-0.5 C
Selfoss

Mikil spenna fyrir nýjum miðbæ á Selfossi

Vinsælast

Í kvöld var boðað til íbúafundar á Sviðinu, glæsilegum nýjum tónleikastað við Brúartorg á Selfossi. Yfir 300 manns mættu á fundinn og fylltu ekki bara allt Sviðið heldur báðar hæðir Miðbars að auki. Þarna var næsti áfangi í byggingu miðbæjar Selfoss kynntur af Sigurði Einarssyni arkitekt og Leó Árnasyni, stjórnarformanni Sigtún Þróunarfélags. Valdimar Bragason stýrði fundinum þar sem íbúum gafst færi á að sjá þrívíddarteiknaðar myndir af þeim 40 húsum sem koma til með að fylla annan áfanga miðbæjarins, verði tillagan samþykkt. Mögulega gæti komið til íbúakosningar um þessi áform og yrði það þá líklega eftir næstu áramót.

Húsin sem falla undir áformin, eru endurbyggingar af sögulegum húsum víðsvegar af landinu, þar á meðal gamla símstöðin á Selfossi, Sýslumannshúsið í Stykkishólmi, Fell á Ísafirði, gamla Selfossbíó, Evanger verksmiðjan á Siglufirði, Málmeyjarhús í Skagafirði, Konsúlanthúsið í Vestmannaeyjum, Syndikatið í Reykjavík, hinn upprunalegi Tryggvaskáli og Addabúð, sem kemur til með að hýsa pylsuvagn í rekstri Ingunnar í Pylsuvagninum á einu af nokkrum torgum sem koma til með að prýða seinni áfangann af tveimur í byggingu nýja miðbæjarins.

Fundargestum gafst færi á að spyrja þá Sigurð og Leó spurninga í lok fundarins og virtust allir sem til máls tóku mjög bjartsýnir og jákvæðir í garð framkvæmdarinnar. Áætlaður kostnaður er á bilinu 12-14 milljarðar, fjármögnun liggur fyrir og stefnt er á að hefja framkvæmdir á vordögum, reiknað er með að framkvæmdatíminn verði 36 mánuðir.

Nýjar fréttir