8.9 C
Selfoss

Ferðaþjónusta í Bláskógabyggð

Stephanie og Andri Snær

Hvert stefnum við?

Okkar fallega sveitarfélag er það sem fær hvað flesta gesti á ári. En er verið að halda nógu vel utan um svæðið? Væri ekki hægt að gera töluvert betur hér?

Nú erum við ekki að þykjast vera með töfralausnir eða að gagnrýna einn eða neinn heldur veltum við þessu fyrir okkur, því meira sem við hugsum það, þá finnst okkur mikið tækifæri til þess að halda miklu betur utan um ferðaþjónustu í Bláskógabyggð.

Hér býr öflugt fólk sem hefur frábært hugmyndaflug og lætur hlutina gerast, sama hvort það er að búa til veitingastað inn í gróðurhúsi, veitingastað í fjósi, gera upp hús í helli til að sýna ferðamönnum hvernig fólk bjó eða gera upp hlöður og nýta sem veislusali.

Það er hreint ótrúlegt hvað það er margt í boði hér á svæðinu, en við veltum fyrir okkur hvort við getum ekki tengt svæðið betur saman og búið til enn sterkari ímynd.

Hugmyndir að hvernig við getum gert það eru eftirfarandi

Að Sveitarfélagið taki virkan þátt í samtali við fyrirtækin á svæðinu um að mynda skýra stefnu saman og aðstoða þau eins og unnt er.

Stofnun félags sem ætlað er að styðja við og styrkja frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu á svæðinu.

Hvetja til sterkrar umhverfisstefnu og leiða samtalið þar.

Að vinna náið með öllum þeim íbúum sem ætla sér að byggja upp einhverskonar ferðaþjónustu.

Einnig veltum við fyrir okkur hvers vegna þjóðgarðsverðir á Þingvöllum ættu ekki að vera með höfuðstöðvar á svæðinu líkt og kollegar þeirra í Vatnajökulsþjóðgarði hafa fært sig á Hornafjörð.

Andri Snær Ágústsson, 3. sæti Þ-listans í Bláskógabyggð
Stephanie Langridge 4. sæti Þ-listans í Bláskógabyggð

Nýjar fréttir