1.7 C
Selfoss

Nýtt deiliskipulag fyrir íbúðar- og landbúnarðarlóðir í landi Minni-Borgar

Vinsælast

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur samþykkt að senda til skipulagsnefndar nýtt deiliskipulag fyrir íbúðar- og landbúnaðarlóðir á hluta af golfvelli í landi Minni-Borgar. Mikil eftirspurn er eftir lóðum í sveitarfélaginu og öllum skipulögðum lóðum hefur verið úthlutað.

Á nýja skipulagssvæðinu sem hefur fengið nafnið Borgarteigur verða 12 íbúðalóðir og hesthúsahverfi. Það svæði sem eftir er verður áfram skipulagt sem útivistar- og afþreyingarsvæði.

Markmið með deiliskipulagi landbúnaðarlands við Minni-Borg er að stuðla að fjölbreyttu byggðamynstri þar sem íbúum er gefinn valkostur um búsetuhætti og að geta búið í nálægð við náttúru og dýralíf.  Með gerð skipulagsins er stutt við megin stefnu sveitarstjórnar um að skapa góð skilyrði fyrir mannlíf og atvinnu til framtíðar og gera búsetu á svæðinu eftirsóknarverða.

Það land sem deiliskipulagið nær til er um 27 hektarar og er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í nýju aðalskipulagi. Samkvæmt aðalskipulagi eru þetta svæði með rúmum byggingarheimildum þar sem heimilt er að byggja litlar landspildur til fastrar búsetu, heimilt er að vera með landbúnaðar-starfsemi og minniháttar atvinnustarfsemi sem er jafnvel ótengd landbúnaði og hæfir stærð hverrar lóðar. Íbúðarlóðir eru á stærðarbilinu 1-1,4 hektarar.

Einnig verða í boði sjö hesthúsalóðir á svæðinu ásamt möguleika á lóð fyrir reiðhöll og reiðvöll.

Verkefnahópur hefur fundað með Vegagerðinni um undirgöng undir Biskupstungnabraut þannig að góð og örugg tenging myndist fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi frá Sólheimavegi á Borg. Vegagerðin hefur tekið jákvætt í það verkefni og skýrist það bráðlega hvenær sú framkvæmd kemst á áætlun.

Áætlað er að vinna við vegtengingar og lagnir á svæðinu hefjist á næsta ári.

Nýjar fréttir