2.3 C
Selfoss

Byrjaði með mátunarklefa á baðherberginu heima

Vinsælast

Þann 10. september sl. var haldið upp á 10 ára afmæli tískuverslunarinnar Cleopötru í Miðgarði á Selfossi en þau Elínborg W. Guðmundsdóttir og Björn Daði Björnsson opnuðu verslunina árið 2012.

„Ég var að verða 24 ára gömul þegar við opnuðum Cleopötru tískuverslun í Miðgarði. Björn Daði rekur, ásamt bróður sínum Kjartani, Rakarastofu Björns og Kjartans sem er einnig í Miðgarði. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fatnaði og tísku og hafði unnið við þjónustustörf í mörg ár. Það var 6.janúar 2012 sem ég var stödd á Snyrtistofunni Evu í Miðgarði og sá að það var laust verslunarrými á staðnum. Ég var búin að hafa þessa hugmynd í kollinum í smá tíma. Til að mynda var ég byrjuð að flytja inn fatnað sjálf og selja í netsölu og heiman frá mér ári áður. Ég fékk stundum stelpur heim til mín sem vildu máta og þá var það bara inn á baðherbergi heima,“ segir Elínborg létt í bragði.

Þau sátu sannarlega ekki auðum höndum næsta mánuðinn en þann 23.febrúar árið 2012 opnuðu þau hjóninCleopötru Tískuverslun í Miðgarði. „Við byrjuðum í frekar litlu plássi baka til í húsinu og færðum svo verslunina sumarið 2016 í stærra og betra pláss í sama húsnæði, með gluggann út á Austurveg. Björn Daði smíðaði nánast allar innréttingarnar í verslunina sjálfur og gerðum við mest sjálf. Ég myndi segja að þessi flutningur hafi verið okkur til farsældar, við gátum aukið vöruúrvalið töluvert og tókum inn nokkur gæða fatamerki frá Danmörku t.d en í upphafi vorum við einungis að flytja inn vörur frá Bretlandi og Bandaríkjunum,“ segir Elínborg.

Persónuleg og heimilisleg þjónusta

Í upphafi einblíndi Elínborg mest á fatnað fyrir sinn aldur og yngri stelpur. „Þannig að kúnnahópurinn var mest í yngri kantinum til að byrja með. Konur á öllum aldri urðu svo mjög áhugasamar um búðina og fljótlega var eftirspurnin mikil eftir fatnaði sem myndi henta fleiri aldurshópum. Í dag er svo skemmtilegt að segja frá því að kúnnarnir okkar eru nánast á öllum aldri. Sjálf er ég frekar gömul sál og hef mikinn áhuga á fólki og finnst gaman að spjalla og mynda tengsl við kúnnann. Mér þykir alveg ótrúlega vænt um alla kúnnana mína og ég held að það sé líka ástæðan fyrir því að búðin hafi gengið í gegnum árin, af því að þetta verður svo persónulegt og heimilislegt. Margir af okkar viðskiptavinum hafa verslað hjá okkur frá því að við opnuðumbúðina og sumir koma jafnvel eingöngu til að spjalla sem er líka svo skemmtilegt. Við erum líka svo gríðarlega heppin með starfsfólkið okkar sem deilir þessari hugsjón með okkur“.

Það má ekki gleyma að hafa gaman

Cleopatra heldur einnig úti netversluninni cleo.is og þaðan fara daglegar sendingar um allt land með póstinum. Undanfarin ár hafa þau bætt vöruúrvalið töluvert en þar má sem dæmi nefna norska skart merkið A&C OSLO, dönsk lúxus ilmvötn og ilmkertin vinsælu frá Voluspa. Aðspurð að því hver lykillinn að velgengni fyrirtækisins sé svarar Elínborg: „Ég held að lykillinn sé að hafa trú á því sem maður er að gera, leggja allt í það og að gleyma ekki að hafa gaman að þessu öllu. Vinnan er ekkert endilega búin kl. 18 þegar verslunin lokar á daginn heldur kemur hún yfirleitt með manni heim líka því að það þarf að sinna mörgusvo þetta gangi allt upp. Því verður áhuginn að vera gríðarlegur svo að allt smelli og áhuginn hjá mér á þessu öllu saman hefur bara aukist með árunum. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt með hverjum deginum í eigin rekstri og hlakka ég til næstu ára og að sjá Cleopötru blómstra enn meira“.

Nýjar fréttir