5.6 C
Selfoss

Tryggjum vöxt og viðgang Sigurhæða

Vinsælast

Á síðasta stjórnarfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, hinn 24. júní sl., var óháð matsskýrsla Háskóla Íslands um Sigurhæðir – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi – lögð fram til kynningar og umræðu. Sigurhæðir eru svokallað áhersluverkefni í Sóknaráætlun Suðurlands og tók SASS því þátt í fjármögnun verkefnisins árið 2022 með fimm milljón króna framlagi. Á fundinum kom fram mikil ánægja með Sigurhæðir og var eftirfarandi bókað:

Stjórn SASS óskar Soroptimistaklúbbi Suðurlands til hamingju með góðan árangur af áhersluverkefninu. Ljóst er að meðferðarúrræðið hefur gefist vel fyrir þolendur kynbundins ofbeldis [og] samstarfsaðilar nýta [það]og treysta. Stjórn hvetur ríkið, sveitarstjórnir og aðra hagaðila að tryggja vöxt og viðgang verkefnisins til næstu ára.

Undirbúningur að Sigurhæðaverkefninu hófst haustið 2020 og úrræðið var opnað í lok mars 2021. Skýrslan fjallar um helstu niðurstöður ytra mats á undirbúningi og innleiðingu Sigurhæðaverkefnisins, helstu styrkleika og veikleika þess, tækifæri til umbóta og reynsluna af starfseminni fyrsta heila starfsárið. Matið byggir á fyrirliggjandi gögnum, bæði megindlegum og eigindlegum, um verkefnið almennt, samstarfið, starfsemina, þjónustuna og þjónustuþegahópinn. Nýrra gagna var meðal annars aflað með viðtölum, samráðshópum, og viðhorfskönnunum. Dr. Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands er ábyrgðarmaður ytra matsins. Kristín A. Hjálmarsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður, sá um framkvæmd úttektarinnar fyrir hennar hönd. Niðurstaðan er að SIGURHÆÐIR eru framúrskarandi úrræði, meðferðarstarfið er faglegt og afskaplega vel heppnað, forystan traust og mikil ánægja ríkjandi meðal bæði samstarfsaðila, skjólstæðinga og Soroptimistasystranna í Suðurlandsklúbbnum.

Víðtækasta og virkasta net samstarfsaðila sem þekkist

Margt athyglisvert kemur fram í skýrslunni. Um 60% af skjólstæðingunum, sem voru yfir 100 talsins fyrsta starfsárið, komu eftir tilvísun frá félagsþjónustum sveitarfélaganna á Suðurlandi og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Að öllum líkindum á sú staðreynd mikinn þátt í að þungi mála er talsvert meiri en hjá sambærilegum úrræðum á landinu, en um 40% skjólstæðinganna eru öryrkjar eða á endurhæfingarlífeyri. Þetta hlutfall er t.d. 23% hjá Bjarkarhlíð í Reykjavík.

Þá kemur sérstaða Sigurhæða vel fram í skýrslunni. Samstarfsaðilar Soroptimistaklúbbs Suðurlands í Sigurhæðum eru alls 22, en það var Soroptimistaklúbburinn sem tók frumkvæðið að Sigurhæðum og ber alla fjárhagslega ábyrgð á þeim. Samstarfsaðilarnir eru öll sunnlensku sveitarfélögin 15, lögreglan á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, sýslumennirnir á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Kvennaráðgjöfin (lögfræðileg ráðgjöf) og Mannréttindaskrifstofa Íslands (fræðsla til innflytjendakvenna).  Þetta er víðtækasta og virkasta samstarfsnet á þessu sviði á landinu öllu.

Úr engu yfir í þróaðasta úrræðið

Einnig felst sérstaða Sigurhæða í að þar er veitt meiri og sérhæfðari meðferð en þekkist annars staðar. Hún felst í bæði einstaklingsviðtölum, hópastarfi í þremur svokölluðum meðferðarlotum, þar sem m.a. aðferðum listmeðferðar er beitt, og í sérstakri EMDR-áfallameðferð. Þegar hefur komið fram mælanlegur árangur af meðferðarstarfinu. Öll þjónusta Sigurhæða er endurgjaldslaus og segja 70% af skjóstæðingunum að það hafi skipt meginmáli fyrir þá.

Ljóst er af matsskýrslunni að Soroptimistaklúbbi Suðurlands hefur ásamt samstarfsaðilum tekist að ná öllum markmiðum sínum þegar á fyrsta ári starfseminnar og hefur þjónusta við þennan viðkvæma hóp skjólstæðinga á Suðurlandi því farið úr engu yfir í þróaðasta úrræðið á sínu sviði á mettíma.

Sjá nánar á vefsíðu Sigurhæða sigurhaedir.is/frettir

 

 

Nýjar fréttir