-0.5 C
Selfoss

Þetta mun allt ganga upp að lokum

Vinsælast

Sumarið er tíminn segir í samnefndu lagi sem Bubbi Morthens syngur. Sumarið er tíminn þegar Íslendingar fara í ferðalög. Sumarið er tíminn þegar fólk ferðast landshorna á milli til þess eins að elta sólina. 

Við fjölskyldan tókum þátt í þeim eltingaleik á dögunum. Við ferðuðumst landshorna á milli með hjólhýsið okkar í eftirdragi. Þar sem við keyrðum eftir suðausturströndinni sáum við ferðalanga skipta á sprungnu dekki á bílnum sínum og fundum til með þeim. Stuttu síðar heyrðist skrítið hljóð frá hjólhýsinu okkar. Við stoppuðum bílinn undir þverhnýptu fjalli þar sem var hætta á steinaskriðum og athuguðum málið. Viti menn. Það var ekki bara sprungið dekk undir hjólhýsinu heldur hvellsprungið! Var eitthvað á götunni? Ég veit það ekki. 

Þar sem við höfðum lagt bílnum og hjólhýsinu í útkeyrslu á möl var aðeins flóknara en ella að skipta um dekk. Fyrst þurfti að grafa holu til að koma tjakknum fyrir á föstu undirlagi. Í tjakkinn vantaði svo nógu langa sveif en þá kom vinafólk okkar með verkfæri úr bílnum sínum og það reddaði málunum. Þegar losa átti dekkið þá vantaði felgulykil í réttri stærð og þá komu önnur vinahjón okkar til hjálpar með felgulyklasett. Að lokum náðist að taka dekkið af, setja varadekkið á og græja hjólhýsið til keyrslu. En viti menn. Þá var lint í dekkinu. Ekkert okkar var með pumpu meðferðis en þá kom allt í einu aðsvífandi að heimamaður í bíl frá vegagerðinni. Hann var ekki lengi að redda málunum. Hringdi í vin og svo eltum við hann hægt og rólega að sveitabæ þar sem ungur maður í björgunar sveitarpeysu beið með rafmagnspumpu í hönd. Málinu var reddað! 

Útsýnið frá sveitabænum var stórkostlegt og veðrið fallegt. Álftir í þúsundatali syntu um á stóru lóni og minning varð til í huga mér sem mun seint þaðan hverfa. Minning blandinn þakklæti. 

Þegar ég hugsa um þessa atburðarrás þá er ég þakklát og sé líka margt sem má læra. Í fyrsta lagi þá er alltaf kraftur í fjöldanum. Það að við vorum þrjár fjölskyldur saman á ferð og gátum hjálpast að reddaði málunum. Betri eru tveir en einn segir nefnilega í góðri bók. 

Í öðru lagi þá erum við búin að gera lista yfir hvað vantar í hjólhýsið og bílinn ef svona óhapp skyldi gerast aftur og við gætum ekki treyst á vin. 

Í þriðja lagi. Íslendingar standa saman í neyð og það að maðurinn frá vegagerðinni hafi komið akkúrat á þeim tíma sem hann gerði var blessun og mikil hjálp. 

Það er í raun ekkert skrítið að við Íslendingar ofnotum máltækið „Þetta reddast“.

Þetta reddast 

Orðatiltæki sem er notað þegar þú stendur frammi fyrir erfiðum aðstæðum. Þetta reddast þýðir að það mun allt ganga upp að lokum.  

Það er bara yfirleitt þannig að allt hefur tilhneigingu til að reddast, blessast og verða góð saga til að segja eftir á.  Kæru vinir, kæri vegagerðamaður, kæri björgunarsveitarmaður, takk fyrir að láta þetta reddast! 

Gunna Stella 

Random Image

Nýjar fréttir