0.6 C
Selfoss

Sameiginleg fjölskyldu- og frístundamiðstöð er ekki bara draumur

Vinsælast

Dagana 7.-11. september síðastliðinn fór góður hópur starfsfólks frá fjölskyldusviði Árborgar í fræðslu- og kynnisferð til Danmerkur. Hópurinn heimsótti sveitarfélögin Herning og Ikast-Brande á Jótlandi. Í Herning fékk hópurinn m.a. kynningu á nýlegu samstarfslíkani í skóla- og velferðarmálum, nýrri nálgun er varðar fósturfjölskyldur og ýmsum úrræðum sem eru í boði fyrir börn og barnafjölskyldur. Í Ikast-Brande fékk hópurinn m.a. kynningu á stjórnssýslunni og megináherslum sveitarfélagsins í málefnum barna og ungmenna en þar er meðal annars lögð áhersla á snemmtækan stuðning og farsæld barna.

Í Brande fóru kynningarnar fram í Artium skole sem er einn af 11 grunnskólum sveitarfélagsins. Skólinn er tiltölulega nýr og var hann byggður bæði sem skóli og menningarhús allra íbúa. Það var áhugavert að sjá hvernig þetta tvennt er fléttað saman í sömu byggingu þar sem fjölbreytt starfsemi er frá morgni til kvölds.

Skólalóðin í Brande.

Þarna má finna frístundaþjónustu, almenningsbókasafn, samkomusal, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, lögreglu og kvöldskóla svo eitthvað sé nefnt. Skólinn er vel tækjum búinn, meðal annars til list- og verkgreinakennslu, þá auðveldar þessi góða aðstaða starfsfólki að skipuleggja fjölbreytta kennsluhætti og nemendamiðað nám.

„Það er gott að láta sig dreyma og draumur um sameiginlega fjölskyldu- og frístundamiðstöð í Árborg þar sem börn og fjölskyldur geta sótt alla helstu þjónustu er ekki bara draumur heldur spennandi framtíðarsýn og raunhæfur valkostur að mati starfsfólks fjölskyldusviðs,“ segir í tilkynningu frá starfsfólki sveitarfélagsins.

Nýjar fréttir