0.6 C
Selfoss

Betri stjórnsýsla – betra samfélag

Í upphafi skyldi endinn skoða segir máltækið og er að mörgu að hyggja í þeim efnum ef ætlunin er að tryggja góða stjórnsýslu. Því segja má að líkt og Njáll á Bergþórshvoli mælti að með lögum skyldi land byggja, þá byggja góðir stjórnsýsluhættir réttlátt samfélag. Svo að hægt sé að viðhalda góðum stjórnsýsluháttum í daglegum störfum sveitarfélags er mikilvægt að settar séu reglur um störf sveitarstjórnar auk siðareglna fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja gagnsæi, traust og rekjanleika ákvarðanatöku.

N-listinn vill tryggja íbúum betri stjórnsýslu

Sveitarstjórn Rangárþings eystra skal setja sér siðareglur sem hafa að geyma þau gildi sem öll starfsemi sveitarfélagsins byggir á. Allir starfsmenn og kjörnir fulltrúar, svo og aðrir þeir sem starfa í umboði hennar, skulu jafnan hafa að leiðarljósi ákvæði siðareglna og það gildismat sem í þeim birtist. Forsendur siðareglna  skulu vera einkum jafnræðisregla, góð stjórnsýsla, málefnalegt gegnsæi og þjónustugæði. Siðareglur skulu minna kjörna fulltrúa og starfsmenn og aðra þá sem starfa í umboði hennar á þær víðtæku og ströngu siðferðiskröfur sem gerðar eru til þeirra og með því að fylgja þessum reglum efla það traust og þann trúverðugleika sem starfsemi sveitarfélagsins ber að hafa. Sveitarfélagið skal setja sér metnaðarfull markmið um góða stjórnsýslu, skilvirkni og málefnalegt gegnsæi allra verkferla og skal árlega yfirfara og uppfæra siðareglur eftir því sem við á. Verklagsreglur, siðareglur og samþykktar stefnur sveitarfélagsins skulu vera birtar, uppfærðar og aðgengilegar á vefsíðu sveitarfélagsins. Sveitarstjórn skal endurskoða og uppfæra siðareglur árlega. Athygli skal vakin á því að núgildandi siðareglur sveitarfélagsins voru undirritaðar 2012, eða fyrir um 10 árum.

N-listinn vill tryggja upplýsingaflæði til íbúa

Mikilvægt er að tryggja gagnsæi og upplýsingaflæði til íbúa með útgáfu fréttabréfs þar sem teknar eru saman umfjallanir um allar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, mikilvæg málefni og viðburði líðandi stundar sem og aðrar gagnlegar upplýsingar sem eiga erindi við íbúa sveitarfélagsins. Fréttabréfið skal gefið út fyrir hvern ársfjórðung með rafrænum hætti en einnig í boði á prenti fyrir íbúa sem óska þess.

N-listinn vill tryggja gildi og árangur sveitastjórnar

Sveitarstjórn Rangárþings eystra skal fagráða sveitarstjóra sem hefur hæfni og burði til að gegna því mikilvæga starfi. Sveitastjórn skal setja sér starfsáætlun til eins árs í senn og árlega meta árangur starfa sinna, verklag og starfshætti, svo og störf undirnefnda. Árlegu árangursmati er ætlað að bæta vinnubrögð og auka skilvirkni stjórnarinnar og felur matið meðal annars í sér að sveitarstjórn leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugi að þeim þáttum sem stjórnin telur að betur megi fara í störfum sínum. Mikilvægt er að sveitarstjórnin starfi í samræmi við verklagsreglur og að mikilvæg sveitarstjórnarmálefni séu nægilega vel undirbúin og rædd. Sveitarstjórn skal bregðast við niðurstöðum matsins.

N-listinn vill réttlátt samfélag fyrir alla íbúa, nýbúa og framtíðaríbúa Rangárþings eystra

Á sama tíma og sveitarstjórn auglýsir eftir vönduðum einstaklingum til lóðakaupa í Rangárþingi eystra kallar N-listinn eftir vandaðri og bættri stjórnsýslu á jafnréttisgrundvelli.

Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur og kúabóndi
Höfundur skipar 4. sæti hjá Nýja óháða listanum í Rangárþingi eystra

Nýjar fréttir