9.5 C
Selfoss

Starfsemi Félags eldri borgara Selfossi

Vinsælast

Um þessar mundir er starf Félags eldri borgara Selfossi, FEBSEL, að fara í gang og fólk farið að hittast í Grænumörk og í nýju Selfosshöllinni. Stjórnin hefur frá því byrjun ágúst unnið við að koma saman stundaskrá sem verður kynnt í Opnu húsi í Mörk kl. 14:45 fimmtudaginn 22. september nk. Búast má við að í boði verði hátt í 30 viðburðir fimm daga vikunnar. Flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Búast má við að einhverjir muni standa frammi fyrir því að þurfa að velja á milli viðburða sem verða á sama tíma. Sem dæmi má taka að margir hafa sótt styrktaræfingarnar í Selfosshöllinni og orðið að velja á milli þeirra og annara viðburða. Reynt hefur verið af fremsta megni að raða viðburðum þannig niður að þeir rekist ekki á annað en í sumum tilvikum hefur það ekki gengið af ýmsum ástæðum. Eins og viðbúið er detta einhverjir atburðir út en aðrir nýir koma inn. Það sem er nýtt er t.d. kínaskák, pílukast og tafl. Í fyrra var byrjað með leiklestur, línudans og dans auk þess handavinnuverkefni sem ber heitið Pappír pappír og felst í því að bleyta pappír og gera úr honum alls konar listmuni. Auk alls þess sem fest er í stundaskrá er stefnt á árshátíð, aðventuhátíð og leikhúsferðir o.fl. 

Stjórn FEBSEL er þannig skipuð frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 24. mars 2022: Þorgrímur Óli Sigurðsson formaður, Ólafía Ingólfsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Guðrún Þóranna Jónsdóttir ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Ólafur Sigurðsson og Valdimar Bragason varamenn. Stjórnin hefur látið gera barmmerki af hinu fallega einkennismerki félagsins. Merkið verður opinberað og afhent þegar stundaskráin verður kynnt í Opnu húsi.

Þorgrímur Óli Sigurðsson,

formaður Félags eldri borgara Selfossi.

Nýjar fréttir