10 C
Selfoss

Keila í sesammjöli, mangósalsa og klesstar parmesankartöflur

Vinsælast

Andrea Rafnar er matgæðingur vikunnar.

Að áeggjan vinkonu minnar Sigríðar Egilsdóttur á Vatnsleysu í Tungunum (Takk Sirrý!) þá ætla ég að deila með ykkur uppáhalds fiskuppskrift heimilisins sem er keila í sesammjöli. Áður fyrr steikti ég alltaf fisk upp úr eggi og hveiti en eftir að ég kynntist sesammjölinu frá Sukrin þá var ekki aftur snúið. Sesammjöl er glúteinlaust, inniheldur nær engin kolvetni, próteinríkt og mjög bragðgott. Keila fæst stundum í Fiskbúð Suðurlands á Selfossi og víðar… minnir á skötusel, þétt í sér og algjört lostæti!

Egg og sesammjöl hrært saman í skál þar til úr verður þunnt deig. Keilan skorin í ca 100 gr bita og velt upp úr sesamblöndunni.  Steikt í ólífuolíu eða smjöri á pönnu, kryddað með sítrónupipar og Ítalskri hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum.  Passa að steikja ekki of lengi.

Þessa eggja/sesammjöls blöndu nota ég líka á löngu og þorsk því keilan er ekki alltaf til!

Mango/ avocado salsa passar mjög vel með þessum fiskrétti en þá sker maður niður í smáa munnbita tómata, gúrkur, paprikur, mangó, rauðlauk/vorlauk/graslauk,ferskt chilli,  ferskt kóríander og smá límónusafi. Magn hvers fer eftir smekk hvers og eins. Blanda saman og krydda með svörtum pipar.

Auk þess eru klesstar parmesankartöflur alveg einstaklega góðar með þessum fiskrétti.

Sjóðið kartöflur í 15-20 mín. Bræðið smjör í potti með hvítlauk og saxaðri steinselju. Kartöflur, með hýði ef nýlegar, settar í ofnfast fat, hver kartafla marin með botni á glasi. Salta og pipra með svörtum pipar. Hellið hvítlaukssmjörinu yfir kartöflurnar og raspið fullt af parmesan osti yfir allt saman. Inn í ofn 180°C í 20 mín.

Ég skora á Ólöfu Kristjánsdóttur á Helgastöðum I í Tungunum að vera næsti sunnlenski matgæðingurinn en hún hefur búið erlendis lengi og lumar örugglega á einhverjum spennandi uppskriftum.

Nýjar fréttir