13.4 C
Selfoss

Smiðjuþræðir teygja anga sína til Louvre

 

Alda Rose Cartwright, verkefnastjóri fræðslu á Listasafni Árnesinga

Nú fer óðum að styttast í að Smiðjuþræðir Listasafns Árnesinga hefjist að nýju. Smiðjuþræðir er áframhaldandi verkefni á vegum Listasafns Árnesinga sem hófst árið 2020 og hefur vaxið með ári hverju. Verkefnið snýst um að keyra út seríu af fjölbreyttum og færanlegum listasmiðjum sem starfandi listamenn úr ólíkum listgreinum leiðbeina, til allra skóla í Árnessýslu.

“Markmiðið er að efla tengsl safnsins við nærsamfélagið og veita börnum og unglingum í sýslunni tækifæri á að taka þátt í fjölbreyttu menningarstarfi á óháð búsetu. Þetta árið erum við að vinna með 6 frábærum listamönnum og er þar á meðal Thomasine Giesecke kennari frá hinu heimsfræga Louvre safni sem mun koma í haust og leiðbeina smiðjum. Auk hennar eru Myrra Rós Þrastardóttir handverks- og tónlistarkona, Ásta Guðmundsdóttir listakona og fatahönnuður, tónlistarmaðurinn og þjóðfræðingurinn Eyjólfur Eyjólfsson, Yara Zein listakona, og lista- og tónlistarkonan Lóa Hjálmtýsdóttir sem flestir ættu að þekkja.

Flestir listamannana eru búsettir hér í Árnessýslu og við erum í sjöunda himni yfir því að fá að starfa með þessum fjölhæfu listamönnum í þessu verkefni. Smiðjurnar að þessu sinni eru af ólíkum toga og má nefna Fab lab langspil þar sem nemendur smíða langspil með notkun fab lab og læra að spila einföld lög á hljóðfærið, hönnun úr uppnýttum efnivið þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi, prent- og bókverkasmiðja þar sem markmiðið er að brúa bil og sameina eiginleika rit- og myndlistar, textíl smiðja þar sem nemendur sjá nýja möguleika í því “gamla” og “ónýta” með því að endurnýta flíkur á skapandi hátt, stop-motion hreyfimyndagerð og arabísk skrautskrift þar sem nemendur fá einnig að kynnast ólíkum menningarheimum í gegnum myndlist. Smiðjurnar eru hver annarri betri og veita nemendum innsýn í störf listamanna og þann fjölbreytileika sem listaheimurinn er.

Nú þegar er farið að bóka smiðjurnar í skólana svo að við erum bjartsýn á að það verði góð þátttaka þetta skólaárið. Við erum afar þakklát fyrir jákvætt viðhorf frá skólunum og að vel sé tekið á móti okkur með þetta verkefni sem fékk m.a. hæsta styrk frá Barnamenningarsjóði í ár. Við munum einnig bjóða upp á smiðjurnar á safninu fyrir þá sem hafa áhuga og hægt er að fylgjast með því á samfélagsmiðlum eða heimasíðunni okkar www.listasafnarnesinga.is,” segir Alda Rose Cartwright, verkefnastjóri fræðslu á Listasafni Árnesinga.

Nýjar fréttir