-0.9 C
Selfoss

Gríðarlega vel heppnað Kósýkvöld í Miðbæ Selfoss

Vinsælast

Fimmtudagskvöldið 10. nóvember sl. var í fyrsta sinn haldið Kósýkvöld í Miðbæ Selfoss þar sem verslanir og veitingastaðir buðu upp á tilboð og lengda opnunartíma og er skemmst frá því að segja að bæjarbúar hafi tekið vel í þetta uppátæki miðbæjarfólks.

Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Sigtún Þróunarfélagi segir að kvöldið hafi verið gríðarlega vel heppnað. „Við erum þakklát fyrir frábærar móttökur. Kósý stemning einkenndi miðbæinn og bærinn var fullur af fólki. Kósýkvöldið er komið til að vera en stefnan er að halda kvöld sem þetta tvisvar á ári, að hausti og vori. Fólk mætti greinilega til að gera góð kaup og taka forskot á aðventuna en opið var í verslunum og veitingastöðum til 22 og buðu allir upp á virkilega góða afslætti allan daginn auk þess sem verslanir fengu góða gesti í heimsókn.“

Mynd: Bernhard Kristinn.

 

Eitthvað fyrir allan aldur

Sirkus Íslands mætti með skemmtiatriði, eldgleypir sýndi listir sínar, töframaður rölti um og skemmti börnum og fullorðnum og Elísa Dagmar Selfyssingur söng falleg lög á Brúartorgi sem gerði stemninguna á torginu alveg einstaklega notalega og fallega. Stemningn lifði lengi frameftir en Tvíhöfði var með uppistand á Sviðinu og þar var uppselt og svo var svokallað söngkvöld (singalong) á Risinu þar sem var fullt hús.

Konungskaffi bauð upp á útisölu á Brúartorgi þar sem mátti fá ristaðar möndlur og heitt kakó. Messinn var líka með útisölu á súpu og heitum drykkjum. Veitingastaðir í Mjólkurbúinu voru svo með ýmis tilboð í gangi.

Mynd: Bernhard Kristinn.

„Það sem gerir svona kvöld einstakt er auðvitað fólkið sem mætir og nýtur matar, drykkjar og góðra stunda. Þetta er hluti af því að við viljum gera vel við heimamanninn sem hefur tekið miðbænum frábærlega. Það hefur verið markmið verkefnisins frá upphafi að hann sé byggður fyrir heimamanninn. Það var svo gaman að sjá fólk alls staðar að en það voru greinilega margir sem gerðu sér ferð úr borginni og nágrannabyggðum. Við erum þakklát fyrir kvöld sem þessi og hlökkum til að halda áfram að skapa góðar stundir í miðbænum okkar,“ segir Elísabet að lokum.

Random Image

Nýjar fréttir