5.6 C
Selfoss

Báran, stéttarfélag fordæmir allar tegundir ofbeldis og tilburði til eineltis

Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags.

Í fyrsta sinn í meira en 100 ára sögu Alþýðusambands Íslands hefur kona gegnt starfi forseta sem er merkur og stór áfangi. Drífa Snædal hefur staðið sig með sóma í öllum þeim verkefnum og áskorunum sem verkalýðshreyfingin hefur staðið frammi fyrir. Hún stóð vörð um kjarasamninga og lífeyrisréttindi launafólks á tímum heimsfaraldar. Drífa hefur verið í forsvari gegn undirboðum á vinnumarkaði og sýnt mikinn kjark í að verja mannréttindi og kjarasamninga launamanna.

Það er búið að vera vægast sagt ömurlegt að fylgjast með þeim forystumönnum sem komu fram í fjölmiðlum og fögnuðu þessum sorgardegi með ósmekklegum athugasemdum á hennar störf sem á sér enga stoð. Fram kom hjá Drífu að ástæða afsagnar hafi verið aðallega rætnar persónuárásir og einræðistilburðir sem hafa reynt verulega á hana í starfi. Hún hefur lagt mjög mikla orku í að miðla málum til að fanga sem flest sjónarmið. Forsetinn mótmælti í vor uppsögnum starfsfólks Eflingar þar sem vegið var að grunngildum verkalýðshreyfingarinnar. Ekkert heyrðist frá formanni VR stærsta félagsins innan ASÍ né núverandi formanni Starfsgreinasambands Íslands. Nú hafa verið undirliggjandi hótanir um frekari hreinsanir starfsmanna verkalýðshreyfingarinnar. Þessi svokallaði armur hefur í gegnum tíðina gagnrýnt svokallað bákn verkalýðshreyfingarinnar sem að þeirra mati hefur ekki talað fyrir hönd láglaunafólks og þeirra sem minna mega sín. Nú er komin sú staða að þessir sömu aðilar eru orðnir að stóru valdamiklu bákni með sérhagsmuni að leiðarljósi. Stjórn Bárunnar stéttarfélags hefur verulegar áhyggjur af því að þessi ofbeldismenningin nái yfir í hreyfingunni sem stefnir í að vera ólýðræðisleg og óaðlaðandi.

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambands Íslands fór mikinn í viðtali á Bylgjunni þar sem hann sendi fráfarandi forseta vægast sagt kaldar kveðjur og tilnefndi forsetaefni. Stjórn Bárunnar, stéttarfélagsins vill koma því á framfæri að Vilhjálmur Birgisson var ekki að tala fyrir hönd félagsins og er ekki talsmaður félagsins sem er eitt af félögum innan SGS. Ekki hefur verið haldinn fundur innan formanna SGS þar sem samþykkt hafa verið fordæmalausar árásir á fráfarandi forseta ASÍ og tilnefningar á verðandi forseta ASÍ í nafni Starfsgreinasambandsins.

Starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar hafa orðið fyrir hótunum og árásum um uppsagnir og þeirra störf dregin í efa. Báran, stéttarfélag hvetur aðildarfélög að standa vörð um það góða starf sem hefur verið unnið innandyra og þann hóp sem starfar þar.

Báran, stéttarfélag hafnar öllu ofbeldi, einelti og ærumeiðingum innan hreyfingarinnar sem á að sýna gott fordæmi. Rúmlega 100 ára saga Así einkennist af baráttu og sigrum launafólks. Stöndum vörð um að halda þeirri vegferð áfram.

Selfossi, 12. ágúst 2022.
Stjórn Bárunnar, stéttarfélags

Nýjar fréttir