9.5 C
Selfoss

Um hvað er kosið í Flóahreppi?

Síðustu daga hefur komið betur og betur í ljós hvar munurinn liggur í stefnumálum framboðanna hér í Flóahreppi. Á meðan Framfaralistinn vill auka kostnað við yfirstjórn og skilar auðu í sameiningarmálum kýs XT minni yfirbyggingu og meiri breidd, ásamt því að láta íbúana ráða för í sameiningarmálum. Framboðin eiga mikið sameiginlegt en þarna greinir okkur á.

Minni yfirbyggingu og betri þjónustu

Í stefnu Framfaralistans kemur fram að þau hyggjast vera með starfandi oddvita og varaoddvita á næsta kjörtímabili. Þessir tveir oddvitar væru þá að öllum líkindum á hálfu, og fjórðungs þingfararkaupi, sem er í dag um 1.3 milljónir á mánuði. Það er kostnaður upp á um 50 milljónir á komandi kjörtímabili. Og þá er ótalinn kostnaður við ráðningu æskulýðs- og tómstundafulltrúa sem er annað eins eða meira!

Bara þessi þrjú störf munu kosta sveitarsjóð Flóahrepps, tugi milljóna á ári.

Við hjá XT kjósum frekar að nota þessa fjármuni í innviðauppbyggingu og þjónustu við íbúa hér í Flóahreppi. Við munum hvorki hafa oddvita eða varaoddvita á sérstökum þingfararlaunum og sveitarstjóraefni okkar mun verða oddviti sveitarstjórnar án þess að þiggja laun fyrir.

Ávísun á óskilvirka stjórnsýslu

XT hefur ekki þá sýn að fjármunum sé best varið í vasa kjörinna fulltrúa. Fyrir utan hvað þetta er mikið bruðl hjá Framfaralistanum, er þetta líka ákaflega óskilvirkt skipurit sem þau sjá fyrir sér. Í þeirra skipuriti, sem þau virðast reyndar ekki skilja sjálf, verður hlutverk sveitarstjóra óskýrt og tveir “stjórar” verða starfandi til hliðar og/eða fyrir ofan sveitarstjóra. En það sem er alvarlegra er að þetta fyrirkomulag Framfaralistans mun útvatna vald sveitarstjórnar og gera boðleiðir mjög óskýrar.

Við kjósum að valdið sé hjá sveitarstjórn

XT vil þvert á móti efla sveitarstjórnina og nefndir eins og lög gera ráð fyrir. Við ætlum að nýta krafta allra sveitarstjórnarmanna, bæði þeirra sem eru í minni- og meirihluta. Það er eitthvað sem Framfaralistinn og forverar hafa ekki gert nægilega vel hingað til. Þannig verður hlutverk sveitarstjóra hjá okkur alveg skýrt við að framkvæma ákvarðanir sveitarstjórnar og annast verkefni sveitarfélagsins. Þá munum við efla nefndirnar og nýta dýrmæta krafta og reynslu hjá fjölbreyttum hópi heimafólks.

Í sameiningarmálum eiga íbúar að ráða för!

Það er mér hulin ráðgáta hvernig Framfaralistinn setur fram sín ítarlegu stefnumál og áherslur en minnist ekki einu orði á sameiningarmál sveitarfélaga.

Það er alveg skýrt í lögum, að eftir kosningar 2022 verða sveitarfélög að bregðast við. Sameininga hamarinn er á lofti hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er einfaldlega ekki í boði að sitja hjá og vona það besta. Þannig gætum við á endanum verið þvinguð í samband sem við viljum ekki vera í. Samband sem er ekki á jafningjagrundvelli. Það líður engum vel í slíku sambandi. Við hjá XT erum með skýra sýn á þessi mál. Sýn sem byggir á frumkvæði og krafti en ekki hjásetu. Við ætlum að láta íbúana sjálfa ráða för í þessu máli með íbúalýðræði og opnu samtali. Það skiptir miklu máli að halda sjálf frumkvæðinu í þessum málum.

Allt í einu er það góð hugmynd að sveitarstjóri greiði útsvarið hér?

Það er fleira kauðslegt í málflutningi Framfaralistans. Síðustu átta ár hefur verið starfandi sveitarstjóri í Flóahreppi, sem ekki var af listanum og hefur aldrei greitt útsvar hér. En allt í einu núna finnst Framfaralistanum það skipta máli og slær því upp sem rökum, að það skipti miklu máli að vera með sveitarstjóraefni af listanum og að viðkomandi greiði útsvar hér. Í alvöru!?

Ég spyr: Af hverju er mikilvægt allt í einu núna að sveitarstjórinn sé af listanum ykkar og borgi útsvar hérna í sveitarfélaginu. Hvers vegna skipti það engu máli síðustu átta árin? Það hefði nú ekki verið mikið erfiðara en eitt pennastrik og útsvar sveitastjórans hefði lent hér. Þetta er í besta falli vandræðalegur málflutningur.

Við erum á krossgötum

Ég þreytist ekki á að tala um hversu mikil tækifæri bíða okkar hér í þessari fallegu sveit örstutt frá höfuðborgarsvæðinu. Það hvernig haldið verður á málum í Flóahreppi á næstu árum skiptir mjög miklu máli. Við erum sveit. Við erum lífgæðasveit. Við verðum stöðugt eftirsóttari og við eigum að nýta okkar styrkleika og byggja upp enn betra og sterkara sveitasamfélag.

Þakklæti

Það er líklega besta ákvörðun sem við fjölskyldan höfum tekið að flytja hingað í Flóann. Það eru forréttindi finnst okkur að búa hér. Þá er ég sjálfur líka geysilega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að bjóða fram krafta mína fyrir mína heimabyggð. Kosningabaráttan hefur verið mikil upplifun og ég hef kynnst mikið af góðu fólki, jafnvel eignast vini fyrir lífstíð.

Samstillt og sterk teymi geta unnið þrekvirki

Ég býð fram krafta mína fyrir framtíð Flóahrepps. Ég hef langa og farsæla reynslu af stjórnun en ég veit líka að einn maður gerir ekkert einn. En fjölbreytt og sterkt teymi sem hefur skýra sýn á hvert það vill fara og hvernig það vill komast þangað, getur unnið þrekvirki.

Með vinsemd, 
Sigurjón Andrésson

Höfundur skipar efsta sæti á lista XT í Flóahreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022

Nýjar fréttir