8.4 C
Selfoss

Ótrúlegt hvað við erum fljót að gleyma sögu okkar og lifnaðarháttum

Vinsælast

Ragnheiður Gló Gylfadóttir er fædd og uppalin á Selfossi. Hún er með B.A. próf í mannfræði og M.A. gráðu í fornleifafræði, báðar frá Háskóla Íslands. Ragnheiður hefur síðastliðin ár unnið á Fornleifastofnun Íslands við margvíslegar fornleifarannsóknir um allt land.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er ekki að lesa eina ákveðna bók þessa stundina. Í starfi mínu þarf ég stanslaust að glugga í alls kyns bækur og fræðirit sem yfirleitt eru tengd svæðinu sem ég vinn á hverju sinni. Oftar en ekki eru það Sunnlenskar byggðir, Árbók hins íslenska fornleifafélags, bækur tengdar íslenskum þjóðlegum fróðleik og alls kyns æviminningar sem eru á skrifborðinu. Þessar vikurnar eru það helst bækurnar Undur yfir dundu, Mannvist og Æfisaga Jóns prófasts Steingrímssonar sem ég glugga í. Leitin að næstu bók til að lesa eða hlusta til dægrastyttingar stendur hins vegar yfir. Síðasta bók sem ég hlustaði á var mjög góð og hún er ekki alveg farin úr huganum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ætli ég sé ekki alæta á bækur og get lesið nánast allt. Bækurnar þurfa þó að halda at- hygli minni svo ég nenni að lesa eða hlusta á þær. Ég finn það fljótt hvort bækur vekja áhuga minn en hvað það er getur verið misjafnt. Það skemmir ekki fyrir ef bókin er vel skrifuð og per- sónusköpunin áhugaverð. Þessa dagana virðast skáldsögur sem byggja á raunverulegum at- burðum eða gerast á ákveðnum tímabilum helst höfða til mín. En ég á það einnig til að detta í góða ástarsögu eða glæpasögu. Það jafnast á við gott hámhorf.

Ertu alin upp við bóklestur?

Ég man ekki hvort að það var lesið mikið fyrir mig sem barn. Ég varð fljótt læs og las mikið sjálf. Ég var eflaust ekki mikið eldri en sex til sjö ára þegar ég fór að fara á bókasafnið. Fyrst voru það bækur með áhuga- verðum myndum sem vöktu áhuga minn og ég man eftir að hafa flett mörgum svoleiðis bókum. Sérstaklega man ég eftir bókunum Gunnhildur og Glói og Tröllabókinni en myndirnar í þeim eru mjög flottar. En upp- hálds bækurnar voru eftir Guð- rúnu Helgadóttur sem heita Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni.

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum.

Lestrarvenjur mínar hafa tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Sem barn og unglingur gat ég eytt heilu og hálfu dögunum með bók og kláraði til dæmis heilu höfundana og bókaflokkana. Ég las allar bækur sem voru til heima hjá foreldrum mínum ef ég man rétt og einnig heima hjá ömmu og afa. Þar var heill veggur með bókum sem ég las upp til agna. Síðustu tuttugu ár eða svo hef ég haft lítinn tíma til lesturs og sakna þess oft að geta ekki gleymt mér í góðri bók. En með tilkomu Storytel hefur þetta sem betur fer breyst. Ég nota tímann sem fer í akstur yfirleitt til að hlusta á bækur, hlusta líka við tiltekt á heimilinu og í göngutúrum.

Einhverjir uppáhalds höfundar?

Ég get ekki sagt það. Þetta fer allt eftir því hvað vekur áhuga minn hverju sinni. Ég er til dæmis nýbúin að uppgötva rithöfundinn Kristin Hannah og hlutstaði á tvær bækur hennar á stuttum tíma. Kannski á ég mér meira uppáhalds bækur frekar en höfunda og allt fer þetta eftir tímabilum eða því sem vekur áhuga minn. Uppáhaldsbækurnar mína þessi misserin eru Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shiffer og Annie Barrows, Allt hold er hey eftir Þorgrím Þráinsson, Náðarstund eftir Hönnu Kent, The Great Alone og The Four Winds eftir Kristin Hannah. Mæli með að allir lesi eitthvað af þessum bókum.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, það hefur komið fyrir. Eins hef ég keyrt lengri leiðir eða setið úti í bíl, bara til að hlusta lengur. Það er viss söknuður sem á sér stað þegar lokið er við bækur sem höfða svona sterkt til manns. Hvenær svona bók kemur næst veit maður ekki.

En að lokum Ragnheiður, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég myndi líklega skifa söguleg- ar skáldsögur eða fræðibækur. Í starfi mínu sé ég sífellt hvað við vitum í rauninni lítið um sögu okkar og hvernig lífið var hér- lendis. Það er í rauninni ótrúlegt hvað við erum fljót að gleyma sögu okkar og lifnaðarháttum.

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir