-5 C
Selfoss

Fjárfesting í vexti og velsæld

Við í Bæjarmálafélaginu Áfram Árborg viljum velsæld allra í samfélaginu okkar. Íbúar eiga allir tilverurétt og skýlausan rétt á lögbundinni þjónustu.

Árborg er að breytast mikið og hratt og því fylgja vaxtaverkir. Róðurinn verður þungur næstu 2-3 ár og við ætlum ekki að lofa gulli og grænum skógum sem við vitum að eru ekki til. Það væri óheiðarlegt en við hjá Áfram Árborg stöndum fyrir heiðarleg og heilbrigð stjórnmál.

En þegar búið er að rétta hallann af og vaxtarverkirnir horfnir, þá er kominn grundvöllur fyrir því að lækka álögur.

Fjárfesting til framtíðar

Bygging íþróttahallarinnar, Stekkjaskóla, Goðheima, frístundamiðstöðvar, skólphreinsistöðvar og nýrra íbúðahverfa. Allt eru þetta er dýr ævintýri en nauðsynleg. Við lítum á þessar framkvæmdir í innviðum sem fjárfestingu í fólki.

En við verðum að tryggja sjálfbæran rekstur sveitarfélagsins.  2ja milljarða krónu halli á Aðalsjóði sveitarfélagsins á einu ári er  þungt högg.  Við megum ekki velta þessum kostnaði á framtíðarkynslóðir heldur verðum við að lagfæra þetta strax. Og það er hægt að tryggja sjálfbæran rekstur sveitarfélagsins án þess að skerða grunnþjónustu.

Sjálfbær rekstur sveitarfélagsins

Hér eru nokkrar leiðir sem Áfram Árborg vill ráðast í:

  • Sýnum aðhald í rekstri, m.a. með því að gera fjárhagsupplýsingar einfaldari og opna bókhald sveitarfélagsins.
  • Mótum samræmda innkaupastefnu fyrir allt sveitarfélagið með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi.
  • Framkvæmdir, hönnun þeirra og aðkeypt þjónusta á vegum sveitarfélagsins fari í opin útboð eða verðkannanir.
  • Gerum líftímaútreikninga á framkvæmdum – oft er ódýrasti kostur í útboði ekki sá hagkvæmasti til lengri tíma vegna rekstrar- og viðhaldskostnaðar.
  • Gerum raunhæfar viðhaldsáætlanir
  • Vöndum til verka við gerð fjárhagsáætlana og stöndum við þær.
  • Endurskoðum þátttöku sveitarfélagsins í byggðasamlögum eins og t.d. Bergrisann
  • Fjölgum  tekjustofnum í samningum við ríkið.

Ábyrgð ríkisins

Við þurfum að ganga til viðræðna við ríkisvaldið því sveitarfélög hafa verið skikkuð til að taka við verkefnum frá ríkinu en ekki fengið fjármunina sem þarf til að sinna þeim. Við verðum að endurskoða Jöfnunarsjóð sveitafélaga.

Síðast en ekki síst gerum við einarða kröfu á ríkið að láta af skerðingum á eldra fólki og öryrkjum. Skerðingarnar hafa mikil áhrif á þá einstaklinga en þær valda einnig mikili tilfærslu fjármuna milli ríkis og sveitarfélaga. Skerðingar ríkisins valda því að ríkið sparar sér útgreiðslu lífeyris og bóta til fólks. En á sama tíma tapa sveitarfélög útsvari en þurfa samt að sinna þjónustunni áfram.

Það verður að nýta skattfé almennings af ábyrgð og framsýni.  Fækkum bráðabirgðalausnum og fjölgum langtímalausnum.  Hugsum og skipuleggjum til framtíðar, ekki til enda næsta kjörtímabils. Aðeins þannig getum við tryggt velsæld íbúa og áframhaldandi vöxt sveitarfélagsins.

Álfheiður Eymarsdóttir
Oddviti Á lista Áfram Árborgar

Nýjar fréttir