10 C
Selfoss

Eggert Þór ráðinn forstjóri Landeldis hf.

Vinsælast

Stjórn Landeldis hf. hefur ráðið Eggert Þór Kristófersson í starf forstjóra félagsins en hann hóf störf 17. ágúst síðastliðinn.

Eggert er fæddur árið 1970. Á árunum 1995 til 2008 starfaði Eggert hjá Íslandsbanka og Glitni þ.m.t. sem framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis banka á Íslandi og í Finnlandi. Eggert tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs N1 árið 2011 og tók við starfi forstjóra N1 í febrúar 2015, sem síðar varð Festi hf., ásamt að hafa verið stjórnarformaður N1, Krónunnar, ELKO, Festi Fasteigna, Bakkans Vöruhótels, Malik Supply A/S og Nordic Marine Oil í Danmörku. Hann er með Cand. oecon. gráðu á endurskoðunarsviði í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er jafnframt löggiltur verðbréfamiðlari.

Eggert Þór tekur við af Halldóri Ólafi Halldórssyni, stjórnarformanni Landeldis, sem sinnt hefur starfi framkvæmdastjóra samhliða stjórnarformennsku.

Eggert Þór Kristófersson, verðandi forstjóri Landeldis:

„Ég er þakklátur fyrir tækifærið til að taka þátt í uppbyggingu á fiskeldi á landi. Félagið hefur góðan og reynslumikinn hóp starfsfólks og stjórnenda sem hafa mikla þekkingu af fiskeldi og ég hlakka til að starfa með því og gera Landeldi enn betra fyrirtæki sem mun framleiða hágæða vöru til útflutnings með jákvæðum umhverfisáhrifum.“

Halldór Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landeldis:

„Eggert Þór er öflugur leiðtogi með mikla reynslu, hefur metnað fyrir umhverfismálum og hefur átt farsælan feril sem stjórnandi í vaxtar- og rekstrarfyrirtækjum. Ráðning hans sýnir að Landeldi ætlar sér stóra hluti í uppbyggingu á laxeldi á landi. Landeldi tekur virkan þátt í þeim umbreytingum sem eru að eiga sér stað í átt að umhverfisvænni matvælaframleiðslu um heim allan. Félagið hefur tryggt sér allar meginstoðir sem þarf til að byggja upp landeldi á laxi á komandi misserum og árum á stórum skala.

Um Landeldi:

Laxeldismarkaðurinn telur um 3 milljónir tonna og undir 1% er alið á landi. Allar helstu spár styðja að laxaframleiðsla nær ekki að halda í við mikla eftirspurn eftir laxi og því er um einstakt tækifæri að ræða fyrir Landeldi að byggja upp öfluga starfsemi sem mun verða mikilvæg útflutningsgrein á komandi áratug. Landeldi hf. var stofnað árið 2017. Sveitarfélagið Ölfus hefur stutt við félagið frá upphafi og aðstæður í Ölfusi er einkar hagstæðar fyrir laxeldi á landi. Félagið stefnir á að vaxa jafnt og þétt í 33.500 tonna ársframleiðslu árið 2028. Félagið rekur seiðaeldisstöð í Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn á samtals yfir 33 ha svæði og hefur í dag öll tilskilin leyfi til að ala lax á landi. Félagið hefur borað eftir um 2.000 l/sek af jarðsjó og tekið fjóra sjótanka í notkun og verða þeir orðnir 14 talsins um næstu áramót. Lífmassi um næstu áramót er áætlaður um 500 tonn. Félagið er nú með um 450 þúsund laxa í áframeldi og um 1,6 milljón í seiðaeldi. Um 25 manns vinna hjá félaginu og um 50 starfsmenn hjá undirverktökum. Landeldi leggur metnað sinn í nýtingu úrgangs til áburðarframleiðslu og hefur þess efnis nýlega skrifað undir viljayfirlýsingu við Bændasamtök Íslands og kaupsamning á tæknibúnaði frá Blue Ocean Technology. Stoðir hf., Framherji ehf. og Fylla ehf. eru stærstu hluthafar Landeldis hf. ásamt frumkvöðlum.

Nýjar fréttir