10 C
Selfoss

Már Gunnarsson meðal þeirra fyrstu sem stíga á Svið

Vinsælast

Það stefnir í það að Már Gunnarsson afreksmaður verði meðal þeirra fyrstu sem koma fram á Sviðinu, nýju lögheimili lifandi tónlistar í miðbæ Selfoss sem Þórir Jóhannsson er að opna á jarðhæðinni undir Miðbar sem nýlega var opnaður. Tónleikarnir eru hluti af síðsumars tónleikaferð sem Már er að leggja í til að fjármagna tónlistarnám sem hann kemur til með að hefja í Bretlandi í haust.Már hefur ákveðið að leggja sundferilinn á hilluna aðeins 22 ára gamall og einbeita sér að tónlistinni. Már er einn af sigursælustu sundmönnum landsins og hefur verið meðal fremstu blindu sundmanna heims undanfarin ár. Hann á heimsmet í baksundi og setti 28 sinnum Íslandsmet. Hann vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í London árið 2019 og keppti á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrrahaust. Tónlistin hefur fylgt Má alla tíð, frá því að hann byrjaði að æfa sjö ára í Lúxemborg. Már segist hafa afrekað nógu mikið í sundinu til að hann geti stigið sáttur frá því.

Núna í júní fékk Már staðfestingu á því að hann kæmist inn í breskan tónlistarháskóla, Academy of Contemporary Music í Guilford. Þetta segir hann gamlan draum en í náminu mun hann læra lagasmíði, framkomu og fleira til að styrkja sig sem tónlistarmann. Hann heldur út strax í haust og tekur aðeins Max með sér. Hann vinnur nú að nýju efni sem kemur út í sumar, sem útsett er af honum og Þóri Úlfarssyni. Þá blæs Már í tónleikaröð með hljómsveit og gestasöngvurum áður en hann heldur til Bretlands.

Tónleikarnir verða í Garðabæ, Selfossi og Reykjanesbæ og miðarnir seldir hjá Tix. Þetta verða í senn kveðjutónleikar Más áður en hann heldur út og fjáröflun til að styrkja hann til námsins, sem er langt frá því að vera ókeypis.

Á tónleikunum verður flutt bæði gamalt íslenskt efni í nýjum búningi og ný lög eftir Má. Hann kemur fram ásamt fimm manna hljómsveit og valdir gestir verða á hverjum stað fyrir sig.

25. ágúst: Sjáland, Garðabæ
01. september: Hljómahöllin Reykjanesbæ
02. september: Sviðið á Selfossi

Nýjar fréttir