11.7 C
Selfoss

Fyrir þau sem minna mega sín

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson

Stjórnmál snúast um fólk. Sveitarstjórnarmálin um nærþjónustuna sem skiptir okkur flest miklu máli, Sérstaklega þau sem minna mega sín og þurfa til lengri eða skemmri tíma að reiða sig á öryggisnetið í samfélaginu.

Tilgangur og erindi Samfylkingarinnar í stjórnmálum er að tryggja almananhagsmuni og jöfnuð. Jafnræði og sanngirni við úthlutun takmarkaðra gæða og byrða í stað sérhagsmuna og bankasölu á undirverði.

Í hnotskurn þá snýst erindi okkar sem berjumst fyrir félagslegum jöfnuði um að tryggja öllum öruggt skjól og hlutverk í samfélaginu.

Fátækragildran sem margir öryrkjar eru hnepptir í er smánarblettur á samfélaginu. Skammarlegt fyrirkomulag refsar þeim sem geta unnið og heldur þeim föstum í viðjum fátæktar. Svipta marga möguleikum á að eignast eigið húsnæði og fjölskyldu.

Líkt er á komið með tilteknum hópi eftirlaunafólks. Flestir hafa þokkalega eða ágæta framfærslu en nokkur hluti eldri borgara er fastur í kröppum kjörum og barningi á efri árunum sem allir vilja njóta við áhyggjuleysi út af framfærslu eftir langa ævi á vinnumarkaði.

Það er hlutverk og skylda okkar að rétta hlut þeirra sem minna  mega sín. Verða fyrir áföllum, heilsubresti og öðru því sem truflar og raskar tekjuöflun okkar á vegeferðinni í gegnum lifið.

Það er vitlaust gefið og við ætlum að jafna leikinn.

Björgvin G. Sigurðsson,
skipar 3. sæti á S-lista Samfylkingarinnar í Árborg.

Nýjar fréttir