13.4 C
Selfoss

Birkifræbankinn safnar fræi

Vinsælast

Landsverkefnið Söfnum og sáum birkifræi hvetur landsmenn til að skila nú á söfnunarstöðvar því fræi sem safnast hefur. Nokkuð vantar upp á að markmið ársins hafi náðst. Enn er líka nóg af fræi á trjánum og fram undan góðir veðurdagar til að safna.

Nú er fræsöfnunartíminn í hámarki og eru landsmenn allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að fara út að tína meðan tíðin er góð. Mest er um fræ á norður- og austurhluta landsins þetta árið og þótt minna sé í öðrum landshlutum ætti það ekki að fæla fólk frá að tína því víðast hvar má finna gjöful tré til að tína af. Fræið helst gjarnan á trjánum langt fram á vetur.

Öllum er mögulegt að verða fræsafnarar og frægjafar

Verkefnið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Markið er sett á að auka þekju birkiskóga og birkikjarrs úr 1,5% landsins í 5% áður en áratugurinn er úti. Það er markmið Íslands í svokallaðri Bonn-áskorun Evrópulanda um aukna skógarþekju í þágu manns og náttúru.

Tökum þátt í að safna birkifræi í haust og annað hvort sáum því sjálf í valin svæði eða skilum því í sérstaka merkta kassa í Bónusverslunum eða Olísstöðvum um allt land. Deilum myndum og frásögnum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #birkifræ og notum @birkifræ til að tengja innleggin samfélagsmiðlum fræsöfnunarinnar.

Nýjar fréttir