6.7 C
Selfoss

Nafnasamkeppni fyrir nýjan skemmtistað

Vinsælast

Á Facebooksíðunni „Miðbær Selfoss“ var í gær óskað eftir tillögum um nafn á nýjan skemmtistað sem kemur til með að opna í sumar. „Ónefndi barinn“ verður hýstur af endurbyggðri „Friðriksgáfu“ sem staðsett er við Brúartorgið góða.

Hlynur Friðfinnsson, verti, var glaður í bragði þegar blaðamaður náði tali af honum. „Þetta gengur mjög hratt og vel við erum bjartsýn á að við getum opnað mjög fljótlega. Það er mikið af viðburðum framundan, allt frá tónleikum til beinna útsendinga frá íþróttaviðburðum. Þessi staður er klárlega eitthvað sem vantar á Selfoss og við erum þessa dagana á fullu við að leita okkur að ungu, jákvæðu og skemmtilegu starfsfólki á meðan við leggjum lokahönd á staðina og erum virkilega spennt fyrir því að fá að opna dyrnar fyrir gestum og gangandi.“

Í samkomuhúsinu, sem er á þremur hæðum, verður tónleikastaðurinn Sviðið á neðstu hæð en á miðhæð/risi verður bar/skemmtistaður sem eftir á að nefna.

Af því tilefni slá miðbæingar upp nafnasamkeppni í leit að rétta nafninu á barinn/skemmtistaðinn.

Það er til mikils að vinna því komi tillagan til með að vera sú rétta er 25.000 kr. gjafabréf í Mjólkurbúinu og annað 25.000 kr. gjafabréf á ónefndum bar í verðlaun. Rétt er að taka fram að „Friðriksgáfa samkomuhús“ er núverandi vinnuheiti staðarins og því ekki gilt sem tillaga í þessari keppni. Miðbæingar áskilja sér rétt til að hafna öllum tillögum og ef að tveir eða fleiri verða með sömu tillögu verður dregið um sigurvegarann.

Tillögur berist á tölvupóstfangið
tj@svidid.is

Nýjar fréttir