7.3 C
Selfoss

Ekki lengur Ívar hlújárn

Vinsælast

Ívar Sæland, ljósmyndari og fjölskyldufaðir sem nýlega flutti til Hveragerðis en fæddur er og uppalinn í Reykholti í Bláskógabyggð, náði sér í nafnbótina járnkarl þegar hann lauk 3,8 km sjósundi, 180 km hjólreiðum og 42 km hlaupi í hinu forna sjávarþorpi Cervia á Ítalíu nú í septembermánuði.

Vegferð Ívars að nafnbótinni hófst fyrir 33 árum, þegar hann var sex ára gamall og frændi hans uppnefndi hann Ívar hlújárn. „Þarna horfði ég á frænda minn með stjörnur í augum enda var hann 19 ára gamall mótorhjólatöffari sem seinna varð svo sjálfur mikill hjólreiðamaður, hann Sigurður Gylfason. Ég vissi svosem ekki hvað hlújárn þýddi á þessum tíma en ég vissi það að þetta var ekki gott uppnefni. Seinna var mér sagt að hlújárn þýddi annaðhvort eitthvað verkfæri eða lélegt járn, já þessi flotti frændi minn kallaði mig hreinlega aumingja þegar ég var sex ára gamall,“ segir Ívar.

Hvað í andskotanum er ég búinn að koma mér út í?

„Það var svo ekki fyrr en ég kynntist tengdaföður mínum honum Trausta Jarli fyrir um sex árum sem ég áttaði mig á því hvernig ég myndi losna við hlújárnið og verða að alvöru járnkarli, þá var hann búinn að fara í allmarga járnkarla sjálfur, sem og Guðjón Karl sonur hans. Ég hreifst strax af þessu brjálæði í þeim en þurfti nokkur ár í að sannfæra sjálfan mig um að ég gæti þetta sjálfur. Haustið 2021 þegar þeir feðgar voru að tala um þeirra síðustu járnkarlakeppnir yfir kvöldverðaborðið og plana þá næstu, hópferð til Ítalíu með Ægir3(Þríþrautafélagi Reykjavíkur) og keppa þar, þá varð ég eitthvað æstur og sagði við þá að ég myndi fara og keppa með þeim í heilum járnkarli. Ég vissi strax að það yrði ekki aftur snúið, enda stend ég við það sem ég segi. Þær urðu nokkrar andvökunæturnar eftir þetta þar sem ég hugsaði um hvað í andskotanum ég væri búinn að koma mér út í.“

Nær dauður úr kulda í Laugarvatni

Í kjölfar afdrifaríka kvöldverðarins skráði Ívar sig strax í fjaraðild hjá Ægir3 sem veitir fulla aðild að félaginu án mætinga á æfingar sem hentaði einkar vel þar sem Ívar var búsettur í Reykholti ásamt fjölskyldu sinni. „Æfingarnar fóru að streyma til mín í gegnum Training Peaks og reyndi ég mitt besta að fara eftir þeim. Ég reyndi að leggja áherslu á sund og hjól en það voru mínir veiku hlekkir. Það var hjólað yfir Netflix á kvöldin við mismikla hrifningu frá konunni. Veturinn leið og ég náði að æfa mig nokkuð vel en þegar leið á vorið fór vinnan að aukast mikið ásamt flutningum til Hveragerðis og ég setti æfingarnar ekki á jafn hán stall eftir það en náði samt alltaf að koma einhverjum æfingum að. Sumarið kom og ég tók þátt í Kópavogsþrautinni, Hafnarfjarðarþrautinni og svo Ólympískri á Laugarvatni (þar sem sundið nær drap mig úr kulda en ég þoli illa kulda) reyndar ætlaði ég að fara í hálfan járnkarl þar en það var hætt við hann. Ég tók einnig þátt í öðrum hlaupakeppnum í sumar svo sem Hengil Ultra 53km, Laugaveginum, Fimmvörðuhálshlaupinu og svo Reykjavíkurmaraþoni.“

Þann 13. september síðastliðinn lá leið Ívars loks til Ítalíu. „Ég var heldur betur kominn með mikinn kvíða fyrir keppninni, yfir því hvort ég hreinlega gæti þetta, þá sérstaklega að synda 3.8 km í sjó með þúsundum annara keppenda að synda yfir mig. En markmiðið hjá mér var einfalt; klára keppnina innan tímamarka en ekki á einhverjum sérstökum tíma,“ segir Ívar.

Ráð þjálfarans skiptu sköpum

Á keppnisdegi var Ívar ræstur rétt fyrir klukkan 8 að morgni, en þá þegar voru um 2000 keppendur byrjaðir að synda. Hann nærði sig vel áður en hann hélt af stað, klæddur í blautbúning á leið í 3.8km sjósund í 21 gráðu heitu vatni (fari hiti vatnsins yfir 24.6 gráður mega keppendur ekki klæðast blautbúningum). „Þegar ég hafði synt um 100 metra fékk ég panik kast en hugsaði til þess sem Geir Ómars hafði sagt við mig fyrir keppni: „Ívar þegar þú færð panik kastið, taktu þá nokkur mjög létt bringusundstök og reyndu svo aftur, þá kemur þetta hægt og rólega.“ Ég fór að hans ráðum og eftir sirka 400m var ég orðinn mjög brattur og fannst þetta bara gaman. Ég synti svona sirka 75% skriðsund og 25% bringusund. Sundið gekk heilt yfir mjög vel og leið mér vel þegar ég hljóp upp á ströndina eftir að hafa synt á 1:29.“

 

Alla keppnina átti Ívar erfitt með að halda í sér vökva, en drakk þá þeim mun meira og borðaði gel til að halda sér góðum. Hann tók sér góðan tíma í skiptin á milli sunds og hjóls (T1), enda lá honum að sögn ekki lífið á. „Þar hitti ég ofurpepparann Ísold Norðfjörð skælbrosandi og Geir Ómars fyrir utan girðinguna að hvetja okkur áfram. Ég lagði nokkuð rólega af stað, enda vildi ég ekki sprengja mig á þessum 180 km. Brautin var virkilega flöt og hélt ég 30km hraða. Eftir sirka 63km kemur erfitt klifur en ég náði að klífa það sómasamlega án þess að sprengja mig. Seinni hringurinn gekk vel þangað til að ég kláraði brekkuna aftur, en þá var ég orðinn vel þreyttur og verkjaði mjög mikið í jörkunum á báðum fótum. Það fór sem fór að síðustu 45 km voru hreint helvíti og dólaði ég þá mikið til. Þegar það voru sirka 2km í T2 (skipti á milli hjóls og hlaups) var ég rauninni búinn að gefast upp og ætlaði bara að klára hjólið og hætta, enda gríðarlega verkjaður í jörkunum, en þá hjólaði Ísold framhjá mér og peppaði mig allsvakalega aftur upp. Hjólatíminn endaði á 6:35.“

„Ívar, you are an Ironman“

„Ég kom inn í T2 með skjálfandi fætur en ákvað samt að reyna við hlaupið. Ég fór í hlaupaskóna, lagði af stað og mér til mikillar gleði þá fann ég ekkert fyrir eymslunum þegar ég fór að hlaupa. Fyrsti hringurinn gekk mjög vel (alltof vel) ég fór of hratt og ég vissi það vel en ég gat ekki hægt á mér. Fyrsta hringinn fór ég á 67 mín., á hring 2 byrjaði ég að labba og fór hann á 95 mín., á þriðja hring náði ég að skokka nánast allt en var mjög hægur og þann hring fór ég á 78 mín. Fjórða hringinn gekk ég allan, skrokkurinn var alveg búinn og ég vissi að núna væri þetta bara spurning um að koma mér í mark, hringur 4 tók mig 110 mín. Það sem gerði hlaupið skemmtilegt var að maður var alltaf að hitta Íslendinga sem voru annaðhvort að hlaupa eða hvetja á hliðarlínunni og gerði það mjög mikið fyrir mig. Þegar ég kom að rauða dreglinum kom þessi gríðarlegi kraftur í mig og ég hljóp í gegnum markið öskrandi og barði í brjóstkassann á mér þegar ég heyrði þessa frægu setningu sem alla dreymir um: „Ívar, you are an Ironman“. Trausti og Dísa tengdaforeldrar tóku á móti mér og brosið fór ekki af mér, ég náði að klára þessa þolraun. Lokatíminn var 14:30:25 og markmiðinu náð.“

Ívar var í ótrúlega góðu líkamlegu standi eftir keppnina en fann að sjálfsögðu fyrir harðsperrum. „Hvort ég fari aftur í heilan járnkarl kemur í ljós seinna, en það verður ekki á næstunni. Það er erfitt að æfa með ungt barn á heimilinu og hef ég ekki nægan tíma í svona mikið æfingarálag en þríþraut mun ég stunda áfram á Íslandi og það með Ægir3. “

Takk Siggi

„Að lokum ætla ég að þakka frænda mínum honum Sigurði Gylfasyni að hafa uppnefnt mig hlújárn því ef ekki væri fyrir hann væri ég líklega ekki búinn með járnkarl og ætla ég ég að gefa honum viðurnefnið til baka og mun hér eftir kalla hann Sigurð eða Sigga hlújárn (Siggi það er bara ein leið til að ná þessu uppnefni af þér),“ segir Ívar að lokum.

Nýjar fréttir