1.1 C
Selfoss

Ómótstæðilegt meðlæti í útileguna

Vinsælast

Ætli ég verði ekki að þakka honum Óla vini mínum fyrir traustið, alltaf gott að vita að maður sé hæfur í að deila uppskriftum, mér hefur reyndar áður hlotnast þessi heiður og þá sagði ég frá því að ég væri ekki mjög góð í að fara stíft eftir uppskriftum en aftur á móti mjög góð í að skeyta saman tveimur uppskriftum eða skipta út einu eða tveimur hráefnum fyrir annað sem er mér meira að skapi, því hafa flestallar uppskriftir þróast í mínar uppskriftir.

En nú er sumarið komið og ég held ég ætli bara að deila með ykkur hugmyndum að meðlæti sem getur gengið með öllum mat og í útileguna og sósu sem er vinsæl á mínu heimili þessa dagana.

Brokkolísalat

Brokkolíhaus stór
1 stk cheddar ostur (Cathedral City 200gr) ,Skorinn í teninga
1stk rauðlaukur, fínst saxaður
1 pakki beikonkurl, ca 250 gr fer eftir smekk
Pekanhnetur ca 100 gr , saxa smátt
1-2 dósir af sýrðum rjóma

Brokkolí er skorið í hæfilega bita og sett í sjóðandi vatn svo það mýkist aðeins en alls ekki sjóða það, sigtað og sett til hliðar. Beikonkurl er steikt á pönnu og sett á  disk til hliðar til að kólna, set það oft á eldhúspappír til að fjarlægja umfram fitu. Rauðlaukur og pekanhnetur er saxað smátt og sett í skál síðan er cheddar osturinn skorinn í litla teninga og settur úti og svo síðast brokkolí og beikonkurl, sýrði rjóminn settur úti og öllu blandað saman og hér þarf ekkert krydd því beikonið sér um öll þau bragðefni.

Ég geri þetta salat ekki eftir nákvæmri uppskrift og því mæli ég með að hver og einn sé ófeiminn að minnka eða auka hráefnin eftir sínum smekk, og oft geri ég þessa sömu uppskrift og skipti út brokkolí fyrir rauða papriku og vínber og það er líka mjög gott.

Salatið er svo sett í kæli og borið fram með steikinni um kvöldið eða tekið með í útileguna.

Einfaldasta eplasalat sem til er

2 stór græn epli
Blá vínber ca 100- 200 gr
1 kókosrjómi ca 200-300ml

Eplin eru afhýdd og skorin í bita og vínberin skorin í tvent, kókosrjóminn er þeyttur og öllu blandað saman í skál og sett inn í kæli. Þetta passar td. mjög vel  með kalkún, kjúkling, hamborgarhrygg og purusteik.

Rauðvínssósa

Rauðvín ca 300ml
Nautasoð ca 300 ml
Rauðlaukur 1-2 stk fer eftir stærð
Stjörnuanis 1 stk
Timjan ferskt
Smjör  ca matskeið
Salt og pipar

Laukurinn er skorinn í sneiðar og steiktur upp úr smjöri ásamt einum stjörnuanís i í ca 15 – 20 mín við lágan hita til að ná fram góðu sætu laukbragði.  Svo er saltað og piprað og tveimur vænum stilkum af timjan bæt við. Næst er rauðvínið sett út í, það þarf að nota gott rauðvín til að sósan verði góð. Þetta er látið sjóða þannig áfengið gufi upp og sósan sjóði aðeins niður. Því næst er kjötsoðinu bætt við og sósan látin sjóða smá niður aftur. Að lokum er laukurinn og timjan sigtað frá, smá sjörklípa sett úti  til að fá gljáa á sósuna og saltað og piprað meira ef þarf.

Það má nota kjötsoð af steikinni en einnig er í góðu lagi að nota 300 ml af vatni og kjötkraft.

Þessa uppskrift fann ég  frá einhverjum flottum kokk fyrir nokkrum árum og ég hef bara ekkert breytt henni nema stundum sleppi ég að nota timjan.

Ég ætla að skora á hana systur mína Sigurlínu Kristinsdóttur listakonu og listakokk sem er matreiðslukennari í MH að koma með einhverjar snilldar uppskriftir í næsta blaði.

 

 

 

Nýjar fréttir