0 C
Selfoss

Sveitarfélagið Ölfus með jákvæðan rekstur

Vinsælast

Í síðustu viku var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélagið Ölfus. Á forsendum trausts reksturs sem skilar rekstrarafgangi í bæði samstæðu og A hluta er stefnt að innviðafjárfestingum Sveitarfélagsins upp 9 milljarða á næstu 4 árum. Samhliða er fasteignaskattshlutfall lækkað um 24,2% á næsta ári og hefur það þar með verið lækkað um 38% á fimm árum. Til grundvallar þessa trausta reksturs liggja stærstu einkaframkvæmdir atvinnulífsins hér á landi í sögunni þar sem fyrirhugað er að verja hátt í 200 milljörðum til verðmætasköpunar og fjölgun starfa á næstu árum.

Ráðgert er að rekstrartekjur samstæðu verði 4.241.745 þús. kr. og rekstrargjöld 3.441.628.  Fjármagnsgjöld verði 209.018 þús. kr. og afskriftir 257.912 þús. Þannig verði rekstarniðurstaða, jákvæð sem nemur 333.188 þús. kr. og veltufé frá rekstri verði 764.060 þús. kr.  Fyrirhugað er að greiða langtímalán niður fyrir 239.980 þús. kr.

Sé litið til A-hluta má sjá að samkvæmt áætlun verða rekstrartekjur 3.549.755 þús. kr. og rekstrargjöld 3.148.685 þús. kr.  Áætlunin gerir ráð fyrir að A hluti verði rekin með afgangi upp á rúmlega 160 milljónir.

Áætlunin ber í alla staði með sér að Ölfus er í sókn enda hefur íbúum á árinu fjölgað verulega.  Höfuð áhersla er því lögð á að mæta þörfum vaxandi samfélags með áherslu á fræðslu- og fjölskyldu mál svo sem styrkingu félagsþjónustu og framkvæmdum við skóla.

Á komandi ári eru allverulegar fjárfestingar fyrirhugaðar.  Heildar eignfærðar fjárfestingar eru áætlaðar 1.451.775 þús. kr. nettó. Brúttó fjárfestingar vel á þriðja milljarð.  Þannig eru áætlaðar fjárfestingar vegna nýs leikskóla 450 milljónir á næsta ári og 300 milljónir árið 2024. Samtals eru fyrirhugaðar fjárfestingar í fræðslu- og uppeldismálum upp á 1.416.550 þús á næstu 4 árum.

Áfram verður haldið með þá stefnu að bjóða upp á hagkvæmar lóðir á kostnaðarverði og þannig reynt að mæta vaxandi húsnæðisþörf án auka skattlagningar á húsbyggendur í formi lóðagjalda. Framkvæmdir við gatnagerðar á næsta ári er áætlaður 1.020.000 þúsund.

Þegar litið er til næstu fjögurra ára má sjá þann mikla sóknarhug sem er í samfélaginu í Ölfusi því ráðgert er að nettó fjárfestingarkostnaður verði rúmlega 6 milljarðar og brúttó fjárfesting gæti því vel legið nærri 9 milljörðum.

Samhliða þessum mikilvægu þáttum er áfram allra leiða leitað til að létta álögum á bæjarbúa og styðja við bakið á þeim.

Áfram verður haldið að bæta innviði og hvergi kvikað frá þeirri stefnu að fjölga íbúum á forsendum traust atvinnulífs. Framundan eru stærstu atvinnufjárfestingar Íslandsdsögunnar þar sem ma er fyrirhugað að verja 160 til 180 milljörðum í uppbyggingu laxeldis á landi. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum nýsköpunarverkefnum bæði í dreifbýli og þéttbýli. Má þar til að mynda nefna áburðarverksmiðju sem framleiðir umhverfisvænan áburð úr affalli fiskeldis, gróðurhús, skelrækt, gagnaver, smáþörungarækt, drykkavöruframleiðsla og marg fl.  Til að þjónusta þennan mikla vöxt er unnið að stækkun hafnarinnar sem gerir mögulegt að þjónusta skip allt að 200 metra löng í stað þess 130 metra hámarks sem nú er.

Fjárhagsáætlunin nú ber það því með sér að trúin á framtíðina er rík og tækifæri til sóknar. Meðvituð um söguna er þó samhliða reynt af fremsta megni að taka mið af tvísýnum efnahagshorfum samhliða því sem ráðast er í stórar framkvæmdir, mikilvægu viðhaldi sinnt af einurð og brugðist við þeim mörgu áskorunum sem fylgja fjölgun íbúa og sterkum vilja til að bæta þjónustu við íbúa.

Nýjar fréttir