur frá Brúnastöðum.
Svona sá Sigmund Jóhannsson, sem lengi var skopmyndateiknari Morgunblaðsins, litla gamla bæinn á Brúnastöðum. Tvímennt var í öllum rúmum, börnin orðin tólf og foreldrarnir sváfu með yngstu börnin. Ekki má gleyma Snata sem svaf sínum væra blundi í anddyrinu.
Mynd úr safni Guðna Ágústssonar frá Brúnastöðum.

Ágúst var heljarmenni og bjargaði lífi sínu með því að halda tíu vetra griðungi í heljargreipum og segir Guðni þetta afrek nálgast að vera jafn mikið þrekvirki og glímu Grettis við drauginn Glám.

Loks bregða þeir félagar sér yfir Hvítá að hinu forna sýslumannssetri í Kiðjabergi og leysa gátuna um Biblíubréfið fræga, dýrasta bréf Íslandssögunnar.

 „Bókin er spennubók, fróðleg og skemmtileg aflestrar.“ Eftir að sagnfræðingurinn Lýður Pálsson lauk við að lesa bókina, komst hann svo að orði: „Ég gat ekki lagt hana frá mér og las hana í einum rykk á fimm klukkustundum.“

Guðni Ágústsson færði Fjólu Kristinsdóttur bæjarstjóra Árborgar bók sína; Guðni-Flói bernsku minnar. Morgunhanarnir sem skrafa og drekka kaffi í bókasafninu á morgnana mynduðu varðhring um athöfnina.

Nýjar fréttir