1.7 C
Selfoss

Landbúnaðarháskóli Íslands fær margra milljóna styrk

Vinsælast

Landbúnaðarháskóli Íslands og sjö aðrir samstarfsháskólar í Evrópu hlutu nýverið styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins að upphæð 6,83 milljónir evrur eða að jafngildi um 960 milljónir íslenskra króna til samstarfsnetsins UNIGreen (The Green European University). Hinir háskólarnir eru Háskólinn í Almeria á Spáni sem stýrir verkefninu, Landbúnaðarháskólinn í Plovdiv í Búlgaríu, Tækniháskólinn í Coimbra í Portúgal, Paris Sup’Biotech í Frakklandi, Háskólinn í Modena og Reggio Emilia á Ítalíu, Háskólinn í Varsjá í Póllandi og Háskólinn í Liege í Belgíu.

Undirbúningur að verkefnisumsókninni hefur staðið yfir í nokkuð langan tíma og í febrúar sl. komu fulltrúar allra háskólanna saman í Brussel þar sem undirritaður var samningur milli háskólanna um aukið samstarf á sviði landbúnaðar, lífvísinda og líftækni.

Evrópsk háskólanet

Frá því á Gautataborgarfundinum 2017 hefur Evrópusambandið lagt áherslu á að efla samstarf æðri menntastofnana í Evrópu. Evrópskum háskólanetum er ætlað að tengja saman háskóla í ólíkum löndum álfunnar og efla samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir fyrir kerfisbundið og langvarandi samstarf sem nær bæði þvert á landamæri og námsgreinar. Alls var 272 milljónum evra veitt til háskólanetanna að þessu sinni og hefur upphæðin aldrei verið hærri. Netin ná til 340 háskóla í 31 landi. Áður hefur Háskóli Íslands hlotið styrk vegna Aurora Alliance samstarfsnetsins. Landbúnaðarháskóli Íslands er því annar íslenski háskólinn sem sameinast evrópska háskólanetinu.

Efla á menntun, rannsóknir, nýsköpun, gæðamál og miðlun þekkingar

Þátttaka í samstarfsneti eykur möguleikana á fjármögnun alþjóðlegra rannsókna- og nýsköpunarverkefna og að koma upp og samnýta aðstöðu. Samhliða á einnig að efla samstarf um nám og kennslu. Þannig opnast nýir möguleikar fyrir kennara og nemendur háskólanna sem fá aukið úrval námskeiða, með aðstoð fjartækni þegar því verður við komið. Samstarfið leggur einnig áherslu á að auka gæði háskólastarfsins og styðja við stjórnsýslu háskólanna. Þá mun UNIGreen stuðla að auknu samstarfi við atvinnulífið meðal annars með starfsþjálfun, nýjum þverfaglegum verkefnum og áherslu á samlegðaráhrif og þekkingaryfirfærslu.

Erasmus+ mun veita rúmlega milljarði evra til samstarfsneta háskóla á tímabilinu 2021-2027 og auk þess mun fjármagn frá Horizon Europe renna til rannsóknarsamstarfs innan netanna. Samstarfsháskólar UNIGreen hafa nú þegar hlotið annan verkefnsstyrk frá Erasmus+ áætluninni til verkefnisins U-Green (University Cooperation for promoting GREEN transition and sustainable practices in education and training), en þar er m.a. unnið að innleiðingu grænni skrefa, og þróun aðferða og staðla fyrir umhverfisvænni starfsemi.

Í byrjun september kemur rektor Háskólans í Almeria, ásamt aðstoðarrektor og sérfræðingi í ylrækt til fundar í Landbúnaðarháskóla Íslands. Ræða á UNIGreen verkefnið, tækifærin framundan og leggja grunninn að nýjum verkefnum. Það eru því spennandi tímar framundan hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ragnheiður I Þórarinsdóttir rektor og Christian Schultze rannsókna- og alþjóðafulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands

Nýjar fréttir