6.1 C
Selfoss

Keyrði frá Tékklandi til Íslands

Vinsælast

Jana Tomanová er eftirtektarverð listakona sem varð ástfangin af Íslandi við fyrstu sýn og gat ekki hugsað sér annað en að setjast hér að. Jana býr ásamt Einari Viðari Viðarssyni í Ásólfsskála þar sem hann rekur bílaverkstæði en stór partur af fjölskyldu Einars býr í sveitinni.

Sveitafegurðin í sínu fínasta pússi, Ásólfsskáli til hægri og Skálakot til vinstri.

Foreldrar Einars, Viðar Bjarnason og Þorgerður Jóna Guðmundsdóttir keyptu búið á áttunda áratugi síðustu aldar, stækkuðu það umtalsvert á sínum tíma og eru bændur í Ásólfsskála sem hefur tvisvar sinnum í þeirra búskap hlotið verðlaun fyrir snyrtilegasta búið í Rangárþingi Eystra. Guðmundur Jón Viðarsson, bróðir Einars sem er yfirleitt kallaður Mummi keypti Skálakot af foreldrum sínum fyrir nokkru og hefur endurbyggt gamla hlöðu og fjós sem var þar og breytt í glæsilegt lúxushótel og veitingastað sem stendur spölkorn frá Ásólfsskála. Katrín Birna Viðarsdóttir eða Kata, systir Einars hefur tekið við bústörfum í Ásólfsskála af foreldrum sínum og býr einnig á svæðinu en Sigríður Karólína Viðarsdóttir sem er gjarnan kölluð Sigga er sú eina sem hefur yfirgefið paradísina sem heimahagar þeirra eru en flutti þó ekki lengra í burtu en á Hvolsvöll, svo mikið er aðdráttarafl þessa dásamlega staðar.

Kýrnar í Ásólfsskála hafa það býsna gott.

Ásólfsskáli er ekki bara sveitabær, heldur geta gestkomandi heimsótt glæsilega traktorasafnið hans Viðars, kíkt í stúdíóið hennar Jönu, fengið Einar til að laga bílinn sinn, fengið sér göngutúr um stórbrotið landslagið og sameinað þetta allt með því að gista í einu af litlu sumarhúsunum sem Kata leigir út. Síðan má að sjálfsögðu fylla á tankinn á glæsilegum veitingastaðnum í Skálakoti og enda ferðina á hestaferð úr hesthúsi Skálakots.

 

Traktorasafnið hans Viðars svíkur engan græjuunnanda.

Paradís suðursins

Fegurðin sem blasir við mér í þegar ég ek inn veginn að Ásólfsskála er óviðjafnanleg og gerir það mjög auðvelt að skilja hvers vegna manneskja sem kemur frá jafn fallegu landi og Tékkland er, finnur það í sér að vilja setjast að á Íslandi. Einar tekur glaðvær á móti mér þar sem ég stend ringluð á einu af nokkrum bílastæðum við Ásólfsskála og beinir mér heim að bænum, þaðan sem Jana kemur skokkandi með bros á vör, kyssir Einar sinn og heilsar mér. Fast á hæla Jönu kemur hundurinn Assa sem tekur mér fagnandi og ýtir ennfremur undir það hversu ánægjulegt er að sækja þennan fallega bæ heim.

Ásólfsskáli.

Brosmild Jana leiðir mig í átt að bænum, þaðan sem ég finn ljúfan ilminn af nýbökuðum flatkökum í loftinu. Ég kemst fljótt að því hvaðan lyktin kemur þegar við göngum á bakvið hús en inn um opnar dyr sjáum við Jónu þar sem hún heilsar okkur glaðlega, svuntuklædd með spaða í hönd og bakar flatkökur. Við Jana höldum áfram með Össu vappandi okkur við hlið, röltum framhjá hænsnakofa með fullt af gaggandi hænum inni í hálfgerðum skógi sem leynist í bakgarðinum, áður en við höldum inn að litlu vinnustofunni hennar Jönu.

Hænsnakofinn í skóginum.

12 ár af listnámi

Jana ólst upp í litla bænum Pečky sem staðsettur er um 35 km austan við Prag, hún sótti nám til borgarinnar í 12 ár í þremur skólum. Í þeim fyrsta lagði hún stund á nám við það sem næst kemst því að kallast auglýsingalist á íslensku, í öðrum skóla nam hún illþýðanlegu en áhugaverðu fræðin „interactive graphic“ en síðan lauk Jana B.A. og meistaraprófi í listnámi við „Faculty of Education; Charles Univerzity“ í Prag. Eftir að hafa ferðast á milli borgar og bæjar endaði hún með því að flytjast til Prag í 4 ár en í náminu hafði hún lært fjölmargar gerðir af listsköpun til dæmis að teikna og mála, prenttækni og endaði hún á að starfa við grafíska hönnun á auglýsingastofu í Prag í rúm tíu ár, að hluta til samhliða náminu.

Assa hvílir sig í sólinni á meðan Jana vinnur.

Leit að flugi til Nýja Sjálands leiddi hana til Íslands

Árið 2014 settist Jana fyrir framan tölvuna og ætlaði að panta sér flug til Nýja Sjálands þar sem kær vinkona hennar bjó. Þessi flugleit varð þó ansi afdrifarík og endaði ekki eins og Jana hafði búist við. „Þegar ég var að „gúgla“ Nýja Sjáland komu upp myndir af Íslandi, þegar ég fór svo að skoða þær betur hugsaði ég, vá, þetta er geggjað! Án þess að vita almennilega hvar Ísland var varð ég svo heilluð af landinu á þessum myndum og varð sannfærð um að ég yrði að fara þangað. Svo skemmdi það ekki fyrir þegar ég sá að flugmiðinn var töluvert ódýrari. Svo ég hringdi í vinkonu mína og sagði „sorry“, ég kem ekki til Nýja Sjálands, ég er að fara til Íslands. Ég sagði henni að ég hefði kolfallið fyrir því, þó ég væri ekki alveg viss um hvar það væri, ég ætlaði að fara þangað að ferðast. Hún spurði hvort ég væri að tapa glórunni, þetta væri hinumegin á jörðinni,“ segir Jana skellihlæjandi.

Á þessum tíma átti Jana kærasta sem hún tjáði, eftir afdrifaríku flugleitina, að hún ætlaði til Íslands. „Hann skildi ekkert í mér og spurði mig afhverju ég ætlaði þangað. Ég gat ekki svarað neinu nema að ég þyrfti að fara þangað, ég vissi ekki til hvers, ég þyrfti bara að fara þangað til að komast að því. Það endaði með því að hann kom með mér en áður en við fórum varð ég alveg sjúk í Ísland, ég keypti fullt af kortum og í tvo mánuði var ég með stórt Íslandskort í stofunni hjá okkur þar sem ég límdi límmiða á staðina sem ég vildi heimsækja. Þegar við loksins lentum langaði mig að gráta úr gleði yfir því að vera loksins komin hingað, þetta var ótrúlega skrýtið.“

Jana fær innblástur sinn úr náttúrunni, og nóg er af fjölbreytileika hennar í grennd við Ásólfsskála.

Þessi fyrsta heimsókn stóð í tvær vikur í júní árið 2015. „Við tókum klassíska túristahringinn en mig dreymdi um að ganga úr Landmannalaugum til Skóga en það var ekki hægt á þessum árstíma svo ég hugsaði með mér að ég yrði bara að fara þá ferð á næsta ári. Við kærastinn hættum saman eftir að við komum aftur til Tékklands og ég fór á fullt í að reyna að finna einhvern til að koma með mér í næstu Íslandsferð. Það voru nokkrir vinir mínir sem langaði með en það fjaraði út og endaði með því að ekkert varð úr þeirri ferð.“

Lét meiðsli ekki stoppa sig

Það var því árið 2017 sem Jana ákvað að láta slag standa og setti stefnuna á Ísland, ein síns liðs. „Ég keypti bara miða, ákvað að fara í gönguna og gera þetta sjálf, ég gæti það alveg. En svo þremur dögum fyrir flugið hingað slasaði ég mig illa á fæti og gat þar af leiðandi ekki farið í gönguna, ég var svo þrjósk að ég ákvað að fara samt til Íslands. Mamma hringdi í mig þegar ég var á flugvellinum og spurði hvort mér væri alvara, hvort ég ætlaði virkilega að fara svona á mig komin. Ég var staðráðin í þessu og sagði bara já, ég er að fara.

Þegar ég lenti, tók ég rútu til Landmannalauga þar sem ég eyddi 2 dögum, ég reyndi að ganga en það var ekki hægt. Þetta var hræðilegt, ég endaði bara grátandi á einhverri hæð þarna þegar það rann upp fyrir mér að ég væri bara alein hérna, heilinn minn var að uppgötva hvað ég væri búin að koma mér útí og að það væri kannski ekkert mjög sniðugt. En ég varð aðeins skárri í fætinum og var með mjög sterk verkjalyf með mér,“ segir Jana og hlær.

„Ég var svo glöð að hafa farið til Íslands og bara það gaf mér svo mikið.  Síðan tók ég rútu yfir í Þórsmörk en þar gerðist eitthvað mjög skrýtið sem ég held að hafi verið upphafið af þessu öllu, því að ég hafi bara breytt lífinu mínu og skilið allt eftir í Tékklandi sem ég gerði. Ég hafði aldrei komið til Þórsmerkur áður en þetta var eins og að koma heim. Ég fann bara að ég þekkti þennan stað og hinn staðinn og ég vissi bara hvar ég var, samt var þetta í fyrsta sinn sem ég hafði komið þangað.“

Ein nótt enn

„Ég gisti þar í eina nótt, svo bætti ég við annarri og einni enn og þegar ég hafði verið þar í tæpa viku hugsaði ég með mér að ég yrði nú að halda áfram ferðalaginu, sjá meira. Ég tók því rútu til Skóga en í rútunni byrjaði ég bara að gráta því ég var svo leið yfir því að vera að yfirgefa Þórsmörk. Ég var svo tilfinninganæm, það er svo erfitt þegar maður er einn og hefur allar þessar tilfinningar en engan til að deila þeim með, það var allt á mínum herðum, svo ég var mjög grátgjörn í tvær vikur. Þegar ég kom í Skóga vildi ég bara fara aftur til Þórsmerkur svo ég gerði það og var þar út ferðina og þar ákvað ég að ég myndi gera allt sem ég gæti til að geta komið þangað aftur og eytt meiri tíma þar. Þessi heimsókn endaði semsagt með því að ég eyddi allri ferðinni í Þórsmörk, ég held að þau séu enn hlæjandi að mér þarna eftir að ég hélt áfram að koma og bæta við einni nótt í viðbót alla ferðina,“ segir Jana og hlær.

Í lok sumarsins byrjaði Jana að hafa samband við Volcano Huts í gegnum tölvupóst. „Ég held þau gleymi mér heldur aldrei því ég var svo uppáþrengjandi við þau, hætti ekki að senda pósta en þau svöruðu mér og sögðust ætla að vera í sambandi í janúar. Ég var ekki nógu þolinmóð svo ég keypti mér flugmiða til Íslands í 3 nætur í janúar 2018, sendi þeim póst og sagði að ég yrði á Íslandi þessa daga og að ég vildi endilega kíkja á þau.

Binni, einn eigenda Volcano Huts sagði mér blátt áfram að hann hefði farið í gegnum ferilskrána mína en að hann sæi ekki að ég hefði neitt að bjóða þeim, ég hefði enga reynslu eða þekkingu á þessu sviði en honum leist mjög vel á metnaðinn sem ég hafði augljóslega eftir alla tölvupóstana og hann vildi gjarnan hitta mig. Það endaði með því að hann réði mig á staðnum. Það var skelfilegt veður þarna í janúar og þessi barnslega von sem margir ferðamenn hafa um að geta séð norðurljósin hvenær sem er yfir veturinn var fljót að hverfa út í vindinn, bókstaflega,“ segir Jana létt í bragði.

Ljúfsárt að elta drauminn

„Ég flaug aftur heim, sagði frábæra starfi mínu í Tékklandi lausu og tók mér góðan tíma í að útskýra fyrir mömmu minni afhverju ég vildi fara, hún var ekki ánægð með mig en eftir að hún kom hingað í heimsókn held ég að hún skilji þetta. En við mamma eigum mjög sterk tengsl, ég á tvo eldri bræður og er þar af leiðandi eina stelpan og yngsta barnið svo hún átti mjög erfitt með að sjá á eftir mér hingað. Þetta var mjög erfitt fyrir okkur báðar en ég hugsa að þetta hafi verið erfiðara fyrir hana en mig.“

Keyrði frá Tékklandi til Íslands

Jana kom til Seyðisfjarðar þann 22. maí 2018, hún keyrði frá Tékklandi alla leið til Danmerkur til þess að geta siglt með bílinn sinn til landsins, ég skaut því að henni að hún hefði þá eiginlega keyrt frá Tékklandi til Íslands sem verður að teljast nokkuð gott. „Það er svo fyndið hvernig heilinn virkar. Þú fattar ekki fyrrren þú ert stödd ein á Austfjörðum, ein að keyra í bílnum þínum, með aleiguna í skottinu og hugsar, hvað var ég að gera? Ég skildi gjörsamlega allt eftir, góða vinnu, alla vini mína og fjölskyldu til að koma hingað, er ég ekki í lagi? En ég held að þegar upp er staðið hafi þetta verið besta ákvörðun ævi minnar. Ég kom hingað til að vinna í þrjá mánuði en fjórum árum seinna er ég enn hér.“

Það er ekki laust við að ég öfundi Jönu af útsýninu sem hún hefur úr vinnustofunni sinni.

Nokkrum dögum eftir komuna til landsins hóf Jana störf hjá Volcano Huts í Húsadal en þar eyddi hún fjórum sumrum og tveimur vetrum og hlæjandi segist Jana hafa verið umsjónarmaður þar í þrjú ár. „Þetta var svolítið merkilegt því ég kom þarna algjörlega reynslulaus, með agnarsmátt sjálfsálit, talaði varla ensku, hvað þá íslensku og var þarna svolítið eins og grá mús en eftir fyrsta sumarið og veturinn var ég beðin um að taka við umsjón staðarins. Ég sagði þeim að það væri ekki góð hugmynd, ég talaði ekki íslensku og að enskan mín væri ekki góð en þau höfðu trú á mér og ég endaði með því að sjá um þetta í þrjú ár. 

Þetta var virkilega góður tími en þrjú ár voru nóg í þessari stöðu, ást mín á Þórsmörk hefur ekki dvínað en núna get ég aftur farið þangað sem ferðamaður, án skuldbindinga. Þetta var yndislegur partur af lífinu mínu og ég er svo þakklát fyrir þennan tíma, þetta gaf mér svo margar fallegar sálir og fólk sem kom inn í lífið mitt og auðgaði það, ég endaði meira að segja á því að finna ástina í Þórsmörk.“

Ægifagra Íslandskortið sem tók Jönu tvær vikur að klára.

Bíllinn vildi að þau hittust oftar

Eins og fyrr segir er Mummi, bróðir Einars eigandi Skálakots en þau bjóða upp á hestaferðir inn í Þórsmörk. „Þar sem ég var umsjónarmaður fóru samskiptin í gegnum mig og þannig kynntumst við Mummi og í kjölfarið ég og Einar. 

Fyrir tæpum 3 árum kynntumst við Einar og urðum strax góðir vinir, en á þeim tíma átti hann konu svo það var ekkert meira en vinátta á milli okkar. Hann hjálpaði mér að finna lítið hús sem ég leigði en skömmu seinna urðum við nágrannar þegar leiðir hans og fyrrverandi konu hans skildu. Ég var alltaf að leita til hans því að bíllinn sem ég átti var alltaf að bila, ég var farin að grínast með að bíllinn vildi að við hittumst oftar en svo bara gerðust hlutirnir frekar hratt, við vorum þá þegar góðir vinir og höfðum þekkst í góðan tíma svo það var nokkuð auðvelt að taka vinasambandið á nýtt stig, svo nú er ég hér,“ segir Jana og horfir auðmjúk og dreymin í kringum sig á þessum stórbrotna stað.

„Mér finnst frekar merkilegt að hugsa til þess hvernig lífið mitt er orðið að einhverju sem ég hefði aldrei búist við. Þegar ég var í listnáminu voru svo margir þar sem voru að mínu mati listamenn. Þeir voru svo góðir og mér fannst eins og að ég gæti aldrei sýnt mín verk því þau stæðust ekki samanburð við þeirra. Ég held að þetta sé að hluta til hugarástand Tékkneska fólksins, að okkur finnist við ekki nógu góð. Ég fann þetta líka þegar ég talaði ensku, ég var alltaf svo hrædd við að tala hana því ég gæti gert mistök, á íslandi er þetta gerólíkt og viðhorfið hér hefur algjörlega breytt minni sjálfsmynd.“

 

Var viss um að enginn vildi kaupa teikningarnar hennar

Í upphafi var ég ótrúlega feimin við að sýna fólki það sem ég teiknaði. Þetta byrjaði allt í Þórsmörk þegar vinkona mín bað mig um að teikna á póstkort og senda sér. Ég var treg til en ákvað að láta það eftir henni. Ég settist við borð á veitingastaðnum í Húsafelli og byrjaði að teikna. Samstarfsfélagar mínir voru í kringum mig eins og flugur og voru svo heillaðir af því sem ég var að teikna að þeir heimtuðu að ég myndi gera fleiri svona kort og selja þau í móttökunni, ég sagði þeim að þau væru rugluð, það kæmi ekki til greina að ég myndi gera það, enginn myndi kaupa þetta. Einn samstafsfélaginn sem vann í móttökunni sagði þá: „teiknaðu þrjár myndir og ég skal selja þær á innan við klukkutíma.“ Hann kom áður en klukkutíminn var liðinn, búinn að selja allar þrjár myndirnar og spurði hvort ég ætti fleiri.“ 

Þetta litla póstkort vatt á endanum svo uppá sig að í dag hefur Jana lífsviðurværi sitt af því að teikna. „Eftir að ég hætti í Þórsmörk var ég að hjálpa til við þrif í Skálakoti en ég þurfti að hætta því því ég hafði allt of mikið að gera. Ég er að gera póstkort, litlar myndir, panorama myndir, Íslandskortin og núna nýlega voða fín kort á striga og er síðan að fá sýnishorn af stuttermabolum með teikningunum mínum á.“ Í ofanálag er Jana að gera tattoo og mun opna stúdíó á Hvolsvelli á næstunni. Það er þó langt frá því að þetta sé nóg fyrir Jönu, en hún er með ýmislegt á prjónunum sem við getum vonandi fengið að fylgjast með í nákominni framtíð.

„Ég bjóst alls ekki við því að þetta myndi ganga jafn vel og raun ber vitni. Mér fannst póstkort svo góð hugmynd og langaði að fara af stað með þau því heimurinn er stór, ég er bara ein manneskja og hef ekki ótakmarkaðan tíma eða fjárráð svo ég get ekki ferðast til allra staðanna sem kortin komast á, en með þeim er þó partur af mér sem heimsækir allsskonar staði og gleður fólk. Það var meginástæðan og upprunalega hugmyndin af þessum póstkortum, að geta deilt sjálfri mér, orkunni minni um heiminn, til staða sem eru mér framandi,“ segir Jana að lokum.

Viðtal og myndir: Helga Guðrún Lárusdóttir

Nýjar fréttir