1.1 C
Selfoss

Heimatilbúnar sprengjur valda usla á Selfossi

Vinsælast

Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi hafa þeim borist tilkynningar um sprengingar á Selfossi undanfarna daga. Leifar af sprengibúnaði bera þess merki að um heimatilbúna sprengjur er að ræða og er meðal annars notast við ætandi efni ásamt öðrum efnum við tilbúning búnaðarins. Efnunum er blandað saman í lokuð plastílát, s.s. gosflöskur og við efnahvörf sem verða, myndast mikið magn af gasi sem veldur sprengingu.

Þessi efni og gasið sem myndast eru hættuleg fyrir þann sem útbýr sprengjuna og þá sem eru í nágrenni við búnaðinn þegar sprengingin verður. Þá eru þekkt dæmi um að kraftur af samskonar sprengjum getur og hefur laskað hendur einstaklinga ef þær springa í höndum þeirra. Þá þarf heldur ekki að fjölyrða um skaðsemi þess að ætandi efni lendi á húð og jafnvel í andlit og augu viðkomandi.

Vegna þessa biðlar lögreglan til foreldra að fylgjast með hvort börn þeirra séu að höndla með slík efni og ræði við þau um mögulega skaðsemi heimatilbúinna sprengja. Þá óskar lögreglan eftir öllum þeim upplýsingum sem almenningur kann að búa yfir í tengslum við sprengingarnar eða háværa hvelli sem kunna að hafa heyrst síðastliðna daga. Hægt er að hafa samband við Lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2000 á dagvinnutíma eða með því að senda tölvupóst á netfangið sudurland@logreglan.is.

Ef fólk telur sig finna órofnar plastflöskur sem bera þess merki um að í þeim sé torkennileg efni skal ekki hreyfa við þeim og hafa beint samband við 1-1-2 og tilkynna um slíkt til lögreglu.

Nýjar fréttir