4.3 C
Selfoss

Þekktu rauðu ljósin

Vinsælast

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi 2022

,,Þekktu rauðu ljósin – Soroptimistar hafna ofbeldi” er í ár slagorð íslenskra Soroptimista í hinu alþjóðlega 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum hefst 25. nóvember á degi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og því lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember. Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með marvíslegum hætti. Roðagylltur litur er einkenni átaksins, en hann á að tákna bjartari framtíð.

Soroptimistaklúbbur Suðurlands tekur fullan þátt í átakinu með sunnlenskum sveitarfélögum og ýmsum öðrum aðilum á Suðurlandi sem af þessu tilefni flagga appelsínugulum fánum á almannafæri.

Markmið 16 daga átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu og hafa Soroptimistar útbúið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbeldis sem flokka má í sex flokka: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellingar. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð. Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi. Soroptimistasystur munu þessa 16 daga vekja athygli meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning og birta greinar og fræðsluefni. Roðagyllti liturinn verður áberandi á byggingum víða um land og einnig á sendiráðum Íslands víða um heim.

Sunnlenskum Soroptimistasystrum er hugleikið af þessu tilefni að styrkja SIGURHÆÐIR – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi sem núna hafa verið starfræktar á Selfossi í rúmt eitt og hálft ár. Eins og í fyrra verða appelsínugulir blómvendir seldir til styrktar SIGURHÆÐUM á meðan á átakinu stendur. Einnig er hægt að leggja inn styrktarframlög á bnr. nr. 0325-1400047, kt. 620210-1370 eða nýta sér styrktarmöguleika inni á heimasíðunni sigurhaedir.is.

Nýjar fréttir